Spurning:
Sæl.
Mig langar mikið að nota pilluna sem getnaðarvörn en veigra mér við því vegna þess hversu aukaverkanirnar hafa verið miklar hjá vinkonum mínum (miklar þyngdaraukningar, breytingar á vexti, geðsveiflur o.s.frv.). Það sem mig langar að vita er hver munurinn sé á pillutegundum fyrir neytandann? T.d. er sama magn af hormónum (östrógen og gestagen) í þessum tegundum eða er það breytilegt? Eða inniheldur pillan aðeins eitt hormón? Hafa allar gerðirnar sömu aukaverkanir? Hvaða gerð myndir þú mæla með fyrir heilbrigða, 21 ára gamla barnslausa konu?
Takk fyrir.
Svar:
Það eru til þrjár gerðir af pillunni: einfasa-, þrífasa- og lágskammta pillur.
Einfasa pillur hafa allar sama magn östrógena og gestagena. Aukaverkanir eru t.d. höfuðverkur, magakveisa, ógleði, eymsli í brjóstum, breytingar á líkamsþyngd og á kynhvöt og fl.
Þrífasa pillur hafa þrjár mismunandi gerðir af pillum sem eru aðskildar með mismunandi litum. Fyrsti fasinn sem er í 6-7 daga inniheldur lítið af gestagenum en í öðrum og þriðja fasa er magn gestagena meira. Östrógenmagnið getur verið það sama í öllum pillunum (21 stk.) en það getur líka verið aðeins breytilegt á milli fasa. Algengustu aukaverkanir geta verið t.d.: Breytingar á líkamsþyngd, höfuðverkur, geðlægð, breyting á kynhvöt, spenna í brjóstum, milliblæðingar og fl.
Lágskammta pillur hindra ekki egglos eins og eins og hinar tvær gerðirnar heldur hindra þær að slímið í móðurlífinu verði þunnt. Ef slímið er áfram þykkt verður nánast ómögulegt fyrir sæðisfrumurnar að komast að egginu. Lágskammta pillur eru teknar stöðugt og líka á meðan á blæðingum stendur. Aukaverkanir eru t.d. höfuðverkur, meltingaróþægindi, ógleði, bólur, húðþurrkur, bjúgur, eymsli í brjóstum, þyngdaraukning, breytingar á kynhvöt og fl.
Best er að ræða þessi mál vel við lækni, því það sama hentar ekki öllum konum. Ef lágskammtapillan hentar viðkomandi þá er það góður kostur því að aukaverkanir tengdar henni eru minni en fyrir hinar tvær gerðirnar. Það er rétt að minna á það að þó svo að talað sé um þessar og hinar aukaverkanir af lyfjum, eins og t.d. pillunni, þá eru það mögulegar aukaverkanir og aðeins sumir upplifa aukaverkanir og þá aðeins hluta þeirra.
Kær kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur