Spurning:
Sæll.
Ég á tæplega 6 ára gamla stelpu sem er of þung, hvar get ég fengið næringaráðgjöf og upplýsingar um hvað ég get gert fyrir hana? Hún er of ung til að fara til Gauja litla, hún er 122 cm há og ca. 30 kg.
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Sæl.
Komdu sæl. Ég vil geta þess að ég vinn við næringarráðgjöf, þannig að þú gætir haft samband við mig. Ég ælta að láta hér fylgja úrdrátt úr kafla sem er að finna í bók minni Lífsþróttur – næringarfræði almennings, þar sem fjallað er um offitu barna.
Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir offitu barns?
Áhrifaríkasta vopnið er eflaust það að foreldrar barnsins (eða aðrir þeir sem hafa með forræði þess að gera) temji sér heilbrigðar neyslu- og hreyfivenjur. Foreldrar eru í flestum tilfellum helsti mótunaraðili barna sinna og því er mikilvægt að þeir geri jákvæðar breytingar (ef þörf er á) á mataræði- og hreyfivenjum sínum því að annars taka börnin ekkert mark á þeim. Hvaða foreldri getur til að mynda ætlast til þess að barnið fái sér epli ef mamman/pabbinn eru á sama tíma að gæða sér á súkkulaði eða kartöfluflögum? Ef foreldrar hafa tileinkað sér gott mataræði og eru duglegir að hreyfa sig ættu þeir að vera í stakk búnir til að aðstoða barnið. Með því að hvetja það:
til að borða hægt
til að gefa sér tíma og ræða við þá sem sitja með því til borðs
til að hætta að borða þegar það er orðið satt. Með því að kenna því að velja sér fitulítið snakkfæði og að skammta sér hæfilega á diskinn. Með því að þvinga það aldrei til að klára af diskinum. Með því að hvetja til reglubundinnar hreyfingar eins og að hjóla, synda, stunda boltaíþróttir, skokka. Með því að forðast að koma boðskapnum til skila með frekju og yfirgangi. Annars er sú hætta fyrir hendi að barnið skilji skilaboðin á þann veg að það sé einskis virði nema ef líkamsþyngdin sé lág og slíkur þrýstingur kann að ýta undir afbrigðilega neyslu eins lotugræðgi eða lystarstol. Markmið
Markmið með meðferð feits barns ætti ekki endilega að vera að létta það því of lág orkuefnaneysla getur haft neikvæð áhrif á þroskaferil þess. Oft getur reynst skynsamlegt að leggja áherslu á að neyslan nægi til þess að viðhalda þeirri þyngd sem það er í og hvetja til meiri líkamlegra átaka.
1. dæmi: Stína er 1,30 m og 40 kg. Á tveimur árum hækkar hún um 10 sm og þyngdin helst sú sama. Það gefur auga leið að mikil fiturýrnun hefur átt sér stað (þar með „létting”).
2. dæmi: Bogga er 1,30 m og 40 kg. Á tveimur árum hækkar hún um 12 sm og þyngist um fimm kíló. Bogga er því 1,42 m á hæð og í 45 kílóum. Þó hún sé enn heldur þung eru aukakílóin mun færri en tveimur árum fyrr. Bogga heldur áfram að passa sig og ári síðar er hún komin í 1,48 m og þyngd hennar 46 kíló. Með öðrum orðum hún er komin í kjörþyngd.
Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur