3 spurningar varðandi meðgönguna

Spurning:
Heil og sæl og takk fyrir góð svör.
Ég er komin 20 vikur á leið með mitt fyrsta barn. Meðgangan hefur gengið vel hingað til en ég hef 3 spurningar:
Ég hef verið að fá slæmar blóðnasir, gæti það tengst meðgöngunni? Tek það fram að ég hef ekki verið með kvef eða flensu og hef nánast aldrei fengið blóðnasir fyrr en ég varð ófrísk.
Ég er farin að finna töluvert til í lífbeininu, gæti það verið merki um grindarlos/gliðnun? Ég sit mikið í vinnunni og verð ansi skökk þegar líða tekur á daginn. Ef þetta er grindarlos, á ég að hafa samband við mæðravernd eða beint við sjúkraþjálfara?
Ég fer mikið í sund, syndi rólega og fer í pott sem er um 38 gráður, gæti það gert ógagn?

Takk fyrir þetta c")

Svar:
Blóðnasir koma oft á meðgöngu. Ákveðin meðgönguhormón valda mýkingu í vefjum líkamans þannig að m.a. æðaveggirnir verða gljúpari og viðkvæmari og rofna auðveldar. Ef mikil brögð eru að þessu gæti þurft að brenna fyrir sár í nefinu.

Langar setur eru slæmar fyrir mjaðmagrindina og verkurinn í lífbeininu kemur sjálfsagt vegna þessa. Á meðgöngunni mýkjast öll liðamót, þ.m.t. lífbeinsbilið, vegna meðgönguhormóna (sömu og mýkja æðarnar) og við að sitja myndast þrýstingur undir lífbeinið sem ýtir því í sundur. Sund er mjög gott til að draga úr grindaróþægindum en eins skaltu reyna að sitja stutt í einu og standa reglulega upp og ganga um. Forðastu allar bolvindur og stigaráp, sem og stórmarkaðsferðir með innkaupakerru. Þú finnur sjálfsagt svolítið sjálf hvað þú þolir illa og hvað gerir þér gott. Ræddu þetta við ljósmóðurina þína í mæðravernd hún getur metið hvort þú þurfir sjúkraþjálfun.

Þér ætti að vera alveg óhætt að vera í 38 °C potti eins og þér líður vel með. Farðu bara upp úr honum ef þú ferð að svitna mikið og forðastu potta sem eru heitari en þetta.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir