…og breytingar frá einni viku til annarrar.
Smelltu á viðkomandi viku númer:
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 1
- Síðustu blæðingar hefjast. Þegar meðgöngulengd er reiknuð er miðað við fyrsta dag síðustu blæðinga og því telst þessi vika með meðgöngunni þótt þú sért ekki orðin ófrísk ennþá. Eðlileg meðgöngulengd er 40 vikur +/- 2 vikur og á þessu fjögurra vikna tímabili fæða 75% kvenna. Innan við 10% kvenna fæða á áætluðum fæðingardegi, 50% ganga með allt að 41 viku og 90% kvenna fæða innan tveggja vikna frá áætluðum fæðingardegi. Meðgöngutími frumbyrju þ.e. konu sem gengur með sitt fyrsta barn er u.þ.b. viku lengri en meðgöngutími fjölbyrju. Talið er að 3.6% kvenna fæði á þeim degi sem áætlaður er samkvæmt síðustu blæðingum og 4,7% fæði á þeim degi sem áætlaður er samkvæmt sónar.
- Nákvæmur útreikningur á meðgöngulengd er mikilvægur. Það flækir hins vegar útreikninginn að konur hafa ekki allar 28 daga tíðahring og það hafa ekki allar konur egglos á 14. degi tíðahringsins.
- Lífsstíll þinn, líðan og heilbrigði barnsins haldast í hendur á meðgöngunni. Ef þú hefur í hyggju að verða þunguð, getur þú notað tímann til að búa líkama þinn sem best undir meðgönguna. Það gerir þú með því að neyta ekki áfengis, reykja ekki og nota ekki lyf nema í samráði við lækni. Vandaðu mataræði þitt og borðaðu næringarríkan og fjölbreyttan mat. Rannsóknir hafa leitt í ljós að neysla B-vítamínsins og folasíns á töfluformi getur minnkað líkur á meðfæddum göllum í miðtaugakerfi.
- Heiladingullinn losar hormón sem örvar þroska eggbúsins og eggjastokkarnir taka að losa estrogen sem hefur áhrif á legslímhúðina. Legslímhúðin í leginu þykknar og býr sig undir að taka á móti frjóvguðu eggi. Þessu ferli má líkja við hreiðurgerð.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 2
- Í lok þessarar viku ertu í miðjum tíðahringnum. Legslímhúðin heldur áfram að þykkna og þroskast og líkamin þinn framleiðir FSH sem örvar vöxt og þroska eggbúa. Nú verður egglos og eggjaleiðararnir sjá um að flytja eggið niður eftir eggjaleiðaranum. Á þessum tíma eru mestar líkur á frjóvgun. Við sáðlát losna milljónir sáðfruma sem ferðast upp leggöngin og hluti þeirra kemst upp í eggjaleiðarana þar sem eggið er. Einni sáðfrumu tekst að brjóta sér leið inn í eggfrumuna. Eggið og sæðið verða eitt, frjóvgun hefur átt sér stað.
- Strax við frjóvgun ræðst kyn barnsins. Af 46 litningum sem byggja upp erfðaefnið eru aðeins tveir sem stýra kyni þ.e. kynlitningar. Annar kemur úr sáðfrumunni og hinn úr eggfrumunni. Allar eggfrumur hafa svokallaðan x-litning en sáðfrumurnar hafa ýmist x eða y-litning. Ef sáðfruman sem frjóvar eggfrumuna ber í sér x-litning verður barnið stúlka en ef sáðfruman sem frjóvar eggfrumuna ber í sér y-litning verður barnið drengur.
- Erfðafræðilegir þættir eins og hárlitur og augnlitur ákvarðast við getnað.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 3
- Ör frumuskipting á sér stað. Um það bil 30 klukkustundum eftir frjóvgun skiptir fruman sér í tvær nákvæmlega eins frumur, þær skipta sér í fjórar frumur og síðan átta frumur, áfram í sextán frumur o.s.frv. Frumuskipting heldur áfram á leið fósturvísisins eftir eggjaleiðaranum niður í legið. Frumuskipting verður á u.þ.b. 12-15 klukkustunda fresti.
- Um það leiti sem fósturvísirinn kemur í legið samanstendur hann af u.þ.b. 200 frumum og er eins og lítil hrúga og kallast morula eða hrúgustig fósturs. Fósturvísirinn tekur sér bólfestu í legslímhúðinni og frumurnar sem seinna mynda fylgjuna hefja skipti á efnaboðum, súrefni og næringarefnum.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 4
- Fósturvísirinn eða hrúgan vex, vökvafyllt holrúm myndast og kallast nú blastocyst eða kímblaðra. Fósturvísirinn skiptir sér í tvo mismunandi hluta. Innri hlutinn verður að fóstri en ytri hlutinn verður að fylgju.
- Það byrjar að móta fyrir þeim hluta sem síðar verður að miðtaugakerfi og fyrirferð myndast á miðjum fósturvísirnum þar sem hjartað kemur til með að vera.
- Fósturvísirinn er enn svo örsmár að hann er ekki sjáanlegur með berum augum
- Eggjastokkarnir framleiða meðgönguhormónið Prógesteron sem styrkir legslímhúðina frekar
- Fylgjuvísirinn fer að framleiða hormón sem gefur líkama konunnar merki um að hún sé þunguð. Egglos og blæðingar stöðvast og í lok þessarar viku verður þungunarpróf jákvætt.
- Hluti kvenna finnur fyrir vægum samdráttarverkjum á þessum tíma og einstaka kona hefur smá blæðingar eða blóðuga útferð.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 5
- Stærð fóstursins er nú u.þ.b. 4 mm og útlit þess minnir helst á sæhest. Fósturvísirinn stækkar fjörutíufalt fyrsta mánuðinn, hvorki meira né minna.
- Fósturvísirinn skiptist í þrjú lög.
- Miðtaugakerfið þróast út frá efsta laginu. Heilinn, mænan, mænutaugarnar og hryggsúlan myndast á þessu svæði. Fyrstu drög að augum og eyrum eru lögð.
- Hjartað og blóðrásarkerfið þróast út frá miðlaginu. Fyrstu blóðfrumurnar og blóðæðar myndast og pípulaga hjarta verður til. Fóstrið hefur þó ekki ennþá sína eigin blóðrás
- Vísir myndast að útlimum þ.e. höndum og fótum.
- Fygjan með fjölda háræða tengir fósturvísirinn við legvegginn.
- Vitneskja um þungun vekur margvíslegar og ólíkar tilfinningar hjá verðandi foreldrum. Oft mikla gleði en jafnframt umhugsun um hvað sé framundan, hvernig lífið kemur til með að breytast, hvort að fóstrið þroskist ekki eðlilega og hvort að meðgangan gangi ekki eðlilega fyrir sig. Það er fyllilega eðlilegt að upplifa svolítið blendnar tilfinningar.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 6
- Stærð fóstursins er nú 5-6 mm, mælt frá hvirfli niður að rófubeini. Fóstrið hniprar sig saman á meðgöngunni þannig að fæturnir eru beygðir upp að kvið þess og því er erfitt að mæla fulla lengd frá hvirfli til ilja.
- Nú hefst myndun á líffærum fóstursins fyrir alvöru.
- Heili og taugakerfi þróast hratt.
- Neðri kjálki og raddbönd byrja að fá form.
- Munnop myndast.
- Myndun auganna hefst
- Innri eyru myndast.
- Hjartað slær en er ennþá aðeins með einu hólfi. Skilveggur fer að myndast í hjartanu. Á þessum tíma má sjá hjartslátt í sónar.
- Þarmakerfið er í þróun með þarmi, miðþarmi og endaþarmi.
- Eftirtalin líffæri myndast nú: lungu, lifur, briskirtill og skjaldkirtill.
- Á enda hnúðanna sem seinna verða handleggir fer að móta fyrir höndum sem á þessum tíma minna á spaða.
- Myndun hryggjar og rifbeina hefst
- Naflastrengurinn myndast en hann tengir saman barnið og fylgjuna. Í honum eru tvær slagæðar og ein bláæð. Fylgjan er á þessum tíma talsvert stærri en fósturvísirinn.
- Nú gæti hin verðandi móðir farið að finna fyrir þungunareinkennum. Hún finnur ef til vill fyrir mikill þreytu, brjóst hennar verða aum viðkomu og morgunógleði og jafnvel uppköst gera vart við sig. Hjá einstaka konum er morgunógleðin viðvarandi allan daginn en aðrar sleppa algjörlega við þennan hvimleiða kvilla.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 7
- Þungunin hefur margvísleg áhrif á líkama móðurinnar. Slímtappi hefur nú myndast í leghálsinum til að verja innihald legsins enn frekar, margar konur finna fyrir tíðari þvaglátum og bragð og lyktarskyn margra kvenna breytist. Brjóstin stækka og brúna svæðið umhverfis geirvörtuna breytist, liturinn dekkist og litlu bólunum fjölgar og þær verða greinilegri.
- Fingur og tær fara að myndast og handleggirnir geta beygst um olnboga og úlnlið.
- Augun verða greinilegri þar sem litur byrjar að myndast í sjónhimnu augans.
- Allt taugakerfi fóstursins þroskast mjög hratt. Gangnakerfi mænuvökvans þróast.
- Meltingarvegurinn lengist og það er ekki nægjanlegt rúm fyrir hann í kvið fóstursins þannig að hann skagar fram í naflastrenginn fram að 12 viku.
- Kynfæri fóstursins taka að myndast en ekki er hægt að greina hvort um er að ræða dreng eða stúlku.
- Nýrun byrja að þroskast og vinna.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 8
- Flestar konur hafa nú fengið þungun staðfesta og nú er tímabært að huga að því að panta fyrsta tíma í mæðraeftirliti. Gott mæðraeftirlit er mjög mikilvægt fyrir heilsu og öryggi móður og barns. Byrjaðu á því að leita til heilsugæslustöðvarinnar í hverfinu þínu og ræddu við ljósmóður eða heimilislækni. Þau ráðleggja þér um næstu skref.
- Fóstrið er nú 16-18 mm og vegur örfá grömm.
- Höfuðuð er hlutfallslega stórt og er sveigt niður í átt að brjóstkassanum.
- Efri vör myndast ásamt nefbroddi.
- Augnalok verða sýnileg.
- Bygging hjartans er fullþróuð og hjartað slær u.þ.b. 150 slög á mínútu.
- Myndun innri kynfæra þ.e. eggjastokka og eistna hefst sem og myndun endaþarmsins.
- Í sónar má sjá fóstrið hreyfa sig en móðirin skynjar þessar hreyfingar ekki ennþá.
- Njóttu meðgöngunnar sem mest þú mátt. Hafðu fæturna upp á borði, lestu góða bók, leigðu uppáhaldskvikmyndina þína eða farðu í rómantíska helgarferð með makanum. Örlítið sjálfsdekur gerir þér gott.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 9
- Fóstrið er nú 17-22 mm og fætur þess eru u.þ.b. 2 mm
- Hálsinn tekur á sig lögun.
- Vöðvar líkamans eru í þann veginn að fá form.
- Kjálkarnir eru fullþróaðir og vísir að tönnum komnir
- Munnhol og nef mynda nú eina heild
- Eyru og nef verða sjáanleg.
- Eistu drengja hefja framleiðslu á karlhormóninu testosteron.
- Öll helstu líffæri fóstursins hafa þegar myndast og byrja að vinna saman.
- Allar verðandi mæður hafa einhverjar áhyggjur af barninu sem þær ganga með og það er fullkomlega eðlilegt. Ef áhyggjurnar trufla þig skaltu reyna að ræða við maka þinn, vini, ljósmóður eða lækni. Aflaðu þér fróðleiks um meðgönguna og foreldrahlutverkið og mundu að tölfræðin er þér hliðholl. Flest börn fæðast heilbrigð.
- Ef áhyggjur þínar hafa slæm áhrif á daglegt líf þitt þarftu e.t.v. sérfræðihjálp.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 10
- Fóstrið er u.þ.b. 28-30 mm og vegur u.þ.b. 8 gr.
- Fingurnir skiljast alveg hver frá öðrum, sömuleiðis tærnar.
- Bragðlaukarnir byrja að myndast.
- Nú sést móta fyrir öllum 20 barnatönnunum.
- Nú er góður tími til að fara í fyrsu mæðraskoðun hjá ljósmóður og/eða fæðingar- og kvensjúkdómalækni. Í viðtalinu er almennt heilsufar, lífsstíll og líðan konunnar könnuð og rætt um væntingar hennar til meðgöngunnar. Meðgöngulengd er reiknuð og ef konan er gengin meira en 12 vikur er hlustað eftir hjartslætti fóstursins. Blóðþrýstingur er mældur og þyngd móður athuguð. Pantaðar eru blóðprufur til að athuga blóðmagn, blóðflokk, mótefni gegn rauðum hundum, sárasótt og aðrar blóðrannsóknir eftir þörfum. Þvagsýni er athugað fyrir eggjahvítuefnum og sykri. Það getur verið gott að skrifa niður þær spurningar sem hafa vaknað á síðustu dögum og vikum til þess að ekkert gleymist. Reikna má með að fyrsta skoðun taki allt að klukkustund. Ljósmæður nota gjarnan tækifærið og fræða verðandi foreldra um meðgönguna, mataræði og æskilegan lífsstíl á meðgöngu.
- Foreldrar þurfa að velta vel fyrir sér hvort þeir hafi áhuga á hnakkaþykktarmælingu en hún er gerð þegar fóstrið er 11 vikur og 5 dagar til 13 vikur og 5 dagar.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 11
- Fóstrið er u.þ.b. 4,5 sm og vegur um 10 grömm en á næstu vikum vex það hratt. Æðum fylgjunnar fjölgar hratt og þær stækka til að geta séð fóstrinu fyrir allri þeirri næringu sem það þarf á að halda.
- Höfuðið er orðið hnöttóttara og er hlutfallslega mjög stórt miðað við búkinn
- Augnlokin eru orðin auðséð.
- Nú hafa mikilvæg líffæri fósturins myndast í aðalatriðum og þurfa nú aðeins að stækka og þroskast.
- Nýrun hafa tekið til starfa. Fóstrið kyngir legvatni og skilar því út sem þvagi.
- Nú er kviðarholið að verða nægilega stórt til að rúma meltingarveginn
- Heilinn og miðtaugakerfið halda áfram að þróast
- Litlar fingur- og táneglur taka að myndast.
- Í þessari viku myndast raddböndin.
- Almennt fer líðan verðandi mæðra að batna. Morgunógleðin ætti að fara að minnka, þreytan að hverfa og orkan að aukast.
- Margar konur velta fyrir mataræðinu og hvað sé hæfileg þyngdaraukning á meðgöngunni.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 12
- Augun eru lokuð til að verja þau á meðan þau þroskast.
- Fóstrið vegur nú um 18 gr og lengd þess er um 6 cm.
- Nú lýkur fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Fósturlátshættan er að mestu liðin hjá og flestum konum fer að líða vel. Ef við líkjum meðgöngunni við flugferð, þá getum við sagt að nú sé flugtaki lokið og flestar konur sigla/fljúga nokkuð lygnan sjó næstu vikurnar.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 13
- Fóstrið er nú um það bil 8 cm og þyngd þess er um 37 gr.
- Í þessari viku vex legið upp fyrir lífbeinið.
- Búast má við að líðan þín fari áfram batnandi. Þær sem hafa þjáðst af ógleði eiga fleiri og fleiri góða daga.
- Fíngerð litlaus hár taka að myndast á líkama og andliti fóstursins.
- Greina má kyn barnsins en erfitt getur verið að sjá það í sónar vegna smæðar.
- Skjaldkirtill hefur framleiðslu á hormónum.
- Magn legvatns er um 100 ml.
- Fóstrið sýgur, kyngir og gerir öndunaræfingar.
- Líkami fóstursins vex nú hraðar en höfuðið.
- Hreyfingar hefjast í vöðvum meltingarvegarins.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 14
- Fóstrið mælist 9 sm langt og vegur u.þ.b. 40 gr
- Augun færast smám saman framan á andlitið.
- Kinnarnar verða sjáanlegar.
- Nefið verður skarpara og auðgreinanlegra.
- Eyrun eru rétt staðsett og hafa fengið endanlegt form.
- Húð fóstursins er svo þunn að allar æðar eru sjáanlegar í gegnum hana.
- Stoðkerfi fóstursins þróast hratt, beinagrindin og vöðvarnir stækka og styrkjast.
- Hjá kvenkynsfóstrum færast eggjastokkarnir niður í mjaðmargrindarholið og blöðruhálskirtill karlfóstra þróast.
- Stærð legsins er á við greipaldin.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 15
- Fóstrið þitt vegur nú um 80 gr og er um 10 sm að lengd
- Handleggir hreyfast og hnefar kreppast.
- Andlitsvöðvar styrkjast og fóstrið sýnir svipbrigði eins og að hnykkla brýrnar.
- Hálsvöðvarnir styrkjast og fóstrið getur snúið höfðinu.
- Andlitsdrætti fóstursins skýrast og gjarnan má sjá þumalinn í munninum í sónar.
- Framleiðsla literefnis í hárið hefst.
- Fóstrið vex hraðar og þyngdaraukning verður meiri.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 16
- Fóstrið mælist nú 11,5-13 sm og vegur tæplega 100 gr.
- Neglur eru komnar á fingur.
- Mögulega geta fjölbyrjur þ.e. konur sem hafa gengið með börn áður fundið hreyfingar fóstursins. Í byrjun líkist þetta fiðrildaflögri eða meltingarskruðningum og konan er ekki viss hvort þetta séu hreyfingar eða ekki Einn góðan veðurdag fer það þó ekki á milli mála, þetta eru hreyfingar.
- Magn legvatns er um 180 ml.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 17
- Fóstrið hefur náð 12 sm lengd frá hvirfli að rófubeini og það vegur um 160 grömm.
- Höfuðið er u.þ.b. 4 sm að þvermáli og fæturnir eru um 2 sm langir.
- Það myndast fitulag á yfirborði fóstursins en fitulagið hefur hitajafnandi áhrif.
- Nú fer að líða að því að fóstrið byrji að heyra. Beinin í innra eyranu og taugaendar frá heilanum þróast þannig að fóstrið fer að heyra hjartslátt þinn og meltingarhljóð.
- Nú byrja bein að harðna eða beingerast. Með fyrstu beinum til að harðna eru viðbeinin og beinin í fótleggjunum
- Umtalsverðar breytingar eiga sér stað á brjóstum hinnar verðandi móður. Hormón undirbúa brjóstin fyrir mjólkurframleiðslu, blóðflæði til brjóstanna eykst mjólkurkirtlarnir stækka. Þetta leiðir til þess að brjóstin stækka og bláæðakerfi þeirra verður oft sýnilegra.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 18
- Fóstrið er nú um 14 sm á hæð (sethæð) en næstum 20 sm í fullri lengd frá hvirfli til ilja, ef það gæti rétt úr sér og vegur um 200 gr.
- Nethimnan í auganu er nú orðin ljósnæm.
- Fyrstu hægðir (meconium) safnast fyrir í þörmum og fóstrið pissar á hverri klukkustund. Þvagið fer út í legvatnið og fóstrið drekkur það aftur.
- Flest úrgangsefni fóstursins fara um fylgjuna og hreinsast gegnum blóðrásarkefi móðurinnar.
- Fitukirtlar húðarinnar taka að framleiða fósturfitu. Fósturfitan verndar húðina gegn því að verða þurr og sprungin og ef barnið fæðist fyrir tímann getur það verið þakið fósturfitu.
- Nú fer að líða að því að frumbyrjur þ.e. konur sem ganga með sitt fyrsta barn fari að finna hreyfingar. Þó geta liðið nokkrir dagar/vikur enn án þess að nokkuð sé óeðlilegt.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 19
- Lengd fóstursins er í kringum 15 sm og þyngd tæplega 250 gr.
- Margar konur velta fyrir sér hvort kynlíf á meðgöngu geti skaðað fóstrið. Svarið er nei. Það er talið óhætt að stunda kynlíf alla meðgönguna svo framarlega sem hún gengur eðlilega fyrir sig. Hitt er annað mál að löngun kvenna til kynlífs á meðgöngutímanum er mjög breytileg og litast oft af líðan þeirra. Margar konur og raunar karlmenn líka finna til minni löngunar til kynlífs eftir því sem líður á meðgönguna. Lykilatriði er að deila tilfinningum sínum og löngunum með makanum þ.e. tala saman. Ef þú einhverra hluta vegna ert í áhættuhópi á meðgöngu, skaltu ræða við lækninn þinn um hvort óhætt sé að stunda kynlíf.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 20
- Fóstrið mælist nú 16 sm og vegur tæplega 300 gr.
- Nú er góður tími til að fara í sónar. Þá er meðgöngulengdin metin, hvar fylgjan er staðsett, legvatnsmagnið er metið og hugsanlegir fósturgallar greindir.
- Nú er fóstrið orðið það stórt að auðveldara er að skoða einstök líffæri og líffærakerfi
- Meðgöngulengd er reiknuð út frá stærð höfuðsins og lengd lærleggjarins
Fjölburaþunganir greinast ef ekki hefur verið ómskoðað áður. - Staðsetning fylgju er skoðuð
- Hingað til hefur lifur og milta fóstursins framleitt blóðfrumur. Nú tekur beinmergurinn til starfa og smátt og smátt yfirtekur hann alveg þetta hlutverk. Lifrin hættir framleiðslu blóðfruma nokkrum vikum fyrir fæðingu og miltað hættir framleiðslu í kringum 30. viku meðgöngunnar.
- Í lok þessarar viku er meðgangan u.þ.b. hálfnuð
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 21
- Fóstrið er um 17 sm langt í sethæð og vegur um 380 gr og það vex ört.
- Hjá stúlkubörnum hafa leggöngin myndast og eggjastokkarnir innihalda þegar yfir sex milljónir eggja.
- Hjá drengjum er pungurinn ennþá tómur en eistun sem myndast í kviðnum taka að síga niður.
- Taugakerfi fóstursins þróast hratt þessa dagana en yfirborð heilans er ennþá slétt.
- Bragðlaukar taka að myndast á tungu fóstursins og talið er að fóstrið geti skynjað snertingu.
- Fóstrið sefur stóran hluta sólarhringsins.
- Margar konur velta fyrir sér hvort óhætt sé að stunda líkamsrækt á meðgöngu. Það er í góðu lagi. Líkamsrækt er góð leið til vellíðunar og getur hjálpað til að minnka líkur á ýmsum fylgikvillum þungunar eins og t.d. æðahnútum, bakverkjum, grindarverkjum og óhóflegri þyngdaraukningu. Meðgangan er þó ekki rétti tíminn til að hefja undirbúning fyrir heilmaraþon eða vaxarræktarkeppni. Fjölmargt er í boði fyrir barnshafandi konur, má þar nefna sund, jóga og leikfimi sem sniðin er að þeirra þörfum. Hver kona verður að sníða sér stakk eftir vexti, í þessum efnum sem öðrum og meginreglan er sú að hlusta á líkama sinn og virða þau skilaboð sem hann sendir okkur.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 22
- Á þessum tíma byrja margar konur að finna fyrir samdráttum. Legið harðnar og slaknar og þetta getur jafnvel gerst oft á dag og er eðlilegt. Sumar konur finna ekki fyrir þessu meðan aðrar skynja óþægindi og jafnvel verki. Þessi samdrættir aukast gjarnan eftir því sem líður á meðgönguna. Mundu að ef samdrættirnir verða kröftugir, sárir eða mjög tíðir skaltu hafa samband við lækni eða ljósmóður því mögulega gæti þetta verið merki um yfirvofandi fyrirburafæðingu.
- Fóstrið bregst við hljóðum og regla kemst á svefn og vöku.
- Taugaendar fóstursins eru nægilega þróaðir til að það finni fyrir því sem snerta hendur þess.
- Fóstrið getur vaknað við hreyfingar móðurinnar.
- Fóstrið er nú 18 sm og vegur um 450 gr. Það þyngist nú meira en 70 gr á viku.
- Örlítil fita er farin að safnast á líkama fóstursins en húðin virðist þó heldur rúm fyrir líkama þess.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 23
- Súrefnisþörf fóstursins er fullnægt með því súrefni sem það fær gegnum fylgjuna en á því augnabliki sem barnið fæðist þarf það að taka við því hlutverki. Lungun þurfa að undirbúa sig fyrir það. Nú hefst framleiðsla á svokölluðu ,,surfactant” en hlutverk þess er að varna lungnablöðrunum frá því að falla saman.
- Fóstrið mælist yfir 20 sm og vegur um 520 gr.
- Innra eyra fóstursins er nú fullþroskað og þróun jafnvægisskyns er hafin.
- Nú leynir sér ekki lengur á útliti hinnar verðandi móður að hún er barnshafandi.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 24
- Barnið þyngist nú um meira er 85 gr á viku og vegur nú ríflega 600 gr og mælist 21 sm í sethæð.
- Augnhár og augabrúnir sjást greinilega.
- Örfínar línur sjást í lófum og á fingrum þ.e. fingraför eru farin að myndast.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 25
- Fóstrið mælist um 22 sm og vegur 750 gr.
- Kynfærin þróast til fullnustu og leggöng stúlkna eru fullsköpuð.
- Fræðilega á fóstrið möguleika á að lifa af ef til fæðingar kemur en barnið þyrfti þó á mjög sérhæfðri meðferð á nýburagjörgæsludeild að halda í margar vikur.
- Meðgöngunni geta fylgt ýmis meltingaróþægindi. Meðgönguhormónið progesteron hægir á tæmingu magans auk þess sem það slakar á efra magaopinu. Þetta getur leitt til þess að súrt magainnihald flæðir upp í vélindað og veldur brjóstsviða. Hægðatregða getur gert vart við sig og jafnvel gyllinæð. Hin verðandi móðir þarf að vera mjög meðvituð um mataræði sitt. Reyndu að borða margar, litlar máltíðir og forðastu mikið kryddaðan og feitan mat.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 26
- Barnið er 23 sentimetra langt í sethæð og vegur yfir 850 gr.
- Fæturnir mælast 5 sm.
- Barnið getur nú opnað og lokað augunum og greinir ljós frá myrkri.
- Með hverri vikunni sem líður aukast möguleika barnsins á því að lifa og verða heilbrigður einstaklingur þó það fæðist fyrir áætlaðan fæðingardag. Helstu vandamálin, ef til fæðingar kæmi, tengjast vanþroska lungna, lifur, miðtaugakerfis og ónæmiskerfis.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 27
- Hið ófædda barn mælist nú 24 sm og vegur um 1 kg.
- Höfuðið orðið 7 sm í þvermál.
- Ef hinir verðandi foreldrar vilja fara á foreldrafræðslunámskeið er tímabært að huga að því. Ræddu málið við ljósmóðirna þína og hún getur leiðbeint þér um hvert þú getur leitað.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 28
- Barnið hefur nú náð um það bil þriðja hluta af væntanlegri fæðingarþyngd.
- Það vegur u.þ.b. 1150 gr og mælist 25 sm í sethæð.
- Fætur mælast nú næstum 5,5 sm.
- Hárin á höfðinu eru orðin hlutfallslega löng.
- Barnatennurnar undir gómnum eru myndaðar.
- Nú hefst síðasti þriðjungu meðgöngunnar og það markar ákveðin þáttaskil. Hjá hluta kvenna fer róðurinn að þyngjast og ýmis vandamál sem tengjast vaxandi fyrirferð og þunga geta gert vart við sig. Lífsstíll hinnar verðandi móður skiptir þar sköpum.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 29
- Barnið mælist nú um 26 sm í sethæð og vegur 1,3 kíló.
- Barnið gerir öndunaræfingar, þær verða reglulegri og stöðugri. Mörg börn fá hiksta sem móðirin finnur greinilega fyrir.
- Á þessum tíma breytast hreyfingar barnsins. Hreyfingar geta verið svolítið mismunandi en það er eðlilegt viðmið að finna barnið hreyfa sig tíu sinnum á þeim klukkutíma sem það er virkast. Ef þér finnst hreyfingar óeðlilega litlar skaltu ræða það við ljósmóðurina þína.
- Svefnerfiðleikar geta gert vart við sig. Hlúðu vel að þér. Heitt bað getur gert kraftaverk, flóuð mjólk, nudd, slökunartækni eða lestur á góðri bók. Aukakoddar, aukasæng og rennilak geta gert kraftaverk.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 30
- Barnið getur nú bæði fundið bragð og skynjað sársauka.
- Það er 27 sm og vegur 1,5 kg.
- Höfuðið er næstum 8 sm að þvermáli.
- Fæturnir næstum 6 sm langir.
- Hrukkótt húðin sléttist mikið.
- Hjá drengjum eru eistun nú komin niður í pung.
- Barnið stjórnar nú sjálft líkamshita sínum.
- Hægðatregða er algengur kvilli á meðgöngu. Hreyfðu þig reglulega, borðaðu trefjaríkt fæði og drekktu vel.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 31
- Augun eru nú alveg opin.
- Barnið vegur 1,8 kg og mælist 28 sm frá rófubeini að hvirfli í setstöðu.
- Mjólkurkirtlarnir í brjóstunum eru sennilega farnir að framleiða brodd. Broddur er þykk, gulleit mjólk sem nærir barnið fyrstu dagana eftir fæðingu, áður en hin eiginlega mjólkurframleiðsla hefst. Broddurinn er ríkur af eggjahvítuefnum og mótefnum og er hin fullkomna fæða fyrir nýfætt barn.
- Hárdúnninn sem þekur líkama barnsins á meðgöngunni fer að detta af. Dúninn má þó gjarnan sjá á baki og öxlum barna við fæðingu.
- Fjölmargar spurningar varðandi fæðinguna vakna. Notaðu tímann til að safna upplýsingum og átta þig á því hvað hentar þér best.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 32
- Barnið vegur 1,9 kg og lengd þess nálgast 30 sm
- Þvermál höfuðsins er 8,2 sm.
- Fitulagið undir húðinni þykknar og því breytist húðlitur barnsins frá rauðum yfir í bleikan lit.
- Táneglur vaxa.
- Í sérhverri mæðraskoðun er fylgst með blóðþrýstingnum og athugað hvort þú hafir eggjahvítu í þvagi eða vaxandi bjúg. Þá er m.a. verið að leita að einkennum um meðgöngueitrun.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 33
- Barnið vegur nú næstum 2,2 kg.
- Þvermál höfuðsins er um 8,5 sm.
- Sethæðin, frá rófubeini til hvirfils er 30,5 sm en full lengd barnsins er um 45 cm
- Barnið er orðið það stórt að þú getur jafnvel greint ákveðna líkamshluta þess gegnum kviðvegginn t.d. höfuð þess, rassinn, hné eða olnboga.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 34
- Börn sem fæðast um eða eftir 34 vikna meðgöngu eiga mjög góða möguleika á að lifa af og verða fullfrískir einstaklingar.
- Börn sem fæðast fyrr en hér er um að ræða hafa þó einnig góða möguleika vegna nútímatækni við umönnun fyrirbura.
- Neglur á fingrum eru nú fullvaxnar
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 35
- Barnið stækkar jafnt og þétt og líffæri þess þroskast.
- Húðin er ekki eins hrukkótt og var, það er eins og barnið passi betur í hana.
- Margar konur finna fyrir mæði og andþyngslum vegna vaxandi fyrirferðar barnsins. Lyftu brjóstkassanum með því að krossleggja fingurna á hnakkanum.
- E.t.v. kemur fram slit á húðinni á maganum, brjóstunum, lærunum, mjöðunum eða rassinum. Hvort húð konunnar slitnar ræðst fyrst og fremst af húðgerð hennar og þyngdaraukningu. Því miður hefur ekki fundist ennþá það krem sem hindrar slit.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 36
- Barnið er nú 33 sm og vegur yfir 3 kg. Búast má við að það þyngist um 250 gr á viku.
- Líkami barnsins byrjar nú að verða bústinn (þybbinn).
- Margar verðandi mæður finna fyrir vaxandi fyrirvaraverkjum.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 37
- Barnið mælist nú 34 sm í sethæð og vegur allt að 3,2 kg.
- Höfuðið er orðið yfir 9 sm að þvermáli.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 38
- Líkamsfitan heldur áfram að aukast
- Sethæðin er nú um 35 sm og þyngdin í flestum tilfellum yfir 3,3 kg.
- Hin dúnkenndu hár, sem hafa þakið líkama barnsins mikinn hluta meðgöngutímans hverfa nú.
- Hrukkur húðarinnar eru nú horfnar.
- Barnið kemur sér fyrir í fæðingarstellingar.
- Flest börn eru með höfuðið niður. Um það bil 3-4 % fæðast þó í sitjandi stöðu, það er með rófubeinið/fæturna á undan.
- Nú telst barnið fullburða. Ekki byrja samt að bíða strax, þú gætir átt allt að fjórar vikur eftir ennþá af meðgöngunni.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 39
- Barnið mælist nú um 36 sm (sethæð) og vegur 3,4 kg.
- Höfuðið er u.þ.b. 9,5 sm að þvermáli.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 40
- Nú fer fæðingin að nálgast.
- Barnið er nú tilbúið til fæðingar og mælist um 37 sm (í sethæð) og vegur oftast um og yfir 3,5 kílógrömm.
- Höfuðið er að þvermáli um 9,5 sm.
- Naflastrengurinn er 50 sm langur.
- Búast má við að fæðingarhríðir hefjist.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 41
- Það er eins og meðgöngunni ætli aldrei að ljúka en bíddu róleg.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
Vika 42
- Sérhver dagur er lengi líða en það geta ekki orðið margir dagar enn. Í lok þessarar viku verður framkölluð fæðing ef þú ferð ekki sjálf af stað.
- Til hamingju með barnið. Þessu langa en spennandi ferðalagi er lokið en annað, ekki síður spennandi, tekur við.
Fara aftur upp í vikuyfirlitið
uppfært 13.5.2020 af Teiti Guðmundssyni lækni
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar