20 ára gömul hormónalykkja

Ég er rúmlega fimmtug og hef trassað að láta taka hormónalykkju í ca 20 ár. Nú, síðustu mánuði hef ég verið með útferð, stundum ljósleit, stundum grænleit og mjög illa lyktandi. Ég er að skipta um bindi á 2ja tíma fresti allan daginn. Engir verkir en stundum það sem ég get kallað væg óþægindi neðarlega í kvið. Líkist vægum túrverkjum. Ég veit ég þarf að láta taka hana en hef svo miklar áhyggjur að það sé eitthvað mikið að. Hvaða afleiðingar getur það haft að vera svona lengi með lykkjuna?

 

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.

Almennt er ekki mælt með að hafa lykkjuna í meira en 10-12 ár svo í þínum sporum myndi ég panta tíma hjá kvensjúkdómalækni sem allra fyrst og láta skoða þig. Þessi einkenni sem þú lýsir geta verið merki um sýkingu í legi en hana þarf að meðhöndla. Ef að þú færð hita eða hroll samhliða þessum einkennum þarftu að leita þér læknisaðstoðar strax.

Þegar lykkjan hefur verið svona lengi og farin að valda óþægindum eða óvenjulegum einkennum getur það verið merki um að hún hafi færst til eða sé gróin föst, í einstaka tilfellum þarf að framkvæma aðgerð til að ná henni út.

Gangi þér vel.

Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.