Spurning:
Ég er að velta fyrir mér hvort ég á að hafa áhyggjur af 11 ára dóttur minni. Þannig er að hún á það til að vera mjög leið og segir að mér og pabba hennar þyki ekki vænt um hana og öllum sé alveg sama um hana, hana langi ekki að vera til og finnst lífið bara hundleiðinlegt og fleira í þessum dúr. Ég hef reynt að tala við hana margoft og segja henni að okkur þyki mjög vænt um hana, hélt kanski að þetta væri afbrýðisemi (á 8 mán. systur), ég er búin að reyna að útskýra að litla systir þarf mikla athygli en að það þýði samt ekki að okkur þyki ekki vænt um hana líka. Ég virðist bara ekki ná nægilega vel til hennar eða að hún vill ekki hlusta á mig. Þetta kemur upp hvað eftir annað og ég eiginlega veit ekki hvort henni er alvara eða hvort þetta sé bara til að fá athygli. Er næstum búin að gefast upp á að vera að segja henni sömu hlutina aftur og aftur um að okkur þyki vænt um hana o.fl. því að hún mótmælir öllu sem ég segi. Nýjasta dæmi var í gær, þá labbaði hún á vídeoleiguna að skila spólu og þegar hún kom heim segir hún: ,,mamma, ég mætti fullt af fólki á leiðinni en það sá mig enginn, það er bara eins og ég sé ekki til" og hún var með tárin í augunum. Þetta er orðin voða langloka hjá mér en ég bara varð… mig langar að fá álit hjá ykkur hvað ég ætti að gera? Hún er mjög dugleg stelpa og hjálpar til með litlu systir sína og er góð við bróður sinn sem er 8 ára, er almennt mjög blíð stelpa.
Með von um skjót svör.
Kveðja
Svar:
Sæl.
Líklegt er að þessar hugsanir dóttur þinnar tengist að einhverju leyti því að hún eignast litla systur sem þið veitið meiri athygli. Síðan verður það til þess að hún magnar þessar hugsanir upp og fer að leita eftir því í umhverfinu að enginn sé að veita henni athygli. Við teljum það sjálfsagt að enginn taki eftir okkur úti á götu en hún túlkar það þannig að enginn vilji taka eftir henni. Því meira sem hún hugsar um að þið og aðrir veitið henni ekki athygli því meira leitar hún eftir táknum í umhverfinu sem staðfesta þessar hugsanir. Reynið að gera ekki of mikið úr því þegar hún segir að enginn veiti sér athygli. Veitið frekar athygli þegar hún er ekki að tala um þetta. Ef hún fær mestu athyglina þegar hún er að tala um þetta þá er líklegt að umræðan verði meiri og meiri. Það má samt ekki gera lítið úr því að hún er raunverulega að hugsa um að enginn veiti henni athygli. Ef þið teljið að þið náið ekki til hennar þá getið þið leitað til sálfræðings við skólann hennar eða þá sálfræðings á stofu.
Gangi ykkur vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43