Afleiðingar áfengisneyslu, fráhvörf og síðhvörf.

Fyrirspurn um afleiðingar áfengisneyslu, fráhvörf og síðhvörf.

Mig langar að fá upplýsingar um áhrif langvarandi áfengisneyslu á andlega og líkamlega líðan eftir að neyslu er hætt.

Þannig er mál með vexti að ég er núna búin að vera 3 mánuði edrú eftir ca. 20 ára neyslutímabil á bjór og léttvíni (með hléum þó).Ég fór í meðferð í vetur sem lauk fyrir hálfum mánuði síðan. Ég upplifði mikla vellíðan fyrstu 2 vikurnar eftir að ég hættineyslu en eftir það hefur andlega líðanin farið niður á við. Ég er búin að upplifa flatneskju, þunglyndi, kvíða, óöryggi, vanmáttarkennd, spennu, streitu og áfram mætti telja. Þrátt fyrir að ég taki geðlyf að staðaldri, Fontex (sem ég byrjaði að taka á síðasta ári) , þá hefur þessi líðan ekki skánað mikið, þó þreytan hafi minnkað. Einnig finn ég fyrir ýmsum líkamlegum einkennum eins og óreglulegan hjartslátt, verki víðast hvar í líkamanum (er farin að halda að ég sé með hjartasjúkdóm eða krabbamein), öndunarerfiðleika og óreglulegan svefn.  Ég hins vegar tek lýsi og vítamín, hreyfi mig 1-2 klst á dag, reyki ekki, les mikið, er í starfi þar sem ég hreyfi mig mikið, er með gott stuðningsnet bæðihjá vinum og fjölskyldu en samt líð ég andlegar vítiskvalir, hvað getur valdið því ?

Getur þetta verið hluti af fráhvörfum eða síðhvörfum ?

Getur þetta verið undirliggjandi þunglyndi og kvíði sem er að angra mig, og ef svo er, hvað er til ráða ?

Þarf ég að skipta um lyf eða taka einhver önnur lyf til viðbótar ?

Getur þetta verið einhver áunnin veikindi útaf neyslunni sem ber að rannsaka betur ?

Með fyrirfram þökk og kveðju,

ein örvæntingarfull.

Sæl

Það sem er verið er að lýsa er fráhvörfin frá áfengisdrykkjunni og ekki síður hegðunarmynstrinu sem drykkjan hefur verið að hylja. Vandinn við drykkjuna er yfirleitt ekki drykkjan sjálf heldur hegðunarmynstrið.  Það má segja að það séu þrjú meginatriði sem þarf að hafa í huga í því sambandi.

Í fyrsta lagi eru áhrifin frá umhverfinu á sína eigin líðan.

Flest áhrif frá öðrum hafa áhrif á okkar líðan. Eftir því sem t.d. einstaklingar eru nánir verða áhrifin sterkari. Þetta er oft kallað tilfinningasmit. Þannig ef það er mikið um sterk áhrif t.d. skilnaður eða starf þar sem sterkir hagsmunir takast á að þá geta áhrifin magnast frá því að vera eðlileg kvíðaviðbrögð að verða að ofsakvíða sem virðist vera að hrjá þig. Það getur líka komið fram streita eða síkvíði sem er í raun að upplifa kvíða, þrátt fyrir að aðstæður í augnablikinu séu ekki kvíðvænlegar, heldur að mögulega í framtíðinni. Því þarf einstaklingur að þjálfa sig að taka ekki inn á sig kvíða vegna t.d. vanlíðunar annarra. Þetta er í stuttu að taka ekki annarra ferðatöskur í Leifstöð. Þetta er eitt af því sem er mjög algengt í fari áfengissjúklinga að gera sig ábyrga fyrir vanlíðan og erfiðleikum annarra.

Í öðru lagi er að taka ábyrgð á sinni eigin vellíðan og sátt í lífinu.

Lífið er afskaplega einfalt og markmiðið er aðeins eitt þegar upp er staðið og það er að deyja sátt og gömul kona. Ef það er eitthvað annað, að þá vildi ég komast að því. Ábyrgðin fyrir þessu markmiði hefur þú fyrir þig sjálfa. Það er ekki neitt eða neinn sem ber ábyrgð á þínu markmiði. Um leið og einstaklingur gerir sér grein fyrir þessu verður margt ljósara og um leið einfaldara. Áráttuhegðun er mjög algeng í fari alkóhólista. Áráttuhegðun er t.d. óstjórnanleg hegðun, óþol og fráhvarfseinkenni, en árátta, þráhyggja, kvíði og þunglyndi eru oft undirliggjandi orsakir í áráttuhegðun. Áráttan er oft í þá átt að stjórna því að áreitið sem veldur kvíða og vanlíðan hjá manni sjálfum verði öðruvísi en það er. Fólk vill yfirleitt ekki taka þeirri stjórn sem við erum að beita. Enda er það ekki í okkar valdi að stjórna öðrum. Við berum heldur ekki ábyrgð á hegðun eða líðan annarra. Þegar einstaklingur sem er að eiga við áráttuhegðun áttar sig á þessu og fer að einbeita sér að sjálfum sér og sínum markmiðum leysast vandamálin upp. Leiðin er í leit að sinni eigin sátt en ekki í skilgreiningu á vandamálum þar sem aðrir koma við sögu. Rétt eða rangt, gott eða vont eða siðferðislega þetta og hitt skiptir ekki máli, heldur þín eigin vinna með sjálfan þig.

Í þriðja lagi gefa allar góðar ákvarðanir orku en allar slæmar brenna henni upp.

Eftir því sem þín næmni kemur upp við að sinna þér. Þín markmið verða þér skýr í því hvað þú vilt og hvað þú sjálf ætlar að gera í þínum málum en hættir að einblína á þátt annarra að þá kemur upp þín lífsorka. Áráttuhegðunin verður ekki eins afdrifarík og áhrif af henni geta verið þér í hag jafnvel ef vel er farið með. Þannig getur þú smám saman farið að skapa þitt eigið líf með þínum tilgangi í forgrunni. Það er mikil vinna að breyta þessu. Það þarf að vinna svona vinnu amk. Klukkutíma á dag með þv&i
acute; gera gott plan yfir t.d. frítímann sem byggir á því að hafa þar sem mest af þeim atburðum sem fær þig til að líða vel og gerir þig sátta. Hvert val sem gerir þér gott gefur þér orku og tekur í burt kvíðaeinkennin sem þú berð í brjósti.

Þetta eru þau atriði sem snúa að sálfræðingnum en auðvitað geta verið taugafræðilegt vandamál, en það er líklegra ekki. Það er lifelong learning að breyta sínu lífi í það sem ég er að reyna að lýsa í stuttu máli. Vanalega líða þessi fráhvörf frá og allur stuðningur er mjög mikilvægur. Það er mikilvægast af þessu eftir minni reynslu að koma góðum böndum á sín samskipti við aðra. Hvaða væntingar maður hefur til annarra, hvaða ábyrgð er maður að taka af öðrum og hvernig tekst ég á við mínar eigin forsendur og mína sátt. Fontex sem slíkt leysir ekki þessi mál, heldur góð handleiðsla í því að takast á við þau.

Ég vona að þetta sé smá innlegg í þína vinnu.

Kær kveðja

Björn Vernharðsson, Sálfræðingur