Af hverju fær maður náladofa?

Spurning:
Ágæti viðtakandi.

Ég er 38 ára karlmaður og tel mig vera í ágætis líkamlegu ástandi, að vísu örfáum kílóum of þungur miðað við kjörþyngd, en eru það ekki flestir?

Á síðustu tveimur mánuðum hef ég orðið var við nokkra aukningu á náladofa í vinstri fótlegg, aðallega fyrir neðan hné en stundum ofar og þá niður í tær.
Þetta truflar mig lítið en er samt oftast til staðar. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?

Kveðja.

Svar:

Sæll og þakka þér fyrir verðuga spurningu.

Ekki er hægt að álykta svo nákvæmlega út frá lýsingu þinni á dofanum hvað það er sem er að valda þér vandræðum. Ég tel að óþarfi sé að hafa áhyggjur en hinsvegar er nauðsynlegt að láta líta betur á þetta og fá úr því skorið hver er rót vandans.

Það eru ýmsar ástæður sem geta legið að baki dofa í útlimum en til þess að geta svarað þér af einhverri nákvæmni þyrfti ég að fá betri lýsingu á útbreiðslu dofans, hvernig hann breytist yfir sólahringinn og einnig er nauðsynlegt að hafa ákveðnar heilsufarsupplýsingar. Það sem fyrst kemur í hugann er að þrýstingur geti verið á ákveðna taugarót í mjóhryggnum. Við þrýsting á taugarætur flytjast taugaboðin ekki eðlilega og þegar þrýstingur er á skyntaugar fær maður dofa í það svæði sem tauginn sér um.

Önnur algeng ástæða fyrir dofa í útlimum er truflað blóðflæði. Einnig getur skortur á ákveðnum vítamínum s.s. járni,fólínsýru eða B12 vítamíni valdið dofa í fótum, en oftast er þá um að ræða báða fætur, og ákveðnir sjúkdómar lýsa sér einnig með dofa í fótum.

Ég ráðlegg þér að leita til heimilislæknisins þíns sem samkvæmt skoðun og sjúkrasögu metur hvort nauðsynlegt sé að rannsaka dofann frekar og ályktar hvaða rannsóknir eru viðeigandi.

Gangi þér vel og góðan bata,

Kveðjur,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.