Áhyggjur af því að missa aftur fóstur?

Spurning:
Góðan daginn.
Málið er að ég er nýkomin frá útlöndum og var að komast að því að ég er ólétt. Ég er 3x búin að missa fóstur, síðast í lok maí. Ég drakk svolítið mikið af léttvíni þegar ég var úti og var náttúrulega í miklum hita. Einnig er ég búin að vera með mjög slæma blæðandi gyllinæð í 2 vikur. Ég er alltof þung og hef miklar áhyggjur af því að missa aftur fóstur. Er hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur? 
Hvernig get ég losnað við gyllinæðina?  Ég er að nota stíla sem heita Sulgan og krem líka. Eru einhverjar rannsóknir sem ég get farið í til að skera úr um hvort ég missi þetta fóstur líka.
Með fyrirfram þökk

Svar:
Það er fátt sem hægt er að gera til að forðast fósturlát annað en að lifa heilsusamlegu lífi og taka bætiefni með a.m.k. 400mcg fólínsýru. Engar rannsóknir eru til sem sýna fram á líkur á fósturláti en hafi kona ítrekað misst fóstur eru venjulega gerðar rannsóknir á orsökum fósturlátanna eins og sýkingar og byggingagallar í legi. Þú ættir því að fara sem fyrst til þíns kvensjúkdómalæknis og ræða þessi mál við hann. Varðandi gyllinæðina þá er besta ráðið að halda hægðum mjúkum með trefjaríku mataræði, mikilli vatnsneyslu og hreyfingu. Mörgum finnst einnig gott að fara í heitt setbað til að minnka óþægindin í gyllinæðinni en á meðgöngu er ekki æskilegt að vera í miklum hita svo e.t.v. er betra fyrir þig að nota heita bakstra, sturtuna eða balabað. Mörgum finnst líka gott að leggja kaldan bakstur við gyllinæðina eftir hægðalosun og til eru sérstakir þvottaklútar sem eiga að draga úr verkjunum. Þyngdin hefur mikið að segja og því miður eykst yfirleitt gyllinæð á meðgöngu vegna hormónaáhrifa og þyngdar legsins á grindarbotninn. Vera má að þú þurfir eitthvað sterkara lyf en Sulgan – ræddu það einnig við lækninn þinn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóði