Fyrirspurn:
Góðan daginn. Mig langar til að fá upplýsingar um áfallaröskun.
Getur hún komið fram löngu eftir áfall- 13 ár í mínu tilfelli? Mér var nauðgað þegar ég var 14 ára. Ég hef alltaf lifað mjög viðburðarríku og skemmtilegu lífi og verið lífsglöð. Ég hef einnig haft mikla (undirstrikað) þörf fyrir að hafa mikið af fólki í mínu lífi og í kringum mig og gæti t.d. aldrei verið heimavinnandi, ég verð alltaf að hafa e-ð að gera. Undan farið hefur þetta þó verið að breytast og gæti þetta hér:
Einkenni áfallastreitu eru endurupplifun á hinum skelfilega atburði í draumi eða vöku. Að auki koma fram mörg eftirfarandi einkenna: Skortur á hæfni til að upplifa gleði, áhugaleysi um samskipti við aðra, tilfinningalegur doði, svefnvandamál, einbeitingaskortur, pirringur, að hrökkva í kút af minnsta tilefni, að forðast það sem gæti minnt á áfallið. Margir upplifa kvíða, þunglyndi, reiði og sjálfsmorðshugsanir. (tekið úr fyrirspurn hér á doktor.is) verið skrifað um mig.
Mig langar núna helst bara að vera heima og borða (hef aldrei átt í vanda með mat- er í kjörþyngd) og gráta (ég geri það þó ekki- ég stunda mína vinnu og það veit enginn að mér líður svona), ég hef mikla þörf fyrir að sofa (geri það ekki heldur nema á nóttunni, 23-7) og ég get ekki stundað kynlíf með manninum mínum.
Ég óttast mjög þessa skyndibreytingu á minni líðan, þetta hefur verið að smá gerast- ég sé það þegar ég lít til baka- en upp á síðkastið hefur mér snarversnað, ég kvíði hverjum degi og get ekki beðið eftir að koma börnunum (2 börn 9 ára og 15 mánaða) í rúmið til að geta flúið raunveruleikann t.d. með því að horfa á heilu þáttaraðirnar og borða e-ð gott.
Er þetta eðlilegt? Hvað í ósköpunum á ég að gera???
Með þökk ein rugluð stelpa.
Aldur: 27
Kyn: Kvenmaður
Svar:
Komdu sæl.
Áfallastreita getur komið fram löngu eftir að áfall verður. Ef einkenni áfallastreitu koma fram meira en 6 mánuðum eftir að alvarlegt áfall/erfið lífsreynsla verður, er talað um áfallastreitu með seinkaðri byrjun. Mörg þeirra einkenna sem þú lýsir geta einnig átt við þunglyndi eða alvarlegan kvíða, en áfallastreita flokkast reyndar undir kvíðasjúkdóma. Sé það svo að þú hugsar mikið um áfallið og upplifir það upp á nýtt jafnvel bæði í svefni og vöku, er líklegt að um áfallastreitu sé að ræða. Það er einnig klassískt að flýja þessar hugsanir, t.d. með stöðugu áreiti frá sjónvarpi. Kannski hefur þú verið undir miklu álagi undanfarið sem hefur framkallað þetta ástand þitt. Þú hefur greinilega í nógu að snúast með eitt barn á skólaaldri, annað lítið og í vinnu!! Hefur þú sofið slitrótt síðan yngra barnið fæddist? Uppsöfnuð þreyta, svefnleysi og álag getur hafa framkallað þetta ástand.
Hver sem ástæðan en fyrir þessari slæmu líðan þá er mikilvægt að þú leitir þér hjálpar. Þú hefur að sögn lifað góðu lífi í mörg ár eftir áfallið og það muntu geta á ný. Ég mæli með að þú leitir fyrst til þíns heimilislæknis ef þú hefur góðan aðgang að heimilislækni. Þeir hafa góða þekkingu á kvíðasjúkdómum og þunglyndi og vísa áfram til geðlæknis/geðdeildar ef þeir meta þörf á því. Margir sálfræðingar hafa sérhæft sig í meðferð kvíðasjúkdóma, en því miður er þjónusta þeirra ekki niðurgreidd.
Með kveðju,
Halldóra Jónsdóttir,
geðlæknir