Spurning:
Mig langar til að grenna mig á skynsamlegan hátt, þ.e.a.s. með því að minnka fitu og sætindi. Ég hef heyrt þá þumalputtareglu að sleppa ætti öllu sem er með 5% fitu eða meira. Eru einhverjar fleiri svona þumalputtareglur sem þú veist um og ég get farið eftir?
Svar:
Það er hægt að benda á nokkrar skynsamlegar leiðir til að grennast. Þessi 5% regla er ekki góð að öllu leyti þar sem hætta er á að við náum ekki að uppfylla þörf okkar fyrir lífsnauðsynlegar fitusýrur og fituleysanleg vítamín ef engin undantekning er gerð á reglunni.
Hveitiklíð og hafragrjón væru til að mynda bannvara ef farið væri strangt eftir þessari reglu, einnig feitur fiskur sem getur ekki talist annað en hollur sé hann borðaður af og til. Lýsi yrði jafnframt á bannlista, en ef fæði er mjög fituskert er lýsi mjög mikilvægur þáttur í mataræðinu til að tryggja næga inntöku A- og D-vítamíns. Lýsið inniheldur einnig mikið af hollum fitusýrum.
Ég myndi því ekki einblína um of á þessa 5% reglu, en fínt er að hafa hana sem viðmið þegar lesið er utan á pakkningar. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða fæðutegundir sem við þekkjum ekki vel og vitum ekki hvaða hráefni þær innihalda.
Góð ráð varðandi hollar neysluvenjur er að borða mikið af ávöxtum og grænmeti og drekka mikið vatn. Þá höfum við minna pláss fyrir annað sem er orkumeira. Gott er að temja sér að skammta hæfilega á diskinn og láta kartöflur (pasta eða hrísgrjón) og grænmeti fylla 2/3 af diskinum. STÓRAN SKAMMT AF GRÆNMETI. Svo er að borða hægt til að leyfa líkamanum að átta sig á því þegar hann er búinn að fá nóg. Ekki rífa í sig og standa svo á blístrinu eftir matinn. ENGA GRÆÐGI!
Síðan er gott að forðast mjög feit matvæli (þá má styðjast við regluna hér að ofan). Velja magrar mjólkurvörur, magurt kjöt og forðast sætar kökur og kex. Sælgæti inniheldur mikið af hitaeiningum og er nánast snautt af bætiefnum – sleppum því sælgætinu.
Hugsaðu síðan um það hvað þú gerir dags daglega. Notar þú stiga? Ekur þú alltaf um í bílnum, sama hversu stutta vegalengd þú þarft að fara? Hvernig væri að hjóla? Hjóla í vinnuna og heim aftur, það gæti jafnast á við 1-2 leikmfimitíma. Taka stigann í staðinn fyrir lyftuna. Dunda sér í garðinum eða fara í göngutúr á kvöldin eða um helgar í staðinn fyrir að kúra fyrir framan sjónvarpið. Það að vera virkur allan daginn hefur miklu meira að segja en að fara út að hlaupa í 20-30 mín 3 – 4 x í viku. Spáðu aðeins í það og gangi þér síðan vel!
Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur