Athyglisbrestur á einum stað en ekki öðrum?

Spurning:
Góðan dag.
Það sem mig langar að spyrja um er hvort barn geti verið með athyglisbrest á einum stað en ekki öðrum, það er í skóla en ekki í hópíþrótt. Sonur minn telst vera með athyglisbrest í skólanum en svo gengur honum mjög vel í íþróttum, hann er greindur með lesblindu, greindist 12 ára og hefur ekki fengið neina hjálp frá skólanum.
Svo langar mig að vita hvaða lyf er hægt að gefa honum því hann á erfitt með að hemja skap sitt ef á móti blæs. Hann er svo snöggur að reiðast ef honum er bannað eitthvað heima eða ef sett er út á hegðun hans í skólanum. Hann er líka mjög neikvæður og trúir ekki á sjálfan sig að hann geti staðið sig vel, hvorki í skóla né í íþróttum. Honum gegnur illa í skóla en mjög vel í íþróttinni sem hann stundar. Hvað er hægt að gera fyrir hann?

Svar:

Sæl.
Jú athyglisbrestur er mis mikill eftir aðstæðum. Þú tekur væntanlega ekki eftir athyglisbresti þegar kemur að áhugamálum, t.d. tölvuleikjum eða slíku. Athyglisbrestur kemur mest fram í skóla þar sem verkefnin eru oft á tíðum erfið (sérstaklega fyrir börn með lestrarerfiðleika) og börnin þurfa að sitja og vinna allan daginn. Slíkar kröfur eru ekki á barnið heima og því reynir minna á athygli og einbeitingu. Tilfinningaerfiðleikar eru frekar regla en hitt hjá börnum með lestrarerfiðleika og athyglisbrest. Börn með athyglisbrest eru gjörn á að gleyma hlutum sem þau eru beðin um og virðast ekki hlusta þegar maður talar við þau. Fólk tekur oft slíku sem mótþróa, leti eða áhugaleysi og gerir sér ekki grein fyrir því að barnið er að reyna að þóknast og gera sitt besta en getan er einfaldlega oft ekki til staðar. Þegar þessi börn eru lengi að gera hlutina eða muna ekki fyrirmæli þá verður fólk pirrað og er stöðugt að atast í þessum börnum. Margir foreldrar kannast við pirringinn á morgnana þegar allir eru komnir í útigallann en barnið með athyglisbrest er komið í einn sokk og er ekkert að flýta sér. Þegar þessi börn eru vön að fólk pirrist út í þau þá verða þau viðkvæm og bregðast oft við með reiði eða gráti. Vanmáttarkennd getur farið að aukast og sérstaklega ef barnið finnur að illa gangi í skóla. Ekki mæli ég með lyfjagjöf áður en aðrar leiðir eru farnar. Hægt er að læra ákveðna tækni til að bregðast við hegðunarvanda barna. Má þá benda á SOS námskeið hjá Félagsvísindastofnun og mátt þú hringja þangað og skrá þig. Skólasálfræðingur á að vera við skóla barnsins þíns sem getur leiðbeint þér með námið og tilfinningar barnsins þíns. Ef þú býrð í Reykjavík þá eiga kennarar og foreldrar að geta sótt um aðstoð sálfræðings með sérstöku eyðublaði sem til er í skólanum. Barn með lesblindu á auðvitað rétt á lestrarkennslu en mikilvægast er þó að þú hjálpir honum að lesa heima fyrir. 10-15 mínútur daglega er nóg. Þú getur einnig lesið fyrir hann og látið hann lesa upphátt fyrir þig. Einnig getið þið lesið saman í kór. Æfing í lestri er mikilvægast og árángur næst ekki ef barnið les ekki reglulega.
gangi þér vel.

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur