Spurning:
Fyrir nokkrum mánuðum síðan uppgötvaði ég að maðurinn minn hefur eitthvað verið að skoða klámsíður á netinu sem innihalda myndir af dragdrottningum. Við höfum verið saman í mörg ár, og eigum börn saman og samband okkar hefur alltaf verið gott. Ég hef aldrei fundið í fari hans eitthvað sem gefur til kynna að hann sé tvíkynhneigður eða neitt slíkt. Þvert á móti er hann mjög jarðbundinn að eðlisfari. Ég veit ekki hvað mér á að finnast um það að honum finnist svona myndir örvandi? Sjálf hef ég ekkert á móti ,,bláum" myndum en við höfum þó aldrei horft á slíkar myndir. Ég er sá aðili í okkar sambandi sem er fjörugri í kynlífinu, opnari og hef oft komið honum á óvart með ýmsum uppátækjum. Ég fékk áfall í fyrstu en sýndi honum síðan fram á það ég væri opin fyrir þessu, ef hann hefði gaman af þessum myndum. Ég keypti handa honum/okkur videómynd með svona efni, en fór jafnframt fram á það við hann að við notfærðum okkur þennan áhuga hans sem jákvætt spennandi tilbreytingu í okkar samlífi og bað hann því jafnframt að vera ekki að fara á bak við mig. En hann hefur síðan klætt sig í kjól af mér, en ég komst að því fyrir tilviljun. Ég veit ekkert um svona ,,áhuga" en man til þess að hafa heyrt það að þetta væru gagnkynhneigðir menn sem hefðu þennan áhuga. Við hverju á ég að búast? Kemur þetta til með að aukast með árunum og /eða stendur mér einhver ógn af þessu? Hann vill meina að honum finnist þetta bara spennandi og hafi ekkert með það að gera að hann elski mig ekki? Auðvitað er ég mjög sorgmædd yfir því að hann hafi aftur farið á bak við mig því við höfum alltaf treyst hvort öðru og samband okkar einkennst af gagnkvæmri virðingu. Að hluta til finnst mér hann hafa haldið framhjá mér andlega, en fyrst og fremst er ég hrædd við það sem ég ekki þekki. Hvernig þróast svona áhugi hjá mönnum?
Áhyggjufull eiginkona.
Svar:
Sæl og takk fyrir bréfið.
Af frásögn þinni tel ég líklegast að maðurinn þinn sé að fikra sig áfram eftir braut klæðskiptinga. Ekki má rugla því saman við kynskiptinga eða dragdrottningar. Kynskiptingar óska eftir að skipta um kyn og telja sig í röngum líkama m.t.t. kyns og dragdrottningar eru hommar, sem einkum nota kvenföt til að undirstrika ákveðið hlutverk. Klæðskiptingar eru í langt yfir 90% tilvika gagnkynhneigðir menn, sem nota kvenföt til að fá ákveðið kynferðislegt kikk. Oft er slíkt þeim nauðsynlegt til að geta notið kynlífs fullkomlega. Þeir eru algerlega hættulausir og ,,afbrigðilegheitin” eru eingöngu fólgin í þessari þörf fyrir að nota kvenföt, oft undirföt, til að auka kynlífsnautn sína. Þeir sem ganga lengst klæða sig í kvenmannsföt yst sem innst þegar þeir geta því við komið og fá þá heljarkikk út úr því að geta blekkt aðra þannig að ekki uppgötvist að um karlmann er að ræða. Þetta er þeim yfirleitt erfitt í upphafi og fer mjög eftir viðbrögðum maka hvernig þróunin verður. Sjálfir halda þeir þessu yfirleitt mjög lengi frá sér. Mér virðist þín viðbrögð vera mjög vel til þess fallini að maðurinn þinn ætti að geta prófað sig áfram og þetta gæti hugsanlega gert kynlíf ykkar ríkulegra og hann notið þess betur í framtíðinni. Ég myndi þó ráðleggja þér að leyfa honum að ráða hraðanum á þessari þróun.
Hvorki þér eða nokkrum öðrum stendur nein ógn af þessu og þú þarft alls ekki að líta á þetta sem einhvers konar framhjáhald. Það felst engin ósk í þessu um að vera með annarri konu og allra síst, ef þú ert sjálf til í að taka þátt í þessari þörf hans með honum.
Þú getur lesið meira um klæðaskiptinga í Sálfræðibókinni, sem MM gaf út árið 1998 ef ég man rétt.
Gangi ykkur vel,
Sigtryggur.