Áhrif reykinga á meðgöngu

Spurning:

Ég er með 2 spurningar.Annarsvegar þegar það fer að koma broddur soldið meira en bara gengur en samt ekkert flóð eða neitt svoleiðis, er þá stutt í fæðinguna eða er þetta bara eðlilegt.

Og svo hinsvegar þá reyki ég og er kominn 37 vikur hvaða áhrif getur það haft á fóstrið nú.

Ég veit allt um það hvað það sé óhollt að reykja og allt það enda er það ekki spurning mín. Heldur hvaða árif það hafi nú eftir 37 viku að ég reyki.

p.s ég á annað barn fyrir en reykti ekki með það..

Svar:

Sæl

Það er alltaf ávinningur af því að hætta að reykja. Og ef móðir reykir meðan hún gengur með barn fara ýmis skaðlegustu efni tóbaksreyksins úr blóði hennar gegnum fylgjuna til fóstursins, þar á meðal nikótin, kolsýrlingur og sum þeirra efna sem geta valdið krabbameini. Kolsýrlingur verður enn meiri í blóði fóstursins en móðurinnar. Fyrir bragðið dregur úr þroska barnsins.

Í sígarettureyk eru ca. 4700 kemiskefni, 43 af þeim eru þekkt sem krabbameinsvaldandi.

Ef ófrísk kona reykir 20 sígarettur á dag, reykir fóstrið 38.

Konum sem reykja á meðgöngu er hættara við fylgjulosi, en fylgjan er lífsnauðsynlegur snertiflötur við leg móðurinnar. Í gegnum fylgjuna berast fóstrinu næring og súrefni. Hjá konum sem reykja eldist fylgjan hraðar sem þýðir lélegra blóðflæði og þar af leiðandi minni næring til fósturs/barns. Ófæddu barni stafar því augljóslega hætta af tóbaksreyk.

Seinni hluti meðgöngunnar er viðkvæmastur. Almennt má segja að hættan á frávikum frá eðlilegri meðgöngu aukist ef móðirin reykir og verður þeim mun meiri sem hún reykir meira. Einnig er það staðreynd að börn kvenna sem reyktu á meðgöngu voru að jafnaði mun minni en önnur börn við fæðingu og 200 – 500 grömmum léttari en börn mæðra sem ekki reyktu. Börn sem hafa þolað reykingar á meðgöngu eru einnig viðkvæmari fyrst eftir fæðinguna því þau eru með nikótín í blóðinu. Þessi börn eru oft óróleg fyrstu dagana vegna þess að þau eru háð nikótíninu sem þau fá nú ekki með blóði móður sinnar.

Þegar barnið er fætt er ekkert sem bendir til þess að börn verði fyrir minni óþægindum en fullorðnir ef óbeinum reykingum t.d. áhrif á augu, eyru, nef og háls, óþægindi í maga, höfuðverk o.s.frv. Einnig ef móðir reykir kemst nikótín í brjóstamjólkina, það getur haft þau áhrif á barnið að það verður fölt kastar upp eða fái niðurgang.

Margt getur stuðlað að því að barn byrjar að reykja en fátt virðist samt skipta meira máli en fyrirmyndirnar og eru foreldrarnir klárlega mestu áhrifavaldar í lífi barnsins. Ef foreldrarnir reykja gefa þau barni sínu fordæmi sem reynst getur þungt á metunum.

Gangi þér vel í framtíðinni en ef einhverjar fleiri spurningar koma upp hjá þér eða þér vantar stuðning til að hætt að reykja þá langar mig að benda þér á að hafa samband við okkur í síma : 800-6030

Kveðja Brynhildur, ráðgjafi í reykbindindi