Auka- og milliverkanir Sivacor

Spurning:

Sæll.

1. Má ég taka fjölvítamín, járn, grasalyf og Fontex saman með lyfinu Sivacor?
2. Ég er með höfuðverk síðan ég fór að taka inn Sivacor, er það eðlilegt?

Svar:

Í fjölvítamíni er yfirleitt m.a. B3 vítamín en hugsanlegt er að það milliverki við Sivacor (simvastatín). Við notkun á lóvastatíni (skylt lyf) og B3 vítamíni hefur komið fram vöðvakvilli og rákvöðvasundrun. Þetta hefur ekki komið fram þegar simvastatín og B3 vítamín hefur verið notað saman en sjúklingar þurfa að fylgjast með ef þeir fara að finna fyrir verkjum, veikleika eða spennu í vöðvum. Að öðru leyti sé ég ekkert athugavert við að taka þessi lyf og efni saman sé einstaklingurinn að öðru leyti hress. Hausverkur er þekkt aukaverkun af Sivacor svo lyfið gæti valdið hausverknum sem þú ert með. Ráðlegt er samt að láta lækni skoða þig til að meta ástandið og setja þig á annað lyf ef svo ber undir.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur