Annað ljósopið er stærra?

Spurning:
Hver getur verið ástæða þess að ljósop eru að jafnaði stór og annað stærra en hitt?

Svar:
Ljósop, eða sjáöldur, eru jafnan jafnstór og bregðast jafnt við ljósi. Í u.þ.b. 10% fólks eru ljósopin misstór og getur það valdið nokkrum áhyggjum. Hins vegar er ástæðan oftast sárasaklaus. Sumir eru fæddir með misstór ljósop og er þá oftast ekki vitað um orsakir þessa. Algengasta orsökin fyrir misstórum sjáöldrum er svokallað Adies fyrirbrigði, en það eru misstór sjáöldur sem koma oftast í kjölfar venjulegrar veirusýkingar.

Enginn veit af hverju þetta gerist og sjáöldrin verða oftast misstór til frambúðar. Þetta er þó ekki áhyggjuefni og tekur viðkomandi sjálfur yfirleitt mest eftir þessu! Í örfáum tilfellum geta misstór sjáöldur verið merki um líkamlega sjúkdóma, oftast tengdum miðtaugakerfi og því ætti til öryggis að leita læknis ef sjáöldrin verða skyndilega misstór.

Bestu kveðjur, Jóhannes Kári Kristinsson.