5 ára og erfið í skapinu

Spurning:

Sæl.

Ég á tvær dætur, önnur er 5 ára en hin ekki nema rétt rúmlega 7 mánaða. Þessi eldri tók smá afbrýðiköst til að byrja með en svo lagaðist það. Hún hefur aftur á móti alltaf heimtað athygli frá því að hún var lítil og er mjög erfið í skapinu. Núna er svo komið að hún rífst og skammast í mér og ég skammast á móti, bæði ákveðið en rólega og einnig með látum. Ekkert virðist ganga.

Ég er orðin svo þreytt og pirruð á henni að mér væri skapi næst að gefast hreinlega bara upp á henni. Það er ansi slæmt fyrir ekki eldra barn en hún er. Hún kemur með skipanir, kemur með leiðinlegar athugasemdir og stundum eru þær hreinlega þannig að mér sárnar mjög. (Þú gerir aldrei neitt skemmtilegt, þú gerir alltaf eitthvað vitlaust).

Hún er aftur á móti mjög stressuð týpa og er mjög viðkvæm fyrir breytingum. Hún lenti til dæmis í því að það var kveikt í leikkastala hér rétt hjá og hún var þar á gangi með pabba sínum og það fékk mjög mikið á hana. Hún hefur verið frekar hrædd við kvöldin og vill alltaf draga fyrir þegar tekur að rökkva. Kannski er þetta hluti af þeirri hræðslu en þetta er farið að slíta mér svo út að mig langar til að ganga út og koma ekkert aftur.

Hvað á ég að gera?

Kveðja,
móðir.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Í bréfi þínu nefnirðu sérstaklega að eldri dóttir þín hafi alltaf verið kröfuhörð á athygli, að hún sé stjórnsöm, stressuð, erfið í lund og komi með særandi athugasemdir, að hún sé viðkvæm fyrir breytingum og hrædd við eitthvað sem e.t.v. er ekki alveg raunhæft. Af bréfinu verður ekki annað ráðið en að þú teljir ekki að hegðun eldri dóttur þinnar sem þú hefur áhyggjur yfir tengist beint komu lítillar systur, heldur hitt að þetta sé frekar þróun á viðvarandi ástandi sem hafi strax sýnt sig, löngu áður en sú yngri fæddist.

Nú er ekki ólíklegt að foreldrar viðkvæmra krakka séu svolítið viðkvæmir sjálfir og með stuttan kveikiþráð, og verið getur að þú sért það og þar að auki enn nokkuð meir í skapi og auðsæranleg eftir fæðingu litlu dóttur þinnar. En hvað sem því líður þá skaltu endilega reyna að breyta og bæta sambandið við eldri dóttur þína. Þar sem fyrirspurninni frá þér fylgja frekar takmarkaðar upplýsingar, þá verður ráðgjöfin nokkuð almenns eðlis. En þrátt fyrir það þá máttu vera viss um að það verður til mikilla bóta ef þú getur fylgt henni.

Krakkar sem eru eins og þú lýsir eldri dóttur þinni þurfa reglu og rútínu í kringum sig, mikla hlýju, uppörvun og ómælt hrós. Þau bókstaflega þrífast á því. Tækifærin fyrir þetta þarft þú að skapa. Reyndu að fá manninn þinn í lið með þér.

Almennt:
Nú getur vel verið að þið mæðgur séuð orðnar svo viðkvæmar hvor fyrir annarri að best væri ef þið gætuð „kúplað frá“ um tíma og hvílt ykkur aðeins. Er möguleiki á því að pabbinn geti sinnt eldri dóttur ykkar meira í einhverja daga og þú þá frekar séð um annað sem gera þarf? Einhvern veginn virðist það vera þannig að krökkum sem er lýst eins og þú lýsir dóttur þinni gengur oft betur að lynda við feður sína en mæður. Þar að auki þarftu að gera smá breytingar á viðbrögðum þínum gagnvart henni, og þá er oft betra að hafa eins og smá kaflaskipti eða „hlé“ á sambandinu áður og byrja svo með nýja laginu. Ég veit að það getur verið nokkuð flókið með lítið barn en reyndu samt að gera breytingar í þessa átt:

1. Hafðu eins fasta reglu á öllu daglegu heimilishaldi og þér er frekast unnt. Þetta á t.d. við um alla matartíma, hvenær dóttir þín fer á fætur og hvenær hún fer í rúmið og annað sem lýtur að daglegu lífi. Svo reglurnar fari ekki á milli mála, gætirðu t.d. útbúið stundatöflu í grófum dráttum sem væri með myndum af því sem hún ætti að gera ásamt myndum af því hvað klukkan er þá, og hengt töfluna á ísskápinn.

2. Reyndu að taka alltaf einhvern tíma frá fyrir eldri dóttur þína á hverjum degi þar sem hún fær athygli þína óskipta, jafnvel þótt það séu ekki nema nokkrar mínútur í senn. Notaðu þessi augnablik til að taka hana í fangið þannig að líkami hennar sé upp við þinn, spjallaðu við hana og hlustaðu á það sem hún hefur að segja þér. Þú getur líka notað þessar stundir til að leika svolítið við hana, kela og glensast.

Ef þú getur þetta, þá er auðveldara fyrir þig að fylgja því eftir að stundum þurfir þú að sinna öðrum viðfangsefnum og hún þarf þá að bíða og gera eitthvað annað á meðan þar til þú getur sinnt henni, eða leita til pabba síns. Þar sem þú lýstir ekki sérstökum dæmum í bréfinu, veit ég ekki hversu aðgangshörð hún er, en sum börn eru þannig að segja má að mæður þeirra geti tæpast um frjálst höfuð strokið. &THO
RN;ví erfiðari sem hún er, því mikilvægara er að þú dragir mjög skýrar línur um hvenær þú ert að sinna henni og hvenær þú ert að sinna öðru(m), og merkir jafnvel inn á stundatöfluna góðu, smátíma á hverjum degi sem ÞÚ átt fyrir sjálfan þig. Það er ekki víst að þú fáir næðið, en þetta er smá æfing fyrir alla, þótt ekki sé nema hugmyndin.

3. Ef þú nærð þessum takti, þá verður miklu auðveldara fyrir þig að búa hana undir daginn og það sem er á döfinni næstu daga með góðum fyrirvara. Reyndu t.d. að setjast við morgunverðarborðið með henni og fara í stuttu máli yfir það sem þið ætlið að gera þann daginn og hennar aðkomu að málinu, og helst að setja það þannig upp að hún hafi til einhvers að hlakka. Hvað það er, getur verið mjög breytilegt og t.d. ráðist af því hvar á landinu þið búið. Dæmi: Þegar við erum búnar að borða morgunmatinn þá ætla ég að fylgja þér út á róló. Klukkan 12 kem ég svo og sæki þig og þá borðum við hádegismat. Þegar ég er búin að gefa Lillu og leggja hana út í vagn, þá skulum við tvær gera eitthvað skemmtilegt saman. Hvað langar þig mest að gera? Jahá, það líst mér vel á, það verður gaman. Ég er strax farin að hlakka til.

4. Reyndu að láta atburðarásina ganga eftir eins og um var talað. Verði einhverjar ófyrirsjáanlegar breytingar, reyndu þá að útskýra þær fyrir henni í stuttu máli og beina athyglinni að þeim kostum sem þær kunna að hafa í för með sér. Gættu þess að vera ekki með allt á síðustu stundu, og ekki reka á eftir henni. Geri hún hlutina ekki eins hratt og þú vilt, reyndu þá frekar að aðstoða ef hún leyfir það. Leyfi hún það ekki án þess að allt fari í bál og brand, hrósaðu henni þá við og við fyrir það sem hún er þegar búin að gera, þótt þér finnist það erfitt.

5. Ekki láta hana draga þig í endalausar réttlætingar á því hvers vegna hún á að gera eitthvað sem þú leggur fyrir, eða hætta að gera eitthvað sem þú hefur bannað. Það ert þú sem ræður, en reyndu samt að fá hana með þér í góðu. Ef þú ert búin að kynna regluna fyrir henni með góðum fyrirvara, vertu þá dugleg að hrósa henni þegar hún fylgir reglunni eða gerir eitthvað sem er í rétta átt. Sumir krakkar eru mjög lagnir við að fiska sennur. Þú ert örugglega fyrir löngu farin að þekkja merkin og veist hvað hleypir af stað rifrildi ykkar mæðgnanna. Reyndu að víkja af leið og aka í aðra átt og láta ekki keyrast upp í síendurtekið ferli sem þið þekkið báðar vel.
Ef sá gállinn er samt á henni, þá svarar þú bara með því að minna á regluna og hrósar henni svo strax fyrir að fylgja henni, geri hún það. Dæmi: Þú kemur að dóttur þinni sem er að hoppa í vatnsrúmi ykkar hjóna sem þú ert margbúin að banna henni, og segir henni að koma úr rúminu þetta megi hún ekki. „Já, en …“ „Þú þekkir regluna“, svarar þú strax og opnar ekki fyrir þras. Þetta svar ítrekar þú ef með þarf og útskýrir það ekki nánar, en um leið og hún hættir að hoppa skaltu draga athygli hennar að öðru með því að skipta um umræðuefni, hæla henni fyrir eitthvað sem hún hefur gert og tala um eitthvað sem henni þykir skemmtilegt.

6. Viðkvæmir krakkar tjá stundum hræðslu sína við eitthvað sem tæplega telst raunhæft, eins og að þora ekki út af ótta við að gleypa glerbrot eða að fá kast af skelfingu yfir því að þau muni svelta í hel. Þessir krakkar verða einnig oft skelfingu lostnir yfir atburðum sem þau heyra og sjá í fréttum eða upplifa eins og þú nefnir brunann í leik-kastalanum. Í stað þess að reyna að leiða henni fyrir sjónir að hræðslan kunni ekki við rök að styðjast, sýndu henni svona vissa hluttekningu jafnframt sem þú gerir frekar lítið úr hættunni og undirstrikar að hún sé örugg hjá ykkur. Síðan skaltu beina talinu að öðru. Þú getur jafnvel komið með „lausn“ á málinu, þótt lausnin sé í rauninni ekki í neinu orsakasamhengi við tilefnið. Dæmi: Ef hún á bráðum afmæli má nota það: „… Nú skal ég segja þér nokkuð. Þegar þú verður sex ára, þá hættirðu alveg að vera hrædd við … “ eða „…Jæja elskan, en ég held að það sé nú alveg óþarfi. Veistu nú hvað, ef ég kveiki á þessum litla lampa hérna við gluggann, þá hættir þú alveg að vera hrædd“. Ef lampaaðferðin gengur vel og slökkt er á lampanum á öðrum tímum getur vel verið að hún finni það upp hjá sjálfri sér að ganga að lampanum og kveikja á honum þegar hún byrjar að finna til myrkfælninnar, og þá verði allt í stakasta lagi.

7. Stundum koma krakkar með skrítnar athugasemdir og kenna jafnvel öðrum um allt sem miður fer. Gættu þess í slíkum tilvikum sem öðrum að þú kennir henni heldur ekki um þegar illa tekst til og ekki fara að þræta við hana. Í þessu sambandi verður þú að taka þá ákvörðun að láta ekki fimm ára gamalt barn særa þig. Ef þú ert ekki mjög viðkvæm eftir barnsburðinn og ert í góðu sambandi við manninn þinn, þá geturðu þetta vel. Stun
dum koma athugasemdirnar óvart eða eru bara klaufalegar, en í öðrum tilvikum reikna ég með því að hún sé að reyna í þér þolrifin. Láttu hana ekki hafa árangur sem erfiði. Taktu slíkum aðfinnslum tómlega og gakktu í burtu. Ekki skapa samræður úr þessum efniviði eða fara að afsaka þig við hana, en láttu hana lauslega vita að þér finnist leiðinlegt hafir þú ekki getað glatt hana. Ef hún eltir þig, þá geturðu skipt um umræðuefni og prófað að spyrja hana um eitthvað annað. Láti hún ekki segjast, skaltu segja henni stutt og ákveðið að þegar hún tali kurteislega til þín, þá skulir þú svara henni. Gættu þess að fylgja því eftir sem þú segir, og bregðast strax við og tala við hana ef þú heyrir að hún er að reyna að breyta um tón, jafnvel þótt það sé ekki alveg 100%. Vísaðu þá í það, að þú svarir henni af því að hún tali fallega til þín.

8. Því betur sem þér tekst til með þessu almennu atriði verður þú dóttur þinni betri fyrirmynd og henni kemur til með að líða betur. Þegar henni líður betur, þá mun þér einnig líða betur. Vertu óspör á hrósið við hana og hún mun blómstra. Þegar þú gerir það, gættu þess þá að vísa alltaf í eitthvað sem hún hefur gert. Athugaðu hvort bóndi þinn er ekki til í að hrósa þér fyrir hvað þér fer fram í samskiptunum við dóttur ykkar. Ef þér gengur vel með þessa almennu þætti, skoðaðu þá það sem kemur hér fyrir neðan.

Nánar: Að stýra aðdraganda og afleiðingum.

Ef þú nærð smá tíma ein með sjálfri þér prófaðu þá að rifja upp góðu stundirnar ykkar mæðgnanna og skrifaðu þær niður í lista, eitt tilvik í hverja línu sem þú númerar. Reyndu að rifja upp eins mörg tilvik og þú mögulega getur. Þú gætir meira að segja búið til þrjá dálka á blaðið og skrifað góðu stundirnar í miðdálkinn. Þ.e. hvenær þær eru helst og í hverju þær felast – hvað eru þið þá að gera? Til að greina þær enn betur frá öðrum stundum, þá gæturðu einnig skrifað um leið í fremsta dálkinn, hver aðdragandi góðu stundarinnar er. Hvað gerist fyrst, hvað er um að vera rétt áður? Og svo til að fá þokkalega mynd af því samhengi sem góðu stundirnar ykkar eru í, þá geturðu skrifað í aftasta dálkinn hvað það er sem gerist í kjölfar góðrar stundar, til hvers leiðir hún, hvað gerist svo? Merktu svo dálkana efst.
Í 1. dálki hefurðu AÐDRAGANDA góðu stundanna, í miðdálkinum HEGÐUNINA, þ.e. hvað þið gerið þegar vel gengur og í 3. dálki AFLEIÐINGAR þess.

Dæmi:
1. dálkur AÐDRAGANDI: Leyfði Stínu að leika sér í baði á meðan ég var að búa til matinn.
2. dálkur HEGÐUN: Við borðhaldið var hún endurnærð og í góðu skapi, fannst maturinn góður og engir árekstrar.
3. dálkur. AFLEIÐINGAR: Siggi gat bara farið að ganga frá, og ég fór inn með stelpuna og las fyrir hana heilan kafla og hún sofnaði vært.

Almennt séð má segja að lausn vandamálsins felist í því sem þú skrifar á blaðið. Góðum stundum af því tagi sem þú tilgreinir í miðdálkinum þarf að fjölga. Þú getur fjölgað þeim með því að gera þér grein fyrir því hverjar þær eru og hvað einkennir þær, og með því að stýra Aðdragandanum og Afleiðingunum að þeim.

Þú leggur upp og skapar þær aðstæður sem þurfa að vera fyrir hendi til að líklegra verði að ykkur líði vel saman. AÐDRAGANDINN /aðstæðurnar eru eins konar auðkenni og gefa ykkur merki um að góð stund sé að nálgast. Ef við höldum áfram með sama dæmið og áðan, þá getur það einnig verið merki um að friðsæl máltíð sé í vændum ef maturinn er alltaf á föstum tíma sem allir vita hver er. Bara það eitt getur dregið úr relli, athugasemdum og skömmum um hvenær maturinn verði eiginlega, og yfir því að hann sé ekki tilbúinn. Það er sem sagt þessi rútína og taktur um hversdagslega atburði sem skapa rammann og forsendur góðu stundanna. Þú þarft að átta þig á hverjar þær eru og bæta við fleirum, eins mörgum og þú getur.

Hvernig þú svo stýrir afleiðingum góðu stundanna getur ráðið úrslitum um áframhaldið. AFLEIÐINGAR þurfa að fela í sér eitthvað gott, vera eins konar umbun sem kemur strax og örugglega eins og í dæminu áðan þegar lesturinn og það að barnið sofnaði vært kom beint í kjölfar friðsællar máltíðar. Fæst okkar eru vön því að gera eitthvað sérstakt þegar vel gengur, en erum kannski fljót að bregðast við þegar illa gengur. Það er lykilatriði að gæta þess að góðu stundunum fylgi alltaf góðar afleiðingar. Þær þurfa ekki að kosta neitt. Stundum getur verið nóg að tala um það hvað ykkur líði nú vel þannig að athygli ykkar beinist að því og þá geturðu um leið notað dýrmætt tækifæri til að hrósa dóttur þinni.

Ef þér finnst þig skorta hugmyndir um hvað gæti falist í umbunandi afleiðingum, prófaðu þá að skrifa annan lista með öllu því sem dóttir þín sækist eftir. Finnst henni notalegt að láta lesa fyrir sig, finnst henni gott að k&
uacute;ra uppí hjá ykkur, hvað er uppáhalds maturinn hennar, finnst henni gaman að fara í sund, vill hún læra að telja/reikna og stafa/lesa, gengst hún upp í því að fá að hjálpa til, gleðst hún þegar þú hrósar henni? Svona má áfram telja. Hvað þú velur svo að nota hverju sinni ræðst af samhengi og eðli máls.

Í stuttu máli sagt, þá felast þær breytingar sem þú þarft að gera og hér hefur verið fjallað um, fyrst og fremst í skipulagi sem forðar því að þú og dóttir þín keyrið upp í sömu ógöngurnar aftur og aftur. Hafðu manninn þinn með í ráðum og hafðu dóttur þína einnig með í þessari vinnu, því það kennir henni að stýra eigin lífi. Ég er viss um að dóttir þín hefur sömu sýn og þú, þ.e. að ykkur líði betur og þið eigið fleiri friðsælar og skemmtilegar stundir saman. Ef góðu stundunum fjölgar, þá verður minni tími aflögu fyrir hinar. Því fleiri góðar stundir, því minna rúm fyrir hinar.

Vona að þetta hjálpi.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.