Af hverju fæ ég ekki Xenical?

Spurning:
Hjálp, hjálp, hjálp, hjálp.
Ég er 22 ára ung kona og ég á við mikið vandamál að stríða. Ég er 122 kg. og hef undanfarin 5 ár þyngst að meðaltali um 10 kg. á ári og er ég því farin að hafa miklar áhyggur. Ég hef reynt allt síðastliðin ár og mér bara einfaldlega tekst ekki að koma mér á rétt ról. Ég er staðráðin í því að ég þarf hjálp og langar mjög mikið að prófa lyfið Xenical, ég er búin að lesa mér til og held að af mörgum ástæðum geti það aðstoðað mig í þessari baráttu. Ásamt því að sjálfsögðu að passa upp á mataræðið og hreyfa mig. Ég er alveg við það að gefast upp – ég er búin að leita til tveggja lækna sem báðir segja mér bara að hreyfa mig og borða rétt, en af gefinni reynslu veit ég að það eitt og sér dugar mér ekki. Kona sem ég þekki, hún er 35 ára og 100 kg, hitti lækninn sinn á dögunum og gekk út með lyfseðil fyrir þessu lyfi, bara sísvona, ekkert vandamál. Af hverju getur það sama ekki gengið fyrir mig?
Það er rosalega erfitt að stíga þetta skref, fara til bláókunnugs manns og tala um þetta, og fá svo bara predikun um að maður eigi að borða hollt og hreyfa sig meira! Ég biðst afsökunar á þeim æsingi sem birtist í þessu bréfi, en ég er nýkomin frá seinni lækninum og er algjörlega miður mín, brotnaði gersamlega niður eftir að ég kom frá honum og rétt náði að halda tárunum í skefjum þar til ég var komin út í bíl. Ég er að grátbiðja um aðstoð og það virðist engin vilja hjálpa mér.
P.s. ekki misskilja, ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er ekkert töfralyf, og að enginn nær árangri án þess að vera stífur við sjálfan sig og hreyfa sig og borða rétt. Ég hins vegar lít á þetta lyf sem aðstoð til að ná takmarkinu! Það er ekkert sem mig langar meira en að ná þessum aukakílóum af mér, ég virðist bara þurfa til þess aðstoð! Kveðja, Xxxxx

Svar:
Ég get eiginlega ekki svarað þessu af neinu gagni nema þá að mjög skiptar skoðanir eru meðal lækna og annarra innan heilbrigðiskerfisins á því hvort lyf eins og Xenical geri eitthvað gagn. Spurningin er þá hvort þú hafir lent á akkúrat á tveimur læknum sem ekki hafa neina trú á að lyfið hjálpi þér, meðan konan sem þú þekkir hefur lent á lækni sem hefur trú á lyfinu eða er alla vega reiðubúinn til að láta hana prófa. Þetta er því miður það eina sem ég get sagt með þeim upplýsingum sem ég hef.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson