Á ég að fá mér lykkjuna

Spurning:
Góðan dag, þannig er mál með vexti að ég eignaðist barn byrir tæpum 7 mánuðum síðan og hef verið á brjóstapillunni síðan, ég er með mígreni og ég hef sterkan grun um það að pillan eigi stóran þátt í því hversu oft ég fæ hausverk. Ég er því að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fá mér lykkjuna, en ég er samt svo smeik við hana, hef heyrt að hún sé alltaf að angra mann.

Síðan langar mig líka að spurja hvernig henni sé komið fyrir og hvernig hún sé síðan fjarlægð. Ég var líka að heyra eitt að þegar maður hættir með barn á brjósti að þá geti mígreniköstunum fækkað, er eitthvað til í því? (ég er sko ennþá með barnið á brjósti.) Að lokum langar mig að spurja þig að einu, þegar ég gef barninu mínu að borða t.d. kartöflur, brauð og margt fleira þá fær hún alltaf rauða flekki í kringum munninn ef það hefur klínst eitthvað framan í hana. Það sést ekkert framan í henni af ávaxtamaukinu eða pakkamatnum (rísgraut og hafragraut).

Með fyrirfram þökk mamma í vanda.

Svar:
Ef brjóstagjafarpillan (eingöngu Progesteron) fer illa í þig getur verið að þú þolir illa hormónalykkjuna því í henni er líka Progesterone hormón, þó í talsvert minna mæli. Koparlykkjan er þá betri kostur en mörgum konum finnst aukaverkanirnar af notkun hennar heldur hvimleiðar (auknar blæðingar og verkir). Aðrar getnaðarvarnir sem ekki innihalda hormóna eru hettan og smokkurinn. Þú ættir að fá ráðgjöf um getnaðarvarnir hjá kvensjúkdómalækni sem getur skoðað þig og ráðlagt þér út frá einkennum þínum og sögu. Hvað varðar brjóstagjafarhöfuðverkinn þá er það þekkt fyrirbæri. Ástæðan er ekki fyllilega þekkt – líklegt að hann tengist brjóstagjafarhormónunum.

Einnig getur höfuðverkurinn stafað af vöðvabólgu í öxlum sem er töluvert algeng þegar illa gengur að slaka nægilega á í öxlunum við gjafir. Fáðu eiginmanninn til að nudda þig eða gefa þér nuddtíma hjá viðurkenndum nuddara. Rauðu flekkirnir umhverfis munn barnsins geta bent til óþols fyrir viðkomandi fæðutegund og ættir þú að fara varlega í þann mat sem skilur eftir sig rauða flekki. Gefa barninu frekar grauta og lítt ofnæmisvekjandi matvörur eitthvað áfram.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir