Áhugaleysi á kynlífi

Spurning:

Góðan dag.

Ég er 27 ára gömul kona og hef í mörg ár átt í einhvers konar sálrænum kynlífserfiðleikum. Þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir til þess að gera kynlífið skemmtilegt og spennandi þá finnst mér ég aldrei fá neitt almennilegt út úr því. Ég á reyndar alls ekki erfitt með að fá fullnægingu, en áhuginn er algjörlega orðinn að engu og mér finnst kynlífið ekki það spennandi að það sé þess virði að stunda það. Sambýlismaður minn til nokkurra ára hefur mjög mikla kynhvöt og árekstrar okkar eru því mjög tíðir og hann á erfitt með að skilja þessa deyfð hjá mér. Við höfum mjög mikið talað saman um þetta. Ég hef verið dugleg að ræða þetta við hann, en einhvern veginn höfum við ekki getað unnið úr þessu.

Það skiptir sjálfsagt máli að ég hef átt miður skemmtilegar kynlífsreynslu sem barn og unglingur og eflaust hefur það eitthvað að segja.

Með einlægri von um skjót svör.

Svar:

Áhugaleysi fyrir kynlífi er þó nokkuð algengt, bæði meðal karla og kvenna. Það er þó algengara að konur kvarti undan því en karlar, enda líklega „leyfilegra” í samfélaginu að þær séu áhugalausar um kynlíf en karlar. Reyndar er það einnig svo að þegar karlmaður er áhugalaus, er það konan, sem leitar aðstoðar.

Áhugaleysi gagnvart kynlífi þarf ekki að vera tengt erfiðleikum við að fá fullnægingu. Þar getur ýmislegt annað komið til. Þú nefnir miður skemmtilega reynslu af kynlífi á barns- og unglingsárum. Slík reynsla getur vissulega haft áhrif á kynlíf síðar á ævinni, en einnig skiptir miklu hvernig makarnir spila saman í kynlífinu, sjálfstraust og sjálfsvirðing viðkomandi og hvernig viðkomandi almennt í lífinu sér til þess, eða sér ekki til þess, að hann lifi góðu og fullnægðu lífi almennt.

Oftast er ekki nóg að makarnir ræði málið einir og sér vegna allra þeirra tilfinninga, sem stýra þeim í slíkum samræðum. Þar er um að ræða tilfinningar eins og sektarkennd, tilfinning fyrir höfnun, tilfinning fyrir að standa sig ekki, óöryggi um hvort þetta er „mér að kenna”, gæti þetta verið öðru vísi með öðrum maka og fullt af fleiri tilfinningum.

Mín ráðlegging er því sú að þið leitið til fagmanns og fáið aðstoð við að takast á við þetta vandamál. Það er rétt að árétta að þó vandamálið birtist hjá þér og eigi e.t.v. rætur sínar hjá þér, þá er þetta hans vandamál einnig, þar sem þetta hefur heilmikil áhrif á hans kynlíf. Hann þarf því að vera tilbúinn að líta svo á að hann þurfi að leggja sitt af mörkum til lausnar.

Góðar kveðjur,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.