Bakflæði í börnum

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég veit ekki hvort þú getur svarað mér.
Þannig er að við hjónin eigum eina dóttur sem er eins og hálfs árs. Hún var með bakflæði og grét því allan daginn til 7 mánaða aldurs og allt það litla sem fór ofan í hana fór í grátinn og hún þyngdist sama og ekkert. Við höfum oft þurft að fara með hana í endalausar aukaviktanir en að öðru leyti hefur hún verið hress og er mjög fjörugt barn í dag.

Þar sem að okkur langar til að eignast annað barn, því sjálf eigum við nokkur systkini og finnst okkur ekki hægt að hún verði einbirni bara útaf þessari reynslu okkar, þá langaði okkur að spyrja:

Er vitað hversu algengt bakflæði er og hvort það séu miklar líkur á því að slíkt gerist aftur (þ.e er þetta eitthvað sem er arfgengt)?

Með fyrirfram þökk.
Við.

Svar:

Sæl.

Það er erfitt að segja til um það hvort næsta barn ykkar kemur til með að vera með bakflæði. Bakflæði skapast vegna slapprar lokunar á efra magaopi. Slíkt byggingalag er vitaskuld ættgengt, eins og öll líkamsbygging, svo einhverjar líkur eru á því að fyrirhugað barn líkist eldra systkini. Það kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en á reynir. En þið eruð reynslunni ríkari og þekkið einkennin og öll ráðin, svo e.t.v. verður það ekki eins erfitt fyrir ykkur öll og það var með stúlkuna. E.t.v. væri þó skynsamlegt að lofa henni að verða aðeins meira sjálfbjarga áður en þið komið með næsta barn ef það skyldi nú verða óvært líka.

Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir