5 ára og enn með bleiu

Spurning:

Sæl.

Sonur okkar er að verða 5 ára gamall og hann fæst ekki til að hætta með bleiu. það er búið að reyna allt til að fá hann til að nota klósett eða kopp. En hann neitar alltaf. Eru til einhver ráð?

Svar:

Góðan daginn og þakka þér fyrirspurnina.

Af bréfi þínu ræð ég að vandamálið sé að sonur þinn er með bleiu á daginn. Þú lýsir stráknum ekkert nánar, en sumir krakkar sem venjast mjög seint af bleiu eru einnig stundum svolítið sein á sér með aðra þætti, s.s. eins og fínhreyfingar og lenda í glímu þegar þau eiga að klæða sig sjálf, borða snyrtilega, klippa og líma eða þræða perlur á band. Það getur líka verið að þau séu ekki mjög næm á merki eða þá tilfinningu að þeim sé mál.

Hvað son þinn varðar ráðlegg ég þér að byrja á því að biðja lækni að líta á hann til að útiloka líkamlegar ástæður. Jafnframt er sjálfsagt að fá strákinn af bleiunni. Tilfinning manns fyrir því hvað eitthvað gerist oft er stundum svolítið önnur en raunin er. Það er því mjög gagnlegt að skrá niður þau tilvik sem eru í skoðun og hvenær þau gerast, sem í þessu sambandi er hversu oft sonur þinn pissar og gerir á sig. Þegar maður skráir slíkt hjá sér er líka hægt að sjá hver þróunin er, fækkar tilvikunum eða fjölgar þeim, og verða einhverjar afgerandi breytingar á hegðunarmynstrinu ef við hlutumst til um málið? Skoðum þetta nánar.

Að pissa á sig.

1. Viðmið

Reyndu að finna ákveðið mynstur með því að skrá hjá þér á hverjum degi í eina viku öll þau skipti sem óhöpp verða að degi til og hvenær. Það er að segja á hvaða tíma dags og við hvaða aðstæður, án þess að þú gerir nokkuð sérstakt í málunum. Fáðu þér t.d. litla reikningsbók og merktu eina síðu fyrir hvern dag. Á síðurnar geturðu búið til töflu þar sem annars vegar eru tilgreindar mögulegar aðstæður og hins vegar tími dags. Í reitina dregur þú prik fyrir hvert tilvik sem þú telur svo saman.

Þriðjudagur 8.maí.

Í bílnum Hjá ömmu Við borðið Út á róló o.s. frv.07 – 08—–08 – 09—–09 – 10—–10 – 11—–o.s. frv.—–

Sumir krakkar gleyma að pissa í hita skemmtilegs leiks, en annars ekki. Ef skráningin eftir vikuna sýnir þér það, þá ættirðu að prófa lítið umbunarkerfi og æfingu á réttri hegðun, þ.e. að pissa í klósettið, sem ætti að hjálpa honum á rétt ról.

2. Íhlutun

Þú heldur áfram að skrá í töfluna og átt að sjá breytingu mjög fljótlega.

Ég ráðlegg þér að velja tímann vel þegar þú byrjar, t.d. um friðsæla helgi sem þú tekur sérstaklega til að koma þessu í gang.

Útfærsla á leiðréttingu og umbunarkerfi getur verið mjög breytileg, en alltaf er nauðsynlegt að fylgja ákveðnum meginreglum. Helstu reglurnar eru þessar:

1. S TRAX
2. J ÁKVÆTT
3. Ö RUGGLEGA

Umbunin kemur umsvifalaust í kjölfar æskilegrar hegðunar, ekki einhvern tíma seinna. Ef það reynist ill framkvæmanlegt, þá er hægt að brúa bilið með merkjum, s.s. broskörlum sem strákurinn vinnur sér inn jafnóðum og hann gerir eins og til er ætlast. Skrifaðu niður hjá þér þá útfærslu sem hentar ykkur og útskýrðu kerfið fyrir honum. Láttu það ekki hindra þig þótt þér virðist hann ekki skilja útskýringarnar strax. Ef kerfið er einfalt og sjálfu sér samkvæmt þá mun hann vera fljótur að átta sig á samhenginu þegar það er komið í gang.

Dæmi: Einn gulur broskarl fyrir hvern hálftíma til að byrja með sem hann heldur sér þurrum, OG einn rauður broskarl fyrir hvert skipti sem hann pissar í klósettið. Þú límir þá með viðhöfn á töflu sem þú útbýrð og hengir upp, og hrósar honum munnlega í leiðinni og líka þess á milli, svo fremi að þú sért 100% viss um að hann sé ekki búinn að pissa á sig.

Þegar þér sýnist að árangur á hálftíma fresti sé orðinn nokkuð stöðugur, þá er þér óhætt að lengja tímann aðeins, t.d. í þrjú korter til klukkutíma. Þetta spilast svolítið eftir hendinni og hversu vel tekst til ræðst af því hvað þú getur fylgst vel með hegðun hans á meðan.

Þegar strákurinn hefur náð tilteknum fjölda merkja á einhverju ákveðnu tímabili getur hann skipt merkjunum út fyrir eitthvað sem hann sækist eftir að fá (er jákvætt) og getur talist eðlilegt. Hafð
u þetta tímabil stutt til að byrja með, t.d. hálfan dag í senn. Það þýðir að frá klukkan 07 til klukkan 12 getur hann mögulega unnið sér inn 10 gula broskarla og væntanlega nokkra rauða. En það er of hátt markmið til að byrja með og þú þarft að ákveða fyrirfram hvað hann þarf að ná mörgum gulum til að geta „keypt” sér eitthvað í hádeginu. Gættu þess að hafa þrepin það smá til að byrja með að hann nái því örugglega. Það eitt mun flýta mjög fyrir og þú getur stækkað þrepin með því að setja markið smám saman hærra og hærra, þ.e. að hann þarf að safna fleiri broskörlum til að geta keypt sér eitthvað í hádegi og svo aftur síðar, til dæmis þrisvar sinnum yfir daginn.

Þú ert í raun að kenna honum nýja siði svo það er líka mikilvægt að þú sért vongóð, glaðleg og uppörvandi á meðan þessu stendur.

Á þessum hálftímum eða klukkutímum sem hann nær þessu ekki og pissar á sig, haltu þá ró þinni og vertu eins hlutlaus og þú getur. Það er að segja, sýndu honum enga sérstaka samúð og reyndu að láta hann heldur ekki finna það að þetta þreyti þig. Kynntu honum bara þá reglu að þegar hann pissar á sig í stað þess að fara á salernið, þá þurfi hann að æfa það eins og annað sem hann er að læra og þú ætlir að hjálpa honum til þess. Láttu hann æfa réttu hegðunina strax með því að standa upp frá leiknum, ganga inn á baðherbergi, leysa frá sér og leika það að hann sé að pissa í klósettið, hvort sem ykkur kemur saman um að hann standi við skálina eða setjist á hana. Því næst girðir hann sig og þvær sér um hendurnar, og gengur aftur til leiks. Þú skalt vera með honum frá upphafi til enda og láta hann æfa þetta helst 10 sinnum eftir hvert óhapp.

Hafi taflan hins vegar sýnt þér strax að óhöppin voru ekki bundin við það að hann gleymdi sér í leik, eða ef þér finnst eftir fyrstu þrjá til fjóra dagana að það miði ekkert með ofangreindri aðferð og ef hann pissar mjög oft eða ef það dreitlar stöðugt, skaltu bæta við smá leik. Hann er sá að stöðva bununa og láta hana koma aftur. Á meðan þessu æfingatímabili stendur, láttu hann þá æfa þetta eins oft og tækifæri gefast. Útfærslan á leiknum ræðst af hugmyndaflugi þínu til að byrja með, mér þykir líklegt að stráksi þrói svo leikinn sjálfur. Eitt afbrigði er t.d. hvað hann getur stoppað bununa oft og þá keppir hann við sjálfan sig um að bæta við skiptum frá því síðast. Þegar hann hefur náð góðu valdi á þessum æfingum, má bæta nýjum þrautum í leikinn og það er að halda eins lengi og hann getur í hvert skipti. Gefðu honum mikið að drekka yfir daginn „svo blaðran hans verði stór og sterk”. Þessar æfingar getur þú líka tengt inn á merkjakerfi ef þér sýnist þess þurfa með.

Að gera á sig

Þú lýstir vandamálunum ekki nánar en krakkar sem gera á sig fram eftir aldri, þau kúka í buxurnar eða hvar sem er. Einnig er vel þekkt að tíður klíningur og „bremsuför” sjást í nærbuxunum. Oft er einnig kvartað undan krónískri hægðatregðu sem getur verið svo mikil að fast efni og fljótandi skilur sig að og þau fá kannski meðferð við niðurgangi, en eru með harðlífi. Stálpaðir krakkar sem heimta bleiu og þvertaka fyrir að kúka í klósett, hafa yfirleitt kvekkst einhvern tíma þegar þau reyndu hvað það var var sárt að kúka eftir langt og mikið harðlífi. Það þýðir að það þarf að tryggja að hægðirnar séu þegar orðnar mjúkar áður en þú byrjar á æfingunum með drengnum. Það getur þú gert með mataræði og lyfi frá lækni. Þú getur notað hliðstæða aðferð til að venja hann af bleiunni og lýst er hér að ofan og rætt hana við lækninn, áður en þú byrjar.

Vona að þetta gangi,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.