Fyrirspurn:
Ég er 37 ára gömul kona. Síðastliðna 2 mánuði þá er ég búin að vera með stöðuga verki ýmist á milli brjóstanna, undir brjóstunum, á hliðunum eða á milli herðablaðanna.Verkirnir eru ýmist sárir verkir eða stingir og hlaupa á milli staða. Eg er búin að fara í Hjartavernd og kom glimrandi vel út. Síðastliðið ár hef ég setið 12 tíma á dag fyrir framan tölvu, drukkið mikið magn af kaffi, reykt mikið, hef þyngst og lítið hreyft mig. Fyrir 2 mánuðum var staðan orðin slæm, komin með hjartsláttartruflanir og þegar ég fékk einn daginn að ég held koffíneitrun þá hætti ég að drekka kaffi, fór að drekka vatn, umbreytti matarræðinu yfir í grænmeti,ávexti og fisk og fer út að labba, skokka eða synda á hverjum degi. En þegar ég hætti kaffinu þá komu þessir verkir. Ég er búin að fara til læknis en enginn skoðað mig almennilega, Einn sagði ég væri með bakflæði og ég hækkaði því undir höfði, tók matarsóda tvisvar á dag og lagaði matarræðið en það hefur ekki virkað. Annar sagði þetta væri millirifjagigt og því hef ég farið í nudd ásamt því að synda og hlaupa en ekkert virkar. Ég á ekki erfitt með öndun því ég hef verið að byrja að skokka en í nuddinu hef ég komist að því að ég er einsog opið sár af eymslum. Ég veit ekki hvað ég á gera í stöðunni eða hvert ég á að leita. Getið þið eitthvað ráðlagt mér.
Með vinsemd,
xxxx
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurn,
Ég vil byrja að árétta það að fyrirspurnarþjónusta á Doktor.is er ekki ætlað að koma í stað faglegrar aðstoðar lækna eða annars fagfólks. Mér er ekki í mun að draga í efa þær sjúkdómsgreiningar sem þú hefur fengið.
Það er vel að þú hafir breytt um lífsstíl en ég held reyndar að þú þurfir að gefa þessu lengri tíma. Án efa hefur breytta mataræðið og hreyfing góð áhrif og á eftir að skila þér góðum og jákvæðum árangri.
Ég sendi þér hér tengil inná grein um bakflæði, því þú getur gert ýmislegt þér til hjálpar til að draga úr einkennum þess. Lestu greinina vel.
Varðandi millirifjagigtina þá eru einkenni hennar m.a. verkir í síðu eða brjóstkassa sem versna við djúpa öndun eða aðrar hreyfingar. Sendi þér líka tengil inná grein sem fjallar um millirifjagigt og er að finna á Doktor.is
Hvort sem er um er að ræða bakflæði eða millirifjagigt, þá er það ráð að hætta reykingum, ef þú hefur ekki þegar hætt. Það getur án efa dregið mikið úr einkennum þessara kvilla.
Varðandi eymsli eftir nudd þá er það ekki svo óalgengt, svona í fyrstu, þegar er verið að hrófla við sárum og aumum vöðvum. Þetta tekur allt sinn tíma.
Vona að þessi ráð komi að notum og ég hvet þig til að halda áfram á þeirri góðu braut sem þú hefur nú þegar stigið.
Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Unnur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur