Spurning:
Góðan daginn.
Ég er 42 ára og á tvö börn. Maðurinn minn og ég eigum ekki börn saman, en höfum verið að reyna í rúmt ár og fyrir nokkru gerði ég heimapróf og fékk jákvæða niðurstöðu mér til mikillar ánægju. Mér reiknast svo til að ég sé komin u.þ.b. 4-5 vikur á leið. En svo gerðist það fyrir 3 dögum síðan að það fór að koma lítilsháttar brún útferð hjá mér. Daginn eftir var hún heldur meiri (ekkert lík venjulegum blæðingum samt) og í dag er hún aftur heldur minni. Hvað er á seyði hjá mér? Er öruggt að ég sé að missa fóstur eða getur þetta verið eðlilegt? Ef ég missi fóstur, er þá ekki að verða of seint hjá mér að reyna aftur?
Ein sem þráir að eignast barn.
Svar:
Sæl.
Nei það er langt í frá að öruggt sé að þú sért að missa fóstur. Reyndar er svona brúnleit útferð yfirleitt gamalt blóð og sjaldnast merki þess að fóstrið sé að fara. Þetta getur verið blæðing frá því þegar eggið boraði sig niður í slímhúð legsins sem er að skila sér niður núna. Ef ekki blæðir meira eru allar líkur á að fóstrið sé á sínum stað og allt í lagi. Taktu það rólega og slepptu samförum í nokkra daga og sjáðu hvort blæðir nokkuð meira. Það væri heldur ekki úr vegi að þú létir lækni kíkja á þig fljótlega, bara svona til að staðfesta að allt sé á réttu róli. Ef þú á hinn bóginn missir fóstrið er talið best að bíða í 3 mánuði með að reyna aftur. Ef þú ert hraust kona í góðu formi ættir þú að geta gengið með og fætt barn þótt þú sért orðin rúmlega fertug.
Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir