Á ég að hafa áhyggjur?

Spurning:
Ég fann ekkert á netinu sem svarar spurningum mínum,

Það sem ég hef smá áhyggjur af er að síðustu 3 ár, fæ ég annað slagið en ekki oft mjög hraðan hjartslátt, þá kannski er ég bara heima upp í sófa að horfa á sjónvarpið ekkert að reyna á mig, og núna hefur þetta aukist aftur, þetta er mjög skrýtin tilfinning og rosalega hraður í svona 2-3 min, erfitt að anda líka.

Ég er búin að vera í fríi núna í 3 vikur, það er nú ekki mikið stress á mér en var fyrir svona 2 árum. Á ég að hafa áhyggjur?

Svar:
Í langflestum tilvikum er hér um saklaust fyribæri að ræða og ekki ástæða að hafa áhyggjur. Stundum tengjast þessi köst álagi og streitu en geta líka verið merki um sjúkdóma eins og skjaldkirtilssjúkdóma eða sjúkdóma í leiðslukerfi hjartans sem stundum geta valdið slíkum hjartsláttarköstum. Þessir sjúkdómar í hjarta og skjaldkirtli eru sjaldgæfir en vegna þinna einkenna myndi ég ráðleggja þér að fara til þíns heimilislæknis til skoðunar og mats til öryggis. Læknir þinn getur tekið hjartalínurit og jafnvel gert ítarlegri rannsókn með tæki sem kallað er Holter tæki og er í raun lítið tæki sem tekur upp hjartsláttinn í sólahring. Þannig er hægt að sjá nákvæmlega hvers konar hjartsláttarköst er um að ræða.

Gangi þér vel!

Emil L. Sigurðsson, dr.med
Heimilislæknir