Auka reykingar líkur á fyrirburafæðingu?

Spurning:

Góðan dag.

Ég átti fyrirbura á 28. viku árið 1999, nú er ég ólétt aftur eftir lykkjufall. Er meiri hætta á að ég eignist aftur fyrirbura á sama tíma? Er 28. vika meiri hættutími hjá mér en öðrum? Ef maður reykir eru meiri líkur á fyrirbura, gætu það verið orsök þess að ég átti fyrirbura síðast og ef svo er hversu miklar líkur eru á því?

Takk fyrir óháðan vef.

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Það er rétt hjá þér að fyrri fyrirburafæðing og reykingar auka líkur á að þú eignist aftur fyrirbura.

Reikna má með að u.þ.b. 8 – 10% barna fæðist fyrir tímann. Rannsóknir benda til að fyrirburafæðingum fari fjölgandi (a.m.k. í Bandaríkjunum) og er talið að fátækt og breytingar á lífsstíl spili þar stóran þátt. Í um helmingi tilvika er ekki hægt að finna út hvers vegna konan fæðir fyrir tímann en þeir þættir sem tengjast fyrirburafæðingum eru m.a. að konan hafi áður fætt barn fyrir tímann (mikilvægasti þátturinn), lélegt næringarástand, reykingar, fíkniefnaneysla, streita, erfið vinna, kvillar eða áverkar á legi og sýkingar í fæðingarvegi eða þvagfærum.

Það skynsamlegasta sem þú gerir er að hætta að reykja og ef maðurinn þinn reykir – að hann hætti einnig (vegna þeirra áhrifa sem óbeinar reykingar hafa). Það er ekki bara vegna hættunnar á fyrirburafæðingu heldur minnkar þú þannig líkurnar á að fylgjan gefi sig fyrir tímann og þar með þá hættu sem fylgjuþurrð hefur fyrir barnið, þ.m.t. fyrirburafæðingu og léttburafæðingu. Að auki eru börn mæðra sem reykja í meiri hættu á að fá sýkingar og deyja vöggudauða. Svo það er til mikils að vinna.

Vonandi gengur þetta allt mun betur í þetta skiptið en fylgstu vel með samdráttum og farðu vel með þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir