Áhyggjur af að missa fóstur vegna PCOS?

Spurning:
Góðan daginn.
Þannig er mál með vexti hjá mér að í lok september fór ég til kvensjúkdómalæknis vegna óreglulegra blæðinga. Hún skoðaði mig og sagði að ég væri með svona pco-lega eggjastokka, en ég vil bara taka það fram að ég er ekki með nein karlgerandi einkenni, engan auka hárvöxt, bólur eða neitt. Það eina sem er að ég mætti alveg léttast aðeins. Ég sagði henni að ég hefði ekki verið óregluleg þegar ég var yngri enda var ég grennri, hún sagði að ég ætti að léttast aðeins, þá gæti þetta lagast hjá mér. En hér kemur spurningin mín: Ég hætti á pillunni í október og varð strax ófrísk, komin núna 8v2d. Ég fór í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni fyrir tveimur vikum og hún sagði mér að það liti bara allt mjög vel út, hjartsláttur og fínlegheit. Óléttueinkennin mín eru mikil, mikil ógleði og kasta upp 1x á dag, mjög viðkvæmar geirvörtur, þreyta, smá túrverkir af og til og aukin þvaglát.
En ég hef áhyggjur af því að það sé mikil hætta á fósturláti vegna pcos (hef ekki misst fóstur áður og þetta er mitt fyrsta barn). Er það eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur af? Ég minntist á það við lækninn sem framkvæmdi snemmsónarinn að ég væri líklega með pcos en hún minntist ekkert á það að það væri vandamál. Sagði bara að þegar er búið að greina eðlilega meðgöngu, fóstrið á réttum stað og svona þá væru litlar líkur á að það gæti farið eitthvað úrskeiðis. Ég vona að þið getið eitthvað hjálpað mér að létta af áhyggjum mínum.
Takk fyrir

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
PCO (polycystic ovaries) eða blöðrur á eggjastokkunum eru algengasta orsök fyrir blæðingartruflunum og því að egglos verði ekki. Algengara er að konur í ofþyngd séu með þennan kvilla og einkennin eru blæðingatruflanir, bólur í andliti, aukin hárvöxtur á líkamanum og feitt hár.  Allar konur geta misst fóstur og er það algengast á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar. Tíðni fósturláta eru á bilinu 10-35%. Einn af áhættuþáttur fyrir því að missa fóstur eru blöðrur á eggjastokkunum.  Ef þú ert með pco sem mér finnst nú ekki endilega hafa verið greining læknisins þá ættir þú bara að vera jákvæð og bjartsýn á að allt gangi vel þar sem þú ert með sterk meðgöngueinkenni, ert búin að fara í sónar og allt lítur vel út.  Vona að þetta létti eitthvað á áhyggjum þínum og þú getir farið að njóta meðgöngunnar og þess sem er í vændum.

Gangi þér allt í haginn. Brynja Helgadóttir, ljósmóðir