Barn fært um að eignast barn?

Spurning:
Ég var að lesa svolítið  merkilega umræðu á Barnalandi.is. Þar fullyrti eh. að þegar stúlka byrjaði á blæðingum þá væri hún um leið fullfær um að stunda kynlíf, ganga með og eignast börn. Nú, ég held að stúlkur séu að byrja á blæðingum ca. frá 9 ára aldri til 14 ára og ég er alveg með það á hreinu að andlega þá er þetta allt of snemmt til að takast á við áðurtalda hluti (rökræði það hver sem frekast vill) en mig langar að vita hvort þetta geti ekki verið hættulegt líkamlega.

Svar:
Líkamlega er stúlka fær um að verða barnshafandi um leið og hún fer að hafa egglos, en það gerist fljótlega eftir að blæðingar hefjast. Sé hún hins vegar einungis um 11 ára gömul getur meðganga stefnt heilsu hennar í voða og hæpið að hún geti fætt barn á eðlilegan hátt. Þá er ótalinn skaðinn sem barnssálinni væri gerður með því að láta hana ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu og móðurhlutverkið væri henni vitaskuld algerlega ofviða. Þá þarf einnig að spyrja sig hvort svona ungt barn hafi nokkuð með kynlífsiðkun að gera – jafnvel þótt það væri með bráðþroska jafnaldra sínum.

En stórt séð þá er svarið það að sé kona ekki búin að taka út fullan vöxt og byggja upp bein og blóð þá er meðganga alls ekki æskileg og getur í mörgum tilvikum verið mjög skaðleg.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir