Á ég að fara í leghálsskröpun?

Spurning:
Vil byrja á því að þakka fyrir frábæra síðu og góð svör við fyrirspurnum 🙂 Eftir 18 mánaða árangurlausar tilraunir varð ég loksins ófrísk en ég missti fóstrið (í sumar) á 11.viku, það byrjaði að blæða og ég fór í útskröpun. Ég var á leiðinni í leghálsspeglun þegar ég komst að því að ég væri ófrísk og fór því ekki í rannsóknina. Ég veit að það er talið eðlilegt að bíða 2-3 mánuði með að hefja tilraunir að nýju eftir fósturlát. En ég er orðin mjög óþolinmóð og pirruð á þessu ferli. Mig langar að spyrja þig hvort að það sé ástæða fyrir mig að fara í þessa rannsókn eða á ég að bíða og halda í vonina eitthvað áfram? Jafnframt að spyrja hvort að það sé ástæða fyrir mig að fara að leita til glasadeildarinnar?

Svar:
Ég skil vel að þú sér orðin óþolinmóð og svekkt. Það er talið betra að bíða með nýja þungun í 3 mánuði eftir fósturlát til að gefa leginu og hormónakerfinu tíma til að jafna sig og þá minnki hugsanlega líkur á að næsta fóstur fari líka. Þar sem þið eruð búin að bíða lengi og þér hefur gengið illa að verða barnshafandi væri skynsamlegast að leita til kvensjúkdómalæknis sem getur byrjað þær rannsóknir sem þarf til að skera úr um hvers vegna þetta gengur svona illa. Sá læknir myndi síðan aðstoða ykkur við að komast í samband við glasafrjóvgunardeildina ef ástæða verður til. Oft finnst eitthvað í þeim rannsóknum sem læknirinn gerir sem útskýrir ófrjósemina og er þá jafnvel hægt að grípa til lyfja eða annarrar meðferðar án íhlutunar glasafrjóvgunar.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir