36. vikna ómskoðun – hvað ef barnið er of stórt?

Spurning:

Sæl.

Ég er nú á 31. viku meðgöngu og ákveðið hefur verið að senda mig í 36. vikna sónar til að meta stærð og vöxt barnsins. Það sem mig langar að vita er hvaða áhrif niðurstaða þess sónars kunni að hafa á meðgönguna / fæðinguna. Er t.d. hugsanlegt að ég verði ekki látin ganga með fulla meðgöngu ef barnið reynist mjög stórt, kann að vera að ákveðið verði að láta ekki reyna á eðlilega fæðingu…… eða hvað??

Með von um svar,
Bumbulína.

Svar:

Sæl.

Þótt þú getir þess ekki, má ráða af spurningunni að ómskoðunin sé gerð vegna þess að barnið er talið stórt. Annað sem mögulega er verið að skoða er hvort legvatnið sé ekki í eðlilegu magni. Þetta er stundum gert ef legið vex hratt eða legvaxtarlínan er mjög há. Sé meðgangan að öðru leyti eðlileg og bara um stórt barn að ræða er fæðingu yfirleitt ekki flýtt því gangsetning fæðingar getur skapað meiri vandamál en hún leysir. Eins er æskilegra að barn fæðist á eðlilegan hátt og því er afar sjaldgæft að ákveðið sé að taka barn með keisaraskurði án þess að láta reyna á eðlilega fæðingu fyrst, nema eitthvað sjúklegt greinist hjá móður eða barni.

Þannig að þessi sónar er fyrst og fremst gerður til að búa fólk undir að e.t.v. sé um stórt barn að ræða og gera þá í kjölfarið aðrar rannsóknir sem geta varpað ljósi á það af hverju barnið er stórt. Stór börn geta nefnilega endurspeglað lélega sykurstjórnun í blóði móður, skert sykurþol eða meðgöngusykursýki. Eins er þá hægt að gera viðeigandi varúðarráðstafanir í fæðingu og hægt að ráðleggja móðurinni varðandi mataræði og annað sem mögulega hefur áhrif á stærð barnsins.
Ræddu þetta við ljósmóðurina þína og fáðu nánari útskýringar.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir