Áhrif sláttuorfs á móðurlífið?

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er búin að heyra mikið af því að konur megi ekki nota bensínsláttuorf vegna skaðsemisáhrifa á móðurlíf þeirra. Getur þetta staðist, eða er þetta bara kjaftæði?

Kveðja, X

Svar:

Takk fyrir ágæta fyrirspurn og það er rétt hjá þér að alltaf heyrist af og til af því að konur megi ekki nota bensínsláttuorf vegna skaðsemi á móðurlíf þeirra. Þetta er að vissu leyti rétt því það hefur sýnt sig að bensíngufur sem stíga upp frá vélinni geti valdið fósturláti hjá konum á fyrstu þrem mánuðum meðgöngu. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að konur sem halda á hlut sem er meira en 9 kg í einhvern tíma daglega eru í meiri hættu á að missa fóstur fyrstu þrjá mánuðina og sláttuorf eru jú ansi þung.
Hins vegar er ekki talið að um bein skaðleg áhrif á móðurlíf kvenna sé að ræða. Til eru rannsóknir sem hafa staðfest skaðleg áhrif titrings á kynfæri karla. Þessi skaðlegu áhrif eru þau að sáðfrumum fækkar og hreyfigeta þeirra er minnkuð. Jafnframt eykst framleiðsla á óheilbrigðum sæðisfrumum sem getur valdið minni frjósemi karlmannsins.

Fyrir þá sem vinna með þessi tæki er því rétt að fá leiðbeiningar hjá Vinnueftirliti ríkisins en stofnunin hefur allar upplýsingar um hvort titringur frá þeim sláttuorfum sem er verið að nota hér á landi sé nægilegur til að valda þessum áhrifum. Ég vona að þú sért ánægð/ur með þetta svar.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir