Spurning:
Ég er 21 árs og ég er 60 kg og aðeins 1.62 metrar á hæð. Í byrjun júní ákvað ég að hætta öllu nammiáti og byrjaði að svelta mig. Þetta gerði ég í 3 vikur og missti líklega um 4-5 kg á þessum stutta tíma. Núna borða ég heilsusamlega og þrátt fyrir það að ég vinni í sjoppu og sé umkring nammi heilu dagana langar mig ekkert sérstaklega í nammi. Mér hefur semsagt tekist að breyta matarræðinu og borða t.d. mikið af Pascual-jógúrti, pasta með pastasósu (Hunts) og grænmeti og hollum mat. Ég borða ekki smjör og fæ mér aldrei ost út á brauð, borða brauð bara tómt, þá helst fransbrauð. Ég ákvað að hætta alveg að borða pizzur og steikta hamborgara og feitan skyndibitamat. Ég drekk a.m.k. 2-3 lítra af vatni á dag. Stundum freistast ég til þess að fá mér pylsubrauð með tómatsósu og sinnepi en ég hef það sem reglu að borða pylsur bara um helgar (ekki of mikið). Ég fæ mér stundum diet kók en ekki of oft. Ég fæ mér örsjaldan einn og einn sterkan brjóstsykur en afar sjaldan. Einnig dregur systir mín mig í þrek með sér og þrátt fyrir að mér finnist það leiðinlegt veit ég að það er nauðsynlegt að hreyfa sig.
Einni klst fyrir stóra máltíð fæ ég mér Bogense-fæðubótaefni til að hraða brennslunni og þar af leiðandi fæ ég ekki samviskubit eftir að hafa borðað. Að sjálfsögðu fylgi ég leiðbeiningunum. Einnig nota ég Bogense-sápuna.
Ég hef prófað Slimming-formula frá Vega og líka Fat Binder en mér fannst Slimming Formula ekki sýna mikinn árangur og Fat Binder finnst mér valda höfuðverkjum og hraðari hjartaslætti.
Þrátt fyrir þessar breytingar á matarræðinu finnst mér ég ekki sjá neinn mun á mér. Allir segja að ég hafi grennst alveg helling og líti vel út en mér finnst sjálfri að ég þurfi að losna við 10 kg fyrir haustið þar sem ég er orðin leið á því að vera feit.
Ég borða fitulítinn mat en hollan mat. Er einhver von að ég nái af mér þessum 10 kg haldi ég áfram á þessari braut? Ég veit að maður á ekki að missa of mörg kíló á svona stuttum tíma en ég er AFAR viðkvæm fyrir offitu og mig langar til að vera eins grönn og ég var. Ég hef bæði upplifað einkenni Anorexíu og Búlímíu og vil helst ekki ganga í gegnum það aftur.
Hvað ætti ég að gera til að auka þyngdartapið og líta þokkalega út í haust (án sveltis og uppkasta) ? Er ég á réttri leið?
Ein með reynsluna
Svar:
Sæl.
Til að losna við aukakílóin þarf líkaminn að brenna fleiri hitaeiningum en hann innbyrðir. Þú virðist vera á réttri leið og fyrst fólki sem umgengst þig tekur eftir því að þú hafir grennst þá er líklegt að svo sé. Þú hlýtur líka að finna mun á fötunum þínum.
Vertu dugleg að æfa. Það er lykilatriði til að ná árangri og halda honum varanlega. Ég tel reyndar að það sé lítið gagn í þessum „megrunarefnum“ sem þú nefnir. Þú getur sparað þér þann pening.
Vertu þolinmóð og gefðu þér tíma til að ná þessum kílóum af þér. Það er vænlegast til árangurs. Þú ættir sérstaklega að forðast allar öfgar ekki síst vegna þess að þú hefur upplifað einkenni af átröskunarsjúkdómum.
Hugsaðu „heilbrigði og hollusta“ nr. 1,2 og 3. Mikil hreyfing, hollt fæði og fjölbreytt, mikið af ávöxtum og grænmeti og umfram allt að gæta hófs.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Ágústa Johnson