Spurning:
Kæri viðtakandi!
Er líkamanum nauðsynlegt að borða fisk?
Ef svo er, hvaða efni eru það sem eru líkamanum nauðsynleg og maður fær úr fiski? Getur maður fengið þessi efni annarsstaðar frá?
Kær kveðja og með fyrirfram þökk fyrir svarið.
Svar:
Sæl.
Grænmetisætur og fólk sem útilokar einhvern fæðuflokk úr sínu mataræði getur lifað góðu lífi ef það vandar sig. Úr fiskinum færðu mikið af próteinum, en aðrar próteinríkar fæðutegundir svo sem magurt kjöt, egg eða skyr (baunir ef þú ert grænmetisæta) geta komið í staðinn fyrir fiskinn.
Fiskurinn er einnig ágætis járngjafi, en kjöt, egg og gróft korn getur veitt okkur það járn sem við þurfum ef fiskurinn er tekinn út. Joð er það efni sem erfiðast er að fá úr öðrum matvælum, en joð er aðallega að finna í sjávarfangi. Einnig er hægt að finna joð í minna magni í kornvöru sem er ræktuð í joðríkum jarðvegi (nálægt sjó) – en upplýsingar um ræktunarstað er ekki að finna á umbúðum!
Joðskortur er algengt vandamál víða í heiminum, en hefur ekki verið vandamál hér á landi þar sem neysla á fiski er almennt mjög mikil. Joðskortur lýsir sér sem skjaldkirtilsstækkun. Víða í heiminum hefur verið farið út í það að joðbæta salt. Væntanlega er hægt að nálgast joðbætt salt hér á landi þótt algengustu tegundirnar séu án joðbætingar. Athugið að joð getur verið eitrað í of miklu magni svo ekki er talið æskilegt að nota mikið af joðbættu salti ef fiskneysla er algeng. Feitur fiskur gefur okkur mikið af fjölómettuðum fitusýrum sem meðal annars hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfið. Feitur fiskur er einnig ágætis D-vítamíngjafi. Lýsi (sem reyndar er fiskolía – spurning hvers vegna þú forðast fiskinn) er góður D-vítamíngjafi og inniheldur þessar sömu fjölómettuðu fitusýrur og omega 3 fitusýrur sem eru hjartavænar.
Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur