6 ára, erfiður í skólanum

Spurning:

Mig langaði að athuga hvort þið gætuð aðstoðað mig.

Ég á sex ára gamlan son sem gengur illa í skólanum. Við erum ný flutt erlendis og hann gengur í skóla hér. Hann er mjög erfiður og í skólanum vill hann alltaf vera númer eitt, gera allt fyrstur og ef hann fær það ekki þá fer hann í fýlu út í horn. Hann er fluggáfaður og það er eins og hann vilji hafa kennarann bara fyrir sig. Hann hangir utan í mér og er alltaf að sækjast eftir athygli allan daginn.

Hann er mjög grannur og hefur alltaf verið, en hann er farinn að grennast meira.

Hann fer mikið í fýlu og ef við erum að gera eitthvað skemmtilegt með honum þá endar það alltaf með því að hann verður eitthvað fúll af því að hlutirnir eru ekki alveg eins og hann vill hafa þá.

Kennari hans hefur kvartað yfir þessu við mig og ég hef reynt að segja stráknum að það er ekki alltaf hægt að vera fyrstur

Hann á ekki við tungumálaörðugleika að stríða, því hann er búinn að læra tungumálið og gerði það á stuttum tíma. Hann skilur allt sem sagt er við hann þó það vanti upp á að hann geti talað almennilega. Ég hef reynt að leiðbeina honum en vantar samt smá leiðsögn. Ég reyni að segja honum að það kemur alltaf röðin að honum, alveg eins og þegar maður fer út í búð, þá ryðst enginn fram fyrir. Hann virðist vera mikið utan við sig, en ég komst að því að þá er hann að hugsa um hvernig eitthvað virkar eða afhverju hlutir eru eins og þeir eru. Þetta er mjög vandmeðfarið mál og gott væri að fá eitthvert svar við þessu.

Með þökk fyrir hjálpina,
Ráðalaus móðir.

Svar:

Sæl.

Komdu sæl og þakka þér fyrir spurninguna.

Þú hefur áhyggjur af sex ára gömlum syni þínum sem þú segir að gangi illa í skólanum. Ég ræð það þó af efni bréfs þíns að það sé ekki beint þannig að honum gangi illa að læra, heldur hitt að hann láti illa að stjórn. Vandamál í námi væru þá frekar afleiddur vandi af óhlýðni og útistöðum. Það breytir því ekki að það er sjálfsagt að þú fylgist vel með því að hann hafi nóg að gera og viðfangsefni við hæfi.

Þú talar einnig um að sonur þinn sé að grennast. Nú er það mjög breytilegt hvaða tilfinningu fólk hefur fyrir holdafari barna sinna, og þar sem þú gefur ekki upp neinar tölur um hæð og þyngd, þá ráðlegg ég þér að vigta hann einu sinni á dag á sama tíma í tvær til þrjár vikur og skrifa það niður jafnóðum. Þú gætir líka skrifað niður hvað hann borðar, þ.e. hvað fer ofan í hann. Gerðu samt ekki mikið úr þessu. Ef tölurnar segja þér að hann sé að léttast, þá ættir þú að láta lækni líta á hann, og taktu gögnin um skráningarnar með.

Nú veit ég ekki í hvaða landi þið eruð, en þó það sé á Vesturlöndum þá getur verið nokkuð mikill munur á því fyrirkomulagi sem tíðkast hjá kennurum yngstu nemendendanna, og þeim kröfum sem þeir gera til barnanna um framkomu og háttvísi. Sem dæmi má nefna Bretland annars vegar og Norðurlönd og meginland Evrópu hins vegar.

Kennsluaðferðir í víðustu merkingu þess orðs, þ.e. ekki aðeins til að kenna námsefni, heldur einnig til að kenna, hvetja og stýra því hvernig nemendurnir haga sér svona dags daglega, eru líka nokkuð breytilegar t.d. milli Evrópu og Bandaríkjanna. Íslendingar sem hafa átt börn í bandarískum skólum þekkja það flestir að kennarar þar leggja mikið upp úr þvi að hvetja börnin áfram með því að hrósa þeim stöðugt fyrir góða frammistöðu og þegar krökkunum miðar í rétta átt. Þetta er svona líkara því sem við þekkjum úr leikjum og íþróttum, frekar en úr skólastofunni.

Ég reifa þetta hér, því fram kemur að þú ert margbúin að útskýra það fyrir syni þínum til hvers ætlast er, en það dugi ekki til. Svarið við því er þetta:

Ef sú aðferð sem við notum til að kenna kemur ekki að tilætluðu gagni, þá þurfum við að skipta um aðferð.

Ef kennari sonar þíns er vanur að hrósa, hvetja og umbuna nemendum jafnóðum, þá er líklegt að honum reynist auðvelt að ná strák á betra ról. Ef kennarinn gerir þetta hins vegar ekki, þá verður þú að kenna honum að kenna syni þínum að þegar hann hagar sér vel, þá hafi það strax góðan og ótvíræðan ávinning í för með sér fyrir hann. Sonur þinn mun örugglega sækjast eftir því.

Krakkar sem eru eins og þú lýsir syni þínum, þrífast og blómstra á miklu hrósi, hlýju og allri athygli. Annað þarf það ekki að kosta. Þetta sýnið þið honum með viðmóti ykkar, svipbrigðum og orðalagi.

Þú skalt einnig nota tækifærið og taka hann í fangið og klappa honum. Reyndu endilega líka að taka smá tíma á kvöldin og lesa fyrir hann, raula eða segja honum sögur.

Gættu þess hins vegar að hrósið og athyglin parist ekki við þá hegðun sem þið vijið ekki sjá meira af í fari hans.

Magnið af hrósinu er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt að hið jákvæða viðmót fullorðna fólksins og viðbr&
ouml;gð þess komi oft, örugglega og umsvifalaust í kjölfar þeirra hegðunar sem við viljum sjá.

Mörgum finnst þægilegt að hugsa um þessa kennslu- og uppeldisaðferð eins og greiðslur fyrir vel unnin störf. En það þýðir um leið að á meðan við erum að kenna barninu nýja siði, þá þurfum við að fylgjast vel með hegðun þess til að geta brugðist við jafnóðum og barnið sýnir einhvern lit. Jafnvel þótt þér finnist að þú hrósir honum oft, skaltu vera óhrædd við að fjölga skiptunum. Þess vegna upp í fjórum sinnum á mínútu í byrjun.

Byrjaðu á því að koma ykkur í gang og steyptu grunninn með því að finna og nýta eins mörg tækifæri og þú getur til að hrósa honum. Þegar þið hafið orðið örugga fótfestu byrjaðu þá að feta ykkur upp tröppurnar. Taktu lítil skref í einu og gættu þess vel að auka kröfurnar jafnt og þétt eftir því sem honum fer fram, þannig að þú verðlaunir aðeins framför.

Gefðu þér smá tíma á meðan þú ert að komast upp á lagið með þessa aðferð því hún þarf að verða þér töm.

Gættu þess vandlega að kaupa þér ekki frið og að athygli þín tengist aðeins þeirri hegðun hans sem þú vilt sjá að aukist.

Reyndu einnig ef þú mögulega getur að finna ákveðna tíma á deginum sem hann getur haft þig alveg út af fyrir sig án þess að þú sért að sinna nokkru öðru, eða fylgjast með útvarpi eða sjónvarpi. Athugaðu líka hvort hann gengst ekki upp í því að mega „hjálpa“ þér við það sem þú ert að gera. Gæti hann t.d. þurrkað hnífapörin þegar þú vaskar upp, eða lagt á borðið á meðan þú ert að búa til matinn? Hann hefði þá návist þína og þið gætuð spjallað saman á meðan.

Ef þú nærð þessu fyrirkomulagi, þá ætti að draga úr kröfum hans á öðrum tímum, auk þess sem þú yrðir þá væntanlega rólegri með að fylgja því eftir að þú sért að sinna öðru og að hann verði að bíða á meðan – þú skulir svo tala við hann.

Þú hlýtur að vita orðið hvað það er sem slær hann út af laginu. Reyndu að forðast slíkar aðstæður og gera eitthvað annað í staðinn. Ef honum líður illa, taktu hann þá í fangið og talaðu við hann með hlýjum og uppörvandi tón og reyndu að dreifa huga hans. Vertu samt viss um að hann viti hvað það er sem þið viljið.

Láttu hann ekki stýra lífi ykkar með fýluköstum. Gættu þess að fara ekki niður á hans plan þannig að staðan verði stál í stál, og láttu hann ekki þvæla þér í endalausar rökræður og réttlætingar fyrir því hvers vegna hann eigi að gera það sem þú segir. Hafðu öll fyrirmæli stutt, skýr og ákveðin, en talaðu lágt, rólega og hlýlega. Fyrst hann er utan við sig, skaltu tryggja það að hann taki eftir því sem þú segir. Það getur þú t.d. gert með því að ganga til hans, snerta hann létt og fá augnsamband áður en þú gefur honum fyrirmæli. Þú getur líka beðið hann um að endurtaka það sem þú sagðir við hann.

Prófaðu að hafa hann með i ráðum þegar þið ætlið að gera eitthvað skemmtilegt. Ræðið áætlunina til enda og hvað gæti mögulega komið upp á og truflað hana og hvernig þið hyggist bregðast við því. Hafið þetta nægilega smátt í sniðum, svo ólíklegt verði að einhverjir ófyrirséðir atburðir trufli fyrirætlanir ykkar.

Gangi þér vel og reyndu endilega að fá samvinnu við kennarann um málið.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur.