Hósti

Ráð til að losna við hósta

Ertu með stanslausan hósta? Kvef og flensutímabilið er í fullum gangi núna og mikill hósti getur reynst fólki illa.  Hósti gengur venjulega yfir á 3-4 vikum en það eru hinsvegar nokkur ráð sem hægt er að gera til að flýta fyrir batatímanum.

Hósti er ósjálfrátt viðbragð sem líkaminn gerir til þess að losna við óvelkomna sýkla eða slím frá öndunarveginum. Það eru til 2 gerðir af hósta.

Hvernig á að losna við blautan hósta.

Kemur af völdum mikils slím í lungum sem líkaminn er að reyna að losna við. Það eru algjörlega eðlileg viðbrögð líkamans við framandi efnum og óhóflegri slímframleiðslu í öndunarveginum að hósta upp slími og að jafnaði á ekki að reyna að draga úr því með lyfjum.

Hvernig á að losna við þurran hósta

Kemur af völdum ertingar í efri öndunarvegi og hálsi. Ef hóstinn er þurr með engu slími, harður og ertandi eða raskar nætursvefni kemur vel til greina að taka hóstastillandi lyf.

Hann byrjar oftast með smá kítli aftast í kokinu og getur valdið hálsbólgu og slappleika.
Algengt er að þessi hósti aukist þegar fólk liggur fyrir. En þá lekur slím niður frá nefi ofan í kok sem að ertir slímhúðina og veldur því að hóstinn eykst, oft í svefni.
Hóstamixtúrur eru oft notaðar við þurrum hósta t.d. dexómet, benylan, pektólín og tússól. Stundum skrifa læknar upp á lyf sem innihalda kódein ef hóstinn er mjög slæmur og þrálátur,t.d. parkodín. Ekki má nota lyf sem innihalda kódein ef að slímmyndun er til staðar.
Gefðu ekki barni sem er yngra en tveggja ára hóstastillandi lyf nema ráðfæra þig við lækni fyrst. Alltaf skal fá ráð hjá lyfjafræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum við val á hóstamixtúru.

Heimaráð við hósta

  • Drekktu vel af vatni, um 6-8 glös á dag.
  • Heit gufa hefur reynst vel.
  • Hækka undir höfðalagi á nóttunni.
  • Heitir drykkir geta hjálpað.
  • Forðastu áreiti eins og reykingar og sterk lyktarefni.

Höfundur greinar