Ég á orðið erfitt með að mynda orð og setningar þegar ég tala. Mundi segja að ég tafsa á orðum og setningum
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,
Það er erfitt að veita ráðgjöf í tilfellum sem þessu án þess að hitta viðkomandi í eigin persónu. Erfiðleikar við að mynda orð og setningar geta haft mikil áhrif á daglegt líf og samskipti við fólkið í kringum mann. Slíkir erfiðleikar geta jafnframt bent til þess að undirliggjandi sé vandamál eða sjúkdómur sem krefst skjótrar meðhöndlunar og því afar mikilvægt að leita strax til læknis ef erfiðleikar við mál myndast þar sem slíkt hefur ekki verið til staðar.
Er þetta nýtilkomið eða ástand sem hefur verið frá ungum aldri? Er þetta vandamál tengt myndun orða með munni eða er þetta tengt málstöðvum í heila, þá mögulega svo kallað málstol? Málstol er algengt einkenni þess ef skaði, sjúkdómur eða blóðþurrð verður í heila og því er mjög mikilvægt að rannsaka slík einkenni vel.
Ég hvet þig eindregið til þess að leita til læknis sem fyrst sem getur skoðað með þér hvað það er sem liggur á bakvið málerfiðleikana og í áframhaldi vísað þér til sérfræðings til að vinna með þetta tafs, eins og þú kallar þetta.
Gangi þér vel
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur