A vítamín neysla á meðgöngu?

Spurning:

29 ára – kona

Góða kvöldið

Ég fór allt í einu að hafa áhyggjur.  Ég er mjög líklega komin sex vikur á leið og er búin að vera að taka inn fjölvítamín og þorskalýsi, eina töflu af hvoru á dag.  Nú las ég mér til um a- og d- vítamín neyslu ófrískra kvenna og það geti skaðað fóstrið ef of mikið er tekið.  Nú borða ég ekki mikinn fisk en þó aðeins.  Þarf ég að hafa áhyggjur?  Á ég að hætta að taka inn annað hvort?  Getur það hafa skaðað?  Í fjölvítamíninu er D-vítamínið 10 míkrógr. og A-vítamínið 1000 míkrógr. Í lýsinu er A-vítamínið 649 míkrógr. og D-vítamínið 9 míkrógr.  Þannig að samtals er dagskammturinn hjá mér af A=1649 míkrógr og D=19 míkrógrömm. Er ég ekki búin að taka inn of mikið af A-vítamíninu?  Ég hefði betur tekið inn töflurnar sem eru spes fyrir móðir með barni!

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Komdu sæl.

Ráðlögð neysla af A-vítamíni (retinóli) fyrir þungaðar konur er 800 míkrógrömm á dag.  Það er því ljóst að neysla þín á A-vítamíni í formi fæðubótarefna er mun meiri en æskilegt er.  Ég ráðlegg þér að láta lýsið nægja.  Varðandi það hvort neysla þín á A-vítamíni í fæðubótarformi hafi skaðað fóstrið þá tel ég það harla ólíklegt enda magnið sem þú hefur neytt undir 3000 míkrógrömmum á dag en barnshafandi konum er eindregið ráðið frá því að taka meira en 3000 míkrógrömmum af retinóli á dag sem fæðubótarefni.

Ég vil í þessu sambandi benda á góða grein á vefsíðu Lýðheilsustöðvar sem ber titilinn: Umfjöllun um einstök næringarefni.

Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur