Aukin blæðingartilhneiging – Epidural?

Spurning:
Ég var að lesa greinina hjá ykkur í sambandi við epidural-deyfingu og sá þar að ekki væri hægt að bjóða öllum konum hana og ein af ástæðunum væri aukin blæðingartilhneiging af einhverjum orsökum. Ég á tvær fæðingar að baki og í báðum hefur blætt mjög mikið og ég hef fengið epirdural í báðum, getur það verið orsökin? Eða hver getur orsökin verið? Ég hef líka heyrt um að gangsetningar með stór börn geti skapað fleiri vandamál en þær leysa, hvaða vandamál geta komið upp?

Svar:
Það er ekki ólíklegt að mænurótardeyfingin hafi átt einhvern þátt í blæðingunum eftir fæðingarnar þínar, t.d. vegna lélegs samdráttar legsins sem er vel þekkt orsök mænurótardeyfingar. Hins vegar eykur epidurallinn ekki beinlínis blæðingatilhneigingu.

Varðandi gangsetningar og stór börn þá fylgir gangsetningum alltaf ákveðin hætta á vandamálum eins og lélegri sótt, oförvun legsins eða að kollur barnsins snýr ekki rétt ofan í grindina. Stærsta áhættan við gangsetningu með stórt barn er axlarklemma sem getur m.a. orsakast af sóttleysi eða að barnið kýlist rangt niður í grindina.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir