Hvað er Hashimoto’s sjúkdómur?

Spurning:

Komið þið sæl.

Mig vantar upplýsingar um sjálfsofnæmi sem heitir Hashimoto's en þetta er skjaldkirtilssjúkdómur. Eins hvort að þetta sé arfgengur sjúkdómur og hvenær sé hægt að komast að því hvort viðkomandi er með hann. Ég er að spá í þetta þar sem ég er með sjúkdóminn og hvort dóttir mín gæti hugsanlega verið með hann líka. Hún er mjög stór og mikil fyrir sinn aldur.

Kveðja.

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Til er sjálfsofnæmissjúkdómur sem leggst á skjaldkirtil og heitir hann Hashimoto’s sjúkdómur. Þessi sjúkdómur er algengari hjá konum en körlum (8 konur : 1 karl) og er algengast að hann greinist hjá konum á aldrinum 30–40 ára. Orsök sjúkdómsins er ekki þekkt og því ekki þekkt nein leið til að koma í veg fyrir hann. Þeir sem eiga ættingja sem hafa sjúkdóminn eru líklegri til að fá hann einnig. Skjaldkirtillinn situr framan á hálsinum og megin hlutverk hans er að stjórna orkuflæði líkamans, og gerir hann það með framleiðslu á svokölluðum skjaldkirtilshormónum sem hafa áhrif á efnaskiptahraða líkamans.

Hashimoto’s sjúkdómur er í flestum tilfellum hæggengur sjúkdómur og sjúklingar oft einkennalausir árum saman áður en einkenni koma fram. Þeir sem fá einkenni geta fundið fyrir óþægindum eða þrýstingi framan á hálsi og jafnvel fundist óþægilegt að kyngja og er þá oftast hægt að þreifa kirtilinn stækkaðan framan á hálsinum. Við Hashimoto’s sjúkdóm minnkar framleiðsla kirtilsins og efnaskipti verða hægari og geta þá komið fram einkenni eins og þreyta, gleymska, þunglyndi, þurr húð og hár, hægur hjartsláttur, kulsækni, þyngdaraukning og hægðatregða.

Það fer svo eftir einkennum sjúkdómsins hver meðferðin er, ekki er til lækning við sjúkdómnum. Ef sjúklingur er kominn með einkenni er rétt að meðhöndla viðkomandi með skjaldkirtilshormónum sem gefin eru í töfluformi og er einstaklingsbundið hversu stóra skammta þarf.

Ef þú hefur grun um að dóttir þín gæti haft þennan sjúkdóm er rétt fyrir ykkur að hafa samband við heimilislækninn ykkar sem getur með skoðun og blóðrannsókn, ef hann telur þurfa, greint hvort svo sé.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni, gangi ykkur vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.