Spurning:
Góðan dag.Ég vona að þú getir beint þessari fyrirspurn minni til sérfræðings sem sér um að gefa upplýsingar um ungbörn. Ég bý erlendis, er nú barnshafandi af mínu fyrsta barni og á von á mér í desember. Ég hef tekið eftir því að hér úti er ekki mælt með að ungbörn undir 1 árs sofi með ungbarnasæng heldur 1-3 lög af teppum vegna þess að sæng er of heit og ekki er hægt að festa hana undir dýnuna eins og teppi til að barn geti ekki ýtt af sér teppinu. Svo er einng mælt með að leggja barnið til svefns alveg neðst í vöggunni/rúminu með fæturnar við rimlana svo að þau renni ekki undir teppið og geti kafnað. Þeir telja að samband geti verið á milli notkun á sæng fyrir ungbörn og vöggudauða. En nú er reyndar mun kaldara og rakara, almennt, í breskum húsum yfir vetrartímann og getur oft orðið alveg ískalt í húsunum vegna þess að þau eru mörg orðin gömul og illa einangruð. Ég hef áhyggjur af að 3 lög af teppum geti verið voða þungt á barnið og ekki alltaf nógu heitt. Því vil ég gjarnan eignast góða sæng að heiman fyrir barnið. Hverju er mælt með hérna heima? Og ef það er í lagi að nota sæng, hvernig sæng er helst mælt með?Vitum við hvort hlutfallslega fleiri íslensk börn deyi úr vöggudauða á ári en bresk? Byggja bæði lönd ábendingarnar sínar á sömu eða svipuðum rannsóknarniðurstöðum? Og hvort er betra að fara eftir því sem mælt er með hérna úti eða heima? Það er nefnilega oft nokkur munur á þeim upplýsingum sem gefnar eru hér í Bretlandi og heima á Íslandi, og hugmyndir um ungbarna- og barnauppeldi ekki alltaf þær sömu.Ég yrði alveg einstaklega þakklát ef ég get fengið einhver svör og ráð um hvernig best er að fara í þessum málum. Það er nefnilega oft frekar erfitt og ruglingslegt þegar maður fær ráð sem eru eitthvað öðruvísi en þau sem maður þekkir úr sínu eigin heimalandi, og er því oft ekki alveg viss hvort þau séu bestu ráðin sem til eru. Með kærri kveðju og fyrirfram þökk fyrir hjálpina.
Svar:
Ja margt er nú skrýtið í kýrhausnum. Það er auðvitað mjög misjafnt milli menningarsvæða hvernig barnaumönnun er háttað og sjálfsagt ekkert meira rétt eða rangt í þeim efnum – einungis misjafnt. Bretar hafa ætíð verið mikið teppafólk á meðan við norðurlandabúar notum frekar sængur. Það er e.t.v. vegna þess að sængurnar veita meiri yl heldur en teppin og okkur hefur nú ekki veitt af því að hafa dálítið hlýtt á okkur í vetrarkuldunum. Flestir íslenskir foreldrar nota dún- eða holtrefjasængur ofan á börnin sín. Á Íslandi er ungbarnadauði með því lægsta sem þekkist í heiminum – lægri en í Bretlandi. Af rúmlega 4100 lifandi fæddum börnum á Íslandi árið 2001 lést eitt barn vöggudauða. Á sama tíma létust í Englandi og Wales 295 börn vöggudauða, þ.e. 0,46 af hvernum 1000 lifandi fæddum.
Besta veganestið í barnauppeldi og umönnun ungbarna er heilbrigð skynsemi. Leiðbeiningar fagfólks eru síðan til þess fallnar að auka þekkingu foreldra og aðstoða þá við að taka skynsamlegar ákvarðanir. Eftirfarandi leiðbeiningar um hvernig minnka má líkur á vöggudauða eru gefnar víðast um hinn vestræna heim:
Á meðgöngu:
1. Sæktu mæðraeftirlit reglulega og borðaðu holla og næringarríka fæðu.
2. Ekki reykja eða neyta eiturlyfja eða áfengis.
3. Reyndu að láta líða meira en eitt ár frá fæðingu fram að næstu þungun.
Eftir fæðingu:
1. Látið barnið sofa á bakinu.
2. Notið stífa dýnu í rúm barnsins og hafið ekkert í rúminu nema barnið – enga kodda, rimlahlífar eða leikföng. Gætið þess að lakið geti ekki vafist um barnið. Á Norðurlöndum hefur verið talið í lagi að nota létta sæng yfir barnið ef þess er gætt að hún þvælist ekki yfir andlit þess.
3. Ofdúðið ekki barnið. Ágæt þumalfingursregla er að klæða barnið í jafnmörg lög af fötum og foreldrunum líður vel í. Hafið hitastig inni í húsinu eins og ykkur finnst þægilegt og loftræstið vel.
4. Gætið þess að ekki sé reykt nálægt barninu. Best er að húsnæði þar sem ungbarn er sé algerlega reyklaust svæði.
5. Hafðu barnið á brjósti.
6. Reynið að forðast að barnið komist í tæri við fólk með öndunarfærasýkingar. Verið ekki með barnið innan um margt fólk og biðjið fólk að þvo sér um hendur áður en það heldur á eða leikur við barnið.
7. Fylgist sérstaklega vel með barni sem er í áhættu á vöggudauða. Það eru börn sem:
fæðast léttari en 2500g, áttu systkin sem dó vöggudauða, hafa verið útsett fyrir reykingum eða eiturlyfjum á meðgöngu, eru annað barn (eða seinna), táningsmóður hafa verið lífguð úr öndunarstoppi . Vonandi geturðu eitthvað ráðið úr þessu og tekið ákvörðun sem þú sjálf ert sátt við.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir