Spurning:
Ég á rúmlega 4 ára dóttur sem ég hef smá áhyggjur af. Þetta virðist ekki há henni neitt sérstaklega dags daglega en vandamálið liggur í mjög hörðum hægðum og erfiðleikum með að hafa hægðir þegar það á sér stað. Hún þarf virkilega að rembast og verður rauð í framan við átökin og kvartar um leið og segir það vont að kúka. Hún skilar frá sér spörðum sem oft eru furðu stór miðað við líkamsstærð. Litur hægðanna finnst mér heldur ekki eðlilegur en hann er ljósbrúnn. Ég hef ekki tekið eftir því að óvenju mikið slím fylgi hægðum eða blóð. Þetta hefur staðið lengi yfir og stundum kvartar hún einnig yfir magaverk.
Ég hef verið að reyna að fá hana til þess að borða hægðamýkjandi fæðu eins og rúsínur og sveskjur en henni finnst það ekki gott og fúlsar við því. Hún borðar ofur venjulegan mat, talsvert af mjólkurvörum, brauði og þá gjarnan grófu, kjöt, fisk og pasta. Hún kann ekki að meta grænmeti frekar en mörg önnur börn en er mjög hrifin af ávöxtum eins og bönunum, eplum, perum og mandarínum en þó án þess að borða mandarínukjötið. Hún fær ekki mikið af sælgæti og fúlsar við gosi.
Ég hef nefnt þetta við lækni á vitjunartíma en hann sýndi þessu ekki áhuga og taldi þetta ekki vera neitt óeðlilegt en ég er honum ekki sammála.
Dóttir mín flytur nú til Danmerkur með móður sinni á næstu dögum en ég vildi svo mjög gjarnan fá góð ráð svo þetta vandamál hennar verði ekki verra.
Kær kveðja.
Svar:
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.
Af frásögn þinni er að heyra að dóttir þín þjáist af hægðatregðu. Hægðatregða er mjög algengt vandamál bæði hjá börnum og fullorðnum. Mjög misjafnt er milli einstaklinga hversu oft þeir losa hægðir, sumir hafa hægðir reglulega tvisvar á dag en aðrir hafa hægðir með nokkurra daga millibili og þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það. Þegar hægðir eru hinsvegar orðnar mjög þurrar og þéttar og erfitt er fyrir einstaklinginn að losa sig við hægðirnar, eins og í tilfelli dóttur þinnar, er um hægðatregðu að ræða og mikilvægt að koma hægðunum í lag sem fyrst.
Hægðatregða er ekki hættuleg en veldur óþægindum. Börn sem þjást af hægðatregðu eru oft uppþembd og lystarlaus og kvarta oft um magaverki. Þegar vandinn er kominn af stað myndast einskonar vítahringur því sárt er að losa sig við harðar, þurrar hægðir og því fara börnin að halda í sér þegar þau finna hægðaþörf og því fylgja kviðverkir og hægðirnar verða enn harðari og þurrari.
Meðferð við hægðatregðu felst í því að hægðir verði mjúkar og reglulegar og er vandinn oftast tengdur fæðu. Þú greinilega ert meðvitaður um hvaða fæða það er sem skiptir máli til að halda hægðunum mjúkum, en engu að síður læt ég hér fylgja ráðleggingar um hvernig nálgast má vandann. Það tekur tíma að rjúfa þennan vítahring svo ekki búast við árangri strax, en ef ástandið lagast ekki á nokkrum vikum er rétt að þú hafir aftur samband við þinn heimilislækni sem getur þá gefið ykkur frekari ráðleggingar og í sumum tilfellum er lyfjameðferð nauðsynleg tímabundið.
1. Mjög mikilvægt er að barnið fái nægilega mikið magn af vökva. Ef vökvainntaka er of lítil verða hægðir þurrar og harðar. Erfitt getur verið að meta hvort barnið er að drekka nægilega vel, en gróflega er hægt að segja að ef líða meira en 3 klst. á milli þess sem barnið þarf að pissa er það ekki að drekka nægilega mikið af vökva.
2. Mikilvægt er að fæðan innihaldi nægilegt magn af trefjum svo hægðir haldist mjúkar og því þarf að halda þesskonar fæðu að barninu, en forðast trefjasnauða fæðu. Mikið er af trefjum í grænmeti og ávöxtum, grófu kornmeti og brauði. Forðast ber að gefa fæðu sem innihalda mikið af fitu og sykri því það getur aukið enn frekar á vandann.
3. Mjólkurafurðir geta aukið á hægðatregðu. Þær eru hinsvegar mikilvægir kalk- og próteingjafar og því nauðsynlegar fyrir barnið. Ef barn með hægðatregðu þambar mikið af mjólk er rétt að takmarka mjókurdrykkjuna og reyna að fá barnið til að drekka einnig vatn og ávaxtasafa. Ekki er rétt að hætta að gefa barni mjókurvörur nema í samráði við lækni.
4. Hvettu barnið til að fara á klósett eftir máltíðir og reyna að hafa hægðir því við máltið aukast hreyfingar í þörmunum og gerir það hægðalosun auðveldari. Hvettu barnið til að sitja í a.m.k. 5 – 10 mínútur.
Gangi ykkur vel,
kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.