Afhverju taka sum börn upp kæki og önnur ekki?

Spurning:

7 ára dóttir mín hefur tekið upp nokkra kæki á sl. ári. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hún myndar hljóð, t.d. lætur loft stoppa í nefinu og hleypir því síðan út, smellir saman framtönnum, slær nokkrum sinnum laust á magann á sér. Hún er með einn kæk í einu og virðist geta hætt þegar henni er bent á að þetta sé leiðinlegt. Þá tekur hún upp nýjan einhverjum dögum eða vikum síðar. Hún gerir þetta bara þegar hún gleymir sér – er að hlusta eða horfa á eitthvað. Hún gerir þetta ekki upp í rúmi á kvöldin eða þegar hún er að leika sér við vini sína eða er að læra eða spjalla.

Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af þessu en mér leikur forvitni á að vita af hverju hún, en t.d. ekki bróðir hennar, tekur upp kæki.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Svona almennt orðað þá geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að krakkar taka upp einhverja siði, svörin geta verið jafnmörg og tilvikin.

Við getum talað um kæki sem „ósjálfráða“ kippi eða hljóð s.s. eins og að drepa stöðugt tittlinga, ræskja sig og fýla grön. Um áráttu tölum við þegar hegðun sem virðist ekki fela í sér nokkurn sýnilegan tilgang er samt síendurtekin eins og hún verði að gerast (ritual). Athafnirnar birtast jafnvel í ákveðinni röð og ef röðin er trufluð á einhvern hátt, þarf viðkomandi oftast að byrja aftur á byrjuninni og fara í gegnum allt ferlið að nýju. Dæmi um þetta gæti verið að strjúka með tveimur fingrum eftir öllum dyrafölsum í íbúðinni alltaf í sömu röð, þrisvar á dag.

Þótt kækir og árátta sé svona sterk og að því er virðist óviðráðanlegt, þá er ýmislegt sem bendir til þess að hægt sé að kenna fólki að stýra þessu nokkuð og fresta „köstunum“. Þeim verður sem sagt ekki sleppt, en það er eins og fólk geti stundum haldið í sér og farið síðan á afvikinn stað og tekið skammtinn út.

Ef þér finnst að þessir siðir dóttur þinnar aukist, tengist öðru í fari hennar eða verði á einhvern hátt óviðráðanlegir, er sjálfsagt fyrir þig að biðja lækni að líta á hana. Hins vegar lýstir þú dóttur þinni ekkert nánar, svo ég get mér til um að í daglegum háttum hennar sé ekkert annað sem veki sérstaklega athygli þína, eða tengist þessum töktum. Ef svo er, þá er líklegt að þetta hverfi að sjálfu sér, eða ef nýjar venjur koma í staðinn, verði þær ekki í það miklum mæli að það trufli daglegt líf hennar og annarra.

Með góðri kveðju,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur