Bakverkur við hlaup og skíðaiðkun

Spurning:

Góðan dag.

Ég geri talsvert af því að hlaupa og fara á gönguskíði. Það sem hrjáir mig er að þegar ég reyni að fara hratt yfir fæ ég verki neðst í bakið, og ef ég held áfram er eins og verkurinn berist niður í síðuna og/eða nárann og í framanverð lærin. Þetta gerist jafnvel þótt ég reyni að hita vel upp áður en lagt er af stað. Ég hef fengið ýmsar útskýringar og ýmis ráð en ekkert hefur virkað enn. Ég tek það fram að ég finn eingöngu fyrir þessu þegar ég er að reyna að hlaupa eða skíða hratt, annars hef ég aldrei átt við bakvandamál að stríða. Getur þú áttað þig á hvað hér er um að ræða?

Kveðja

Svar:

Til þess að greina bakvandamál nákvæmlega er skoðun bæði læknis og sjúkraþjálfara nauðsynleg en ég mun reyna að koma með kenningu um hvað gæti verið orsök vandamálsins. Þar sem þetta kemur eingöngu við mikið álag er sennilega ekki nein alvarleg meiðsli eins og tognun eða útbungun á brjóskþófa á ferðinni heldur er mun líklegra að þetta tengist líkamsbyggingu og líkamsbeitingu þinni.

Ein orsök fyrir þessum einkennum gæti verið að þú sért með vöðvastyttingar í neðri útlimum sem er mjög algengt hjá þeim sem æfa mikið en teygja lítið. frambeygjuvöðvi mjaðmar (iliopsoas) og ferhöfði (quadriceps) sem eru framan á lærinu og einnig hömlungar (hamstrings) sem eru aftan á lærinu. Ef þessir vöðvar eru of stuttir geta þeir valdið því að bakið fettist of mikið þegar hraðinn er aukinn við skíðagöngu eða hlaup og þá verður samþjöppun í neðstu liðunum í mjóbakinu. Það veldur síðan ertingu á sársaukataugar og verk.

Einnig geta einkennin hreinlega komið frá þessum vöðvum eða frá mjaðmarliðnum. Það fer svolítið eftir aldri þínum og hvort þú hafir sögu um einhvern áverka hvort þetta er líkleg skýring. Veikir kviðvöðvar og bakvöðvar geta einnig valdið því að þú aukir fettuna um of þegar þú spyrnir þér af stað og valdi einkennunum.

Þú nefnir að þú hafir reynt ýmis ráð gegn þessu og veit ég ekkert hver þau eru. Það sem ég ráðlegg þér að gera er eftirfarandi. Lærðu góðar styrkjandi æfingar fyrir bak og kviðvöðva (helst hjá sjúkraþjálfara) og gerðu þær reglulega í að minnsta kosti 6 vikur.

Lærðu einnig góðar teygjuæfingar fyrir neðri útlimi og gerðu þær vel og vandlega eftir hverja æfingu og taktu einnig stuttar teygjur sem hluta af upphitun. Það væri gott fyrir þig að lesa grein mína um íþróttameiðsli hér á Doktor.is og þá sérstaklega kaflann um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn meiðslum.

Ef þú finnur ekki fyrir neinum bata eftir að hafa gert þetta í að minnsta kosti 6 vikur verður þú að leita á náðir læknavísindanna eða sætta þig við þessa fötlun. Ef þetta hins vegar skilar þér einhverjum bata þá verður þú að halda þessu áfram ævilangt. Það eina sem dugar í baráttunni gegn bakverkjum er að setja sér langtíma markmið og vinna að því að halda bak og kviðvöðvum í sem bestu formi og að gera liðkandi æfingar til frambúðar.

Kveðja,
Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari