2 ára og farinn að taka frekjuköst

Spurning:

Sæl.

Ég er í vanda með son minn. Hann er að verða tveggja ára gamall og er allt í einu farinn að taka svo mikil frekjuköst.

Það er sama hvað það er sem er verið að gera fyrir hann eða með honum, t.d úti með hann að leika eða með hann í baði, þegar því er lokið þá verður hann alveg brjálaður.

Hann verður ekkert lítið brjálaður og það tekur dágóðan tíma að ná honum niður.

Hann er ennþá heima með mér en við búum erlendis og hann kemst ekki inná leikskóla strax en hann er mikill orkubolti og nýtur sín vel í hópi barna. Getur verið að hann sé svona leiður á að vera heima?

Hvað á ég að gera þegar hann tekur þessi köst.Ég hef miklar áhyggjur af honum þegar hann lætur svona, er eðlilegt að svona ung börn verði svona rosa reið.Vonandi getur þú ráðlagt mér.

Kveðja, ein ráðvillt.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Sonur þinn hefur örugglega gott að því eins og önnur börn að komast eitthvað í leikskóla, en hvort honum leiðist hjá þér, það get ég ekki vitað. Hins vegar þekkja það flestir að erfitt getur reynst að fá börn (og fullorðna) til að hætta því sem þeim þykir skemmtilegt að gera, þótt flestir reyni það á lífsleiðinni að „hætta skal leik þá hæst stendur“. Þú veltir því fyrir þér hvort svona mikil reiðiköst sonar þíns séu eðlileg. Ég ræð það af bréfi þínu að drengurinn sé fyrsta barn þitt og sting upp á því að þú finnir þér einhverja góða bók sem fjallar um þroskaferil barna og einkenni hans. Mér þykir ólíklegt að þú þurfir að hafa sérstakar áhyggjur af þessari hegðun, eins og þú lýsir henni er hún bundinn ákveðnum aðstæðum. Hins vegar getur það verið nokkuð snúið að meta af frásögnum hversu mikið „mikið“ er, þar að auki sem mat manns ræðst nokkuð af því hverju maður hefur vanist. Að taka á því þegar sonur þinn vill ráða, er eðlilegur og sjálfsagður þáttur í því að ala hann upp.

Nú er það þannig að störf og önnur viðfangsefni sem fólk sækist eftir að sinna og talar um að séu skemmtileg, hafa ef vel er að gáð ákveðin sameiginleg einkenni. Til útskýringar getum við greint þessi sameiginlegu einkenni í þrjá meginþætti: Í fyrsta lagi eru þær aðstæður sem við vinnum verkið við eða erum yfirleitt stödd í þegar við sinnum því. Aðstæðurnar getum við kallað A.

Í öðru lagi er það sem við erum að gera, þ.e. hegðun okkar við þessar aðstæður. Köllum hegðunina H.

Í þriðja lagi eru viðbrögð umhverfisins við því sem við gerum. Allt sem við gerum hefur einhverjar afleiðingar, undan því verður ekki vikist. Þær geta hins vegar verið með ýmsu móti. Stundum eru þær þess eðlis að við sjáum eitthvað virka, einhvern árangur – við ráðum við það sem við erum að fást við. Þá er mjög líklegt að við höldum verkinu áfram.

Stundum er einnig sérstaklega hlutast til um verkin okkar og við fáum umsvifalaus viðbrögð frá öðrum, eins og svar, viðurkenningu eða hrós. Þegar það gerist, þá er einnig líklegt að við höldum því áfram með það sem við erum að fást við. Afleiðingar sem eru af því tagi að viðhalda hegðuninni sem á undan þeim fór eru sagðar vera styrkjandi, og við getum kallað þær A+

Þú veltir því væntanlega fyrir þér, ásamt öðrum lesendum, hvers vegna ég er að fjalla um þessa greiningu þegar þú spyrð um reiðiköst tveggja ára sonar þíns. Nú kemur það í ljós.

Leikur felur einmitt í sér þessa sömu þrjá megin þætti: Aðstæður (A:) t.d. sand, Hegðun (H) t.d. að grafa með skóflu, og umsvifalausar Afleiðingar ( A+ ), það myndast hola í sandinn.

Ólíkt því sem margir því miður þekkja af vinnustað og úr skóla, þá bætast oft við þessar náttúrulegu afleiðingar sérstök viðbrögð og viðurkenning annarra, í þessu dæmi gæti það verið „Nei sko, enn hvað þú ert duglegur strákur“. Til að sjá ferlið myndrænt, getum við sett það upp fyrir okkur sem litla hringrás. Á meðan hún er í gangi teljumst við dugleg, áhugasöm og iðin – það fer svona eftir samhenginu hvað við köllum það.

En hvað skyldi nú gerast ef við kúplum afleiðingunum frá hegðuninni sem á undan þeim fór þannig að hringferlið rofni? Barnið mokar og mokar, en engin hola, ekkert hrós!

Að öllum líkindum gerist a.m.k. fernt. Ég ætla að nefna þrjú atriði:

1. Allra fyrst þá mokar barnið ótt og títt, meira og hraðar en áður,
2. síðan hættir það (smám saman) að moka,
3. fyllist gremju og reiði, öskrar, sparkar og slær.

Með öðrum orðum sagt, þegar það gagnvirka samband sem er milli hegðunar og einhverra þeirra eftirsóknarverðu afleiðinga sem hún hefur haft rofnar með einhverjum hætti, þá fjarar hegðunin smám saman út og slokknar, að öllu óbreyttu. Þessu slokknunarferli fylgja einnig ýmsar hliðarverkanir eins og gremja og annað óþol. Hliðarverkanirnar
eru mjög óþægilegar fyrir aðra og það er erfitt að leiða þær hjá sér. Það sem oftast gerist er að sá sem hagar sér eitthvað í líkingu við það sem nefnt er í 3. liðnum, fær mikla og umsvifalausa athygli. Fólk keppist við að róa viðkomandi og/eða láta undan og í okkar dæmi, leyfa barninu að halda áfram að moka. Sem sagt, tengja aftur, og fyrri hringrás fer í gang.

Segjum það hins vegar að þú haldir þínu striki og takir af honum skófluna og takir hann burt úr sandinum. Og hvað gerist þá? Þriðji liðurinn stendur eftir, hann verður reiður og þú bregst væntanlega við gremju hans með óskiptri athygli þegar þú ert að „reyna að ná honum niður“. Því meira sem hann öskrar og sparkar, því meiri alúð leggur þú í að fá hann til að hætta. Þar með myndast nýtt samband eða hringrás þar sem athyglin og umönnun þín viðhalda óhemjugangi stráksins. Svona eins og við sjáum á næstu mynd.

Og nú skulum við líta á bréfið þitt aftur, en þar segir þú:

„…Það er sama hvað það er sem er verið að gera fyrir hann eða með honum t.d úti með hann að leika eða með hann í baði, þegar því er LOKIÐ þá verður hann alveg brjálaður … og það tekur dágóðan tíma að ná honum niður“.

Með öðrum orðum sagt, getur ekki verið að þú sért að glíma hér við einhverjar þær hliðarverkanir slokknunar sem ég var að lýsa?

En hvað getur þú þá gert í staðinn?
Það er auðveldara um að tala en í að komast.

Í fyrsta lagi þarftu að ákveða hversu lengi hann má leika sér og hvenær hann á að hætta. Þeirri ákvörðun þarft þú síðan að fylgja eftir, án þess að láta undan og leyfa honum að leika sér áfram. Það þýðir væntanlega að þú þarft að þola reiði hans a.m.k svona fyrst í stað. Ef þú gerir það án þess að sýna reiðinni sérstaka athygli, öðruvísi en bara með því að ítreka regluna, þá er líklegt að úr reiðinni dragi eftir nokkur skipti. En þetta er mjög erfitt og óþægilegt svo ég ráðlegg þér eindregið að gera fleira.

Leggðu niður fyrir þér einhverjar aðrar athafnir sem þú vilt sjá í fari drengsins í staðinn og eru mögulegar við þessar aðstæður þegar hann á að hætta að leika sér. Best er ef sú hegðun er algjörlega ósamrýmanleg þeirri sem þú ert að slökkva, eitthvað sem þú vilt að hann geri og hann getur ekki gert um leið og hann öskrar og sparkar. Með litla krakka er oftast auðveldast að draga athygli þeirra að einhverju öðru sem þeim þykir skemmtilegt og eftirsóknavert og dæla yfir þau linnulausu hrósi fyrstu mínúturnar þegar þau snúa sér að því og aðeins sljákkar í þeim. Þannig er hægt að ná þeim og tengja í nýjan gír. Það er kallað DRA (Differential Reinforcement of Alternative Behavior). Þetta mun ganga best ef þú getur komið þér upp einhverri fastri reglu og með því vanið hann á þótt hann sé ungur, að hann megi leika sér í einhvern ákveðinn tíma t.d. 40 mínútur og þá eigi hann að fara að gera eitthvað annað. Athugaðu hér að áherslan er á því aðgera eitthvað annað, en ekki á því að hætta. Sum börn þola mjög illa allar breytingar og sérstaklega ef þær koma fyrirvaralaust. Þú getur einnig dregið úr þeim áhrifum með því að undirbúa breytinguna sem í vændum er með því að telja niður og segja t.d. að bráðum ætlið þið að fara heim að borða, og nú förum við heim að borða eftir 10 mínútur, o.s.frv. Þetta getur orðið hluti af því að loka leiknum, svo sem eins og með því að láta dúkkur og annað dót fara að sofa. Þú ættir líka að prófa að tala áfram um eitthvað sem tengist heimkomunni, s.s. „Heldurðu að pabbi verði kominn heim á undan okkur“, eða „Eigum við að koma við í búðinni og kaupa epli?“ Það skiptir máli að þú sért þá glaðleg og segir frá þessu sem einhverju MJÖG spennandi og eftirsóknarverðu. Útfærslan ræðst alfarið af hugmyndaflugi þínu.

Ef þér tekst að skapa þær aðstæður að athygli hans beinist að einhverju öðru en að þið eruð að hætta leiknum, er mikilvægt að þú bregðist alltaf strax og örugglega við þeirri breytingu.

Það hjálpar einnig ef þú gætir þess að leggja vel upp og fyrirbyggja að drengurinn verði reiðari en ella, t.d. með því að gæta þess að hann sé ekki mjög þreyttur eða svangur þegar þið farið út að leika.

Prófaðu að fylgjast með því hvað t.d. mæður sem þér finnst vera lagnar, gera þegar þær eru við svipaðar aðstæður og við erum að fjalla um hér. Nú er ekki víst að þær hafi nokkurn tíma lært sérstaklega til verka. Að öllum líkindum eru þær rólegar en fylgnar sér, og athugular og næmar á eigin hegðun og barnanna og haga sér með svipuðum hætti og hér hefur verið lýst. Reynslan hefur einfaldlega kennt þeim hvað leiðir til árangurs.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.