Áhyggjur af áunninni sykursýki

Spurning:
Ég er á sextánda ári ég er ca 166 á hæð og 50 kíló ég hreyfi mig ekki voða mikið og ég borða dálítið mikinn sykur en þó ekki mikið gos. Ég hef svolitlar áhyggjur að ég muni fá áunna sykursýki seinna á ævinni. Það er enginn með sykursýki í ættinni en ég vil bara gera allt sem ég get til þess að fá ekki áunna sykursýki og þá kem ég að spurningu minni á ég að borða sem minnstan sykur eða hvað get ég gert svona til varrúðar svo ég fái ekki áunna sykursýki ? Og er áunnin sykursýki gerð 1 eða 2. Ég hef ekki séð neina grein um áunna sykursýki á doktor.is og ég var að velta fyrir mér hvort þið gætuð skrifað grein um það.

Svar:
Áunnin sykursýki eða insúlínóháð sykursýki er sýkursýki sem leggst oftast ekki á fólk fyrr en eftir 40 ára. Við þessa tegund sykursýki sem er einnig stundum nefn sykursýki týpa 2, myndast insúlín í brisinu, en magn þess fullnægir ekki þörfum líkamans. Sjúklingarnir eru allflestir of feitir og mynda ekki nóg insúlín til að bregðast við þeirri aukningu blóðsykurs/líkamsstærðar, sem af ofátinu hlýst. Um það bil þriðjungur sjúklinga sem fá þessa tegund sykursýki eiga nákomna ættingja með sjúkdóminn, svo arfgengi er hér mikilvægur þáttur. Virkni briskirtilsins fer eins og reyndar virkni margra annarra líffæra minnkandi með aldrinum. Yfirleitt er hægt að halda þessari tegund sykursýki í skefjun með breyttu mataræði. Þú spyrð að því hvað þú getir gert, borðaðu sykur í hófi og varastu að verða mjög feit síðar á ævinni. Annars ættir þú að hætta að spá mikið í þetta, en gullna reglan allt er gott í hófi á mjög vel við hér.

Með kveðju og ósk um gott gengi

Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Ritstjóri www.Doktor.is