Spurning:
Sæl(l).
Ég er 24 ára og lenti í því óhappi fyrir nokkrum dögum að detta fram fyrir mig í knattspyrnuleik og skella harkalega á hægri öxlina. Ég fór samstundis til læknis sem greindi meiðslin á þann veg að ég væri úr „viðbeinslið”, liðpokinn þar væri einnig rifinn og að vöðvarnir í kring rifnir. Hann vitnaði í kenningu Hyppokratesar (300 f.kr.) um að besta lækningin við slíkum meiðslum væri að láta kyrrt liggja… ekki gera neitt, heldur þjálfa upp nýja vöðva.
Upphandleggurinn er siginn um nokkra sentímetra og ég er búinn að missa töluvert afl í öxlinni, til dæmis til að lyfta glasi að munni. Eins byrjar hún að titra ef ég þreytist, og við sérstakar hreyfingar smellur vel í henni.
Mér er sagt að þetta komi allt til og að ég fái meira afl með tímanum … en mig langar að vita hversu mikið afl það sé og hvað ég geti gert til að flýta batanum. Eins hvort eðlilegt sé að það smelli í öxlinni við ákveðnar hreyfingar (mín ímyndun er að beinstubbarnir séu að skella saman)… Ennfremur hvort þetta eigi eftir að hindra mig í leik og starfi í framtíðinni, til dæmis þykir mér gaman að spila skvass og tennis, og hef verið markmaður í fótbolta… verður það kolómöglegt að stunda þetta í framtíðinni?
Ég er sem sagt almennt forvitinn hvað þetta gerir mér? Hvaða takmarkanir þetta valdi mér? Og hvernig ég eigi að flýta bata (hegðun/æfingar).
Svar:
Sæll.
Sæll.
Ég vil byrja á að ráðleggja þér að leita til axlarsérfræðings (bæklunarlæknir með sérhæfingu í axlarmeinum). Ef rétt reynist að liðpoki og vöðvar í kring eru rifnir getur það verið alvarlegt mál. Stundum þarf aðgerð til að sauma saman rifuna en það fer eftir því hversu stór hún er og þarf sérfræðingur að meta það. Ef aðgerð reynist ekki nauðsynleg ráðlegg ég þér samt að leita til sjúkraþjálfara til að fá leiðbeiningar um viðeigandi þjálfun eftir slík meiðsli. Það skiptir máli að þjálfa upp svokallaða stöðugleikavöðva kringum axlarliðinn til að fyrirbyggja að þetta endurtaki sig. Einnig þarftu að forðast snögg átök, lyftur upp fyrir axlarhæð og annað sem veldur þér sársauka.
Þú segir að upphandleggurinn sé siginn um nokkra sentimetra sem er nokkuð mikið og gæti jafnvel bent til þess að hinn eiginlegi axlarliður hafi að einhverju leyti farið úr lið (subluxation). En þá er jafnframt mikilvægt fá endurhæfingu undir leiðsögn sjúkraþjálfara til að þjálfa upp rétta vöðva og fá eðlilegt hreyfimynstur í liðinn.
Hugsanlega gætir þú lifað nokkuð eðlilegu lífi með þennan skaða, þó er mjög ólíklegt að þú gætir stundað þær íþróttir sem þú nefnir, einnig gæti verið erfitt að stunda einhverja líkamlega erfiða vinnu.
Kveðja,
Sigþrúður Jónsdóttir, sjúkraþjálfari í sj.þj. Styrk.