Athyglisbrestur og próf í skóla

Spurning:

Kæra Guðríður.

Er rétt og eðlilegt að börn með athyglisbrest, og eiga erfitt með að læra, taki próf eins og önnur börn, þó svo að vitað sé til þess að barnið þarf mikla aðstoð og getur þetta ekki?

Bestu kveðjur.

Svar:

Góðan dag og þakka þér fyrirspurnina.

Spurningu þinni verður tæplega svarað með já-i eða nei-i, jafnvel þótt hún sé borin fram með þeim hætti. Svarið er í rauninni miklu flóknara en það e.t.v. virðist vera svona við fyrstu sýn. Við skulum aðeins skoða málið lauslega.

Ég ræð það af bréfi þínu að þú sért foreldri eða mjög nákomin(n) barninu sem þú væntanlega hefur í huga. Ég reikna einnig með því að barnið hafi fengið formlega greiningu um athyglisbrest. Hins vegar nefnir þú ekki hvort lestrarfærni barnsins hafi verið skoðuð og skimuð, eða greind nánar með svokölluð Aston Index prófi. Þú nefnir heldur ekki hvar á landinu barnið býr, en það getur skipt máli í sambandi við þá þjónustu sem því stendur til boða í nánasta umhverfi. Í bréfinu kemur ekki fram hvað barnið er gamalt né hvernig erfiðleikar þess lýsa sér, en ég dreg þá ályktun að áhyggjur þínar séu fyrst og fremst tengdar glímu barnsins við námið sjálft, en síður vandamálum í samskiptum eða félagslegum þáttum.

Af bréfinu verður ekki annað séð en að barnið fái ekki þá kennslu sem það þarf, en eigi samt að mælast með sömu mælistiku og þeir nemendur sem hafa gagn af skólagöngunni. Stálpaðir krakkar sem eru í þessari aðstöðu ráða yfirleitt illa við flest verkefni sem fyrir þau eru lögð í bóklegum greinum. Til að hjálpa þeim reyna foreldrar oftast nær að verja meiri tíma til að lesa fyrir þau og vinna með þeim. Það gengur misvel og sá tími sem sum börn nota til heimanámsins er margfaldur á við það sem almennt gerist og miðað er við sem daglegan vinnutíma. Á heimilunum eru öll kvöld og allar helgar undirlagðar heimanáminu sem verður áþján á allt heimilislífið. Við þetta skapast sá vítahringur að barnið kemur í skólann næsta dag án þess að hafa lokið heimavinnunni. Kennarinn heldur áfram með námsefnið, en barnið ræður ekki við nýju verkefnin sem lögð eru fyrir í tímanum og fer heim með þau óunnin þannig að þau bætast ofan á þann hlaða óleystra verkefna sem fyrir er. Þetta endar náttúrlega bara á einn veg – með ósköpum.

Með öðrum orðum sagt, þessi leið til að hjálpa börnunum er í besta falli gagnslaus. Þótt eitt og eitt próf náist, þá verður glíman stöðugt erfiðari eftir því sem á líður og viðfangsefnin þyngjast og verða flóknari. Hjálparleiðin liggur annars staðar. Hún liggur í því að nemendurnir nái færni í að beita grundvallarverkfærunum, að lesa, skrifa og reikna. Þegar þeir hafa þessa undirstöðuþætti á valdi sínu, reiprennandi og örugglega, ÞÁ FYRST eru þeir tilbúnir í glímuna við orðadæmin, lesgreinarnar og þann fróðleik sem tölvurnar geta fært þeim. Þetta þýðir að það þarf að hvíla tímabundið vinnu barnsins við þau óviðráðanlegu verkefni sem allur tíminn fer í að reyna að ljúka, ef barnið er þá ekki fyrir löngu búið að gefast upp, hætt í skóla eða er þar sjálfum sér og öðrum til stöðugra vandræða vegna hegðunar sinnar. Þess í stað þarf að finna hvaða verkfæri, ef svo má að orði komast, það eru sem barnið getur ekki beitt.

Ef barnið er í 1., 2. eða 3. bekk, þá ætti að vera bersýnilegt hvar á ferlinum því hætti að fara fram. Dæmi: Getur barnið talið hratt, rétt og viðstöðulaust í eina mínútu? Getur það skrifað 120 eða fleiri bókstafi og/eða tölustafi á einni mínútu? Snýr barnið bókstöfum og tölustöfum og/eða speglar þá þegar það skrifar? Víxlar það stöfunum þegar það les? Getur barnið rímað við hljóð? Er barnið læst, les það 170 til 200, eða fleiri atkvæði á mínútu? Og svona fram eftir götum.

Færni-greiningin þarf að vera af þessum toga óháð aldri barnsins. Niðurstaða hennar sýnir HVAR þarf að byrja og HVAÐ þarf að þjálfa. Það að barnið greinist með athyglisbrest þýðir ekki að það eigi ekki að kenna því, heldur þveröfugt. Nemendur eiga að fá kennslu við hæfi og skólinn á að geta sýnt að þeim fari fram þann tíma sem þeir eru þar í námi. Til þess þarf að hlúa alveg sérstaklega vel að barninu og vanda til kennslunnar. Í því sambandi vil ég nefna að til eru mjög vel þekktar og þróaðar kennsluaðferðir (Direct Instruction og Precision Teaching) sem hafa reynst alveg sérstaklega vel fyrir börn sem eiga í erfiðleikum með lestur og skrift, og þau sem fengið hafa greiningu um ofvirkni og athyglisbrest. Kennara barnsins þíns og skólastjóra er velkomið að hafa samband við mig til að fá nánari upplýsingar um þær.

Með grunnskólalögunum sem tóku gildi 1996 er opnað fyrir aukinn aðgang foreldra að skólastarfinu. Ég hvet þig til að nýta það svigrúm um aukna samvinnu foreldra og kennara sem þar skapaðist og ræða málið við umsjónarkennara barnsins og skólastjóra. Það er mjög mikilvægt a&
eth; sambandið milli foreldra og kennara sé ekki aðeins í gangi þegar annar aðilinn er óánægður með hegðun, líðan og námsafköst barnsins og þarf að kvarta, heldur hitt að fólk ræði saman við og við um bestu leiðir sem sjáanlegar eru til að hlúa að barninu.

Ég skil vel að þú hafir áhyggjur af barninu vegna yfirvofandi prófa, en að öllum líkindum er lítið hægt að gera í því sambandi annað en að leyfa barninu að vera inni á skrifstofu hjá sérkennaranum eða í öðru hliðstæðu umhverfi sem því líður vel í, á meðan það tekur prófið. Ef það eru samræmdu prófin í vor sem þú ert að hugsa um, þá fá krakkar sem hafa greinst með sértækan námsvanda að taka próf, t.d. í tungumálum við aðstæður sem eiga að prófa þekkingu þeirra, en ekki eitthvað annað. Ég held hins vegar að þetta sé nokkuð snúið. Einnig sækja skólar til ráðuneytisins um undanþágu frá prófum fyrir einstaka börn í einstaka greinum. Sú leið er farin þegar öll sund virðast lokuð, þótt það sé að sjálfsögðu ekki góður kostur.

Það getur því ráðið úrslitum um velferð barnsins og framtíð í námi og lífi að strax sé hafist handa þegar barnið er byrjað í skóla við að kenna því með þeim hætti að ekki myndist gloppur og glufur, heldur hitt að lærdómsferlið verði gegnheilt, markvisst og þétt. Slíkar kennsluaðferðir halda áhuga nemandans vakandi og koma í veg fyrir margvíslegan vanda í hegðun og samskiptum. Til slíkra verka þarf að styðja mjög vel við bakið á kennurum.

Að öllum líkindum eru fleiri nemendur skólans að glíma við hliðstæðan vanda og þú lýsir og það er spurning hvort þið þurfið ekki að taka mál þeirra fyrir í foreldraráði sem ætti að vera starfandi í skólanum, og jafnvel í nemendaverndaráðinu.

Jafnframt vil ég hvetja þig eindregið til að tala við starfsmenn Landsamtaka Heimilis og skóla í síma: 562 74 75 og Foreldrafélags misþroska barna í síma 581 11 10, og leita nánari ráðgjafar hjá þeim.

Ég vona að umfjöllunin hér komi að gagni og hvetji þig til að leita eftir bestu þjónustu, þótt hún hafi ekki falið í sér já/nei svar við spurningu þinni um réttlæti. „Allir geta lært og lært mikið ef þeim er kennt vel“, líka börn með svonefndan athyglisbrest.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur og kennari.