Spurning:
Góðan daginn.
Ég á 11 mánaða gamla dóttur. Hún er farin að borða ýmsar fæðutegundir þó ekki fisk eða mjólk og borðar lítið af kjöti. Hún er enn á brjósti en fyrst og fremst á morgnana og kvöldin. Hún borðar gjarnan kartöflur, hrísgrjón, pasta, ost brokkóli, tómata og flestalla ávexti og borðar vel. Hún fær graut á hverjum degi og er sérlega hrifin af Cheeriosi. Hún er nýlega farin að fá jógúrt.
Hún er um 8,7 til 9 kg. en aðeins hefur hægst á þyngdaraukningu frá því sem áður var. Hún er með hvítar rendur á þumalfingursnöglum, en ég hef alltaf talið að þá vanti viðkomandi kalk. Ég drekk mjög litla mjólk og drakk næstum því enga mjólk þegar hún var ca 2-6 mán. þar sem hún virtist fá snert af magakveisu þegar ég drakk mjólk. Þar sem ég hef síðustu ár drukkið lítið af mjólk bað ég um að kalkmagnið yrði mælt hjá mér á meðgöngu en það kom vel út, ég er núna með hvíta bletti á einni nöglinni.
En fyrirspurn mín er þessi. Getur verið að dóttur mína vanti kalk eða önnur næringarefni?? Hvernig lýsir kalkskortur sér?
Með fyrirfram þökk fyrir aðstoðina.
Virðingafyllst.
Svar:
Sæl.
Mér sýnist nú að stúlkan sé að fá góða og fjölbreytta fæðu þótt hún borði hvorki kjöt né mjólk. Kalk fær maður úr fleiri fæðutegundum en mjólk, eins og t.d. grænmeti, soyavörum og korni. Ennfremur má hafa það í huga að líkaminn nýtir betur kalkið úr meðhöndluðum mjólkurafurðum, eins og jógúrt, heldur en nýmjólk. Það sem hins vegar þarf til að nýta kalkið sem best er D-vítamín, og þar getur þú notað hvort heldur er AD dropa eða lýsi. Einnig myndar líkaminn D-vítamín ef sól skín á húðina. Ef lítið er um mjólkurafurðir í fæðinu er mikilvægt að fá kalkið úr annarri fæðu eins og grænmeti og soyaafurðum. Þú myndir nú sjálfsagt græða sjálf soldið á því að taka kalktöflur til að bæta þér upp mjólkurleysið, sérstaklega þar sem þú ert búin að vera svona lengi með stúlkuna á brjósti.
Vertu ekki að hafa verulegar áhyggjur af kalkleysi, haltu bara áfram að kynna barnið fyrir allskonar mat, í öllum litum og með alls konar lögun, þannig fær maður fjölbreyttustu næringuna og þar með öll þau efni sem þarf. Til frekari glöggvunar getur þú einnig farið inn á vef manneldisráðs, og séð hvaða matvæli eru ríkust af kalki.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir