Barn heyrnaskert – hvað tekur við?

Spurning:
Hæ. Mig langar að vita það ferli sem foreldar þurfa að ganga í gengum þegar þau komast að því að barnið þeirra er með mikla heyrnaskerðingu. Um námskeið í táknmáli, hver þarf að borga það? Hvernær er hægt að hugsa um kuðungígræðslu ef það er möguleiki fyrir barnið? Barnið býr úti á landi, væri betra ef foreldarnir myndu flytja til rvk. eða er betra að ala það upp í litlu samfélagi þótt aðgangur að ýmissi þjónustu sé lakari?

Svar:
Komdu sæl
Þegar barn greinist með mikla heyrnarskerðingu er foreldrum greint frá niðurstöðunni og barninu venjulega vísað í ákveðnar grundvallarrannsóknir og heyrnartækjameðferð. Það fer svo eftir eðli málsins hvert framhaldið er.  Oftast er heyrnarskerðingin þannig að venjuleg heyrnartæki eru kynnt fyrir barninu og foreldrum og meðferð hefst fljótlega eftir staðfestingu heyrnarskerðingarinnar.  Kuðungsígræðsla kemur ekki til greina fyrr en heyrnarskerðingin er orðin mjög alvarleg þ.e. skilgreind því næst sem heyrnarleysi. Þá er hún kynnt fyrir foreldrum og höfð milliganga um táknmálsnám ef það hefur ekki þá þegar hafist. Ígræðsla sem gerð er snemma á heyrnarlaust fæddum börnum þykir skila mun meiri árangri en sé hún gerð seinna. Því fyrr því betra.  Yngst er aðgerð gerð á 10 mánaða börnum eins og staðan er nú. Táknmálsnám annast Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þar er boðið upp á námskeið fyrir foreldra barnanna og nánustu fjölskyldu og t.d. leikskólastarfsfólk sem hafa með barnið að gera. Námskeiðin greiðast af Samskiptamiðstöð hvar sem þau fara fram á landinu skv. upplýsingum frá umsjónarmanni námskeiðahaldsins á Samskiptamiðstöð.  Varðandi flutning til Reykjavíkur eða ekki þarf að meta það í hverju og einu tilviki fyrir sig. Þurfi barnið kuðungsígræðslu er reynsla varðandi þjálfun og eftirmeðferð langmest á höfuðborgarsvæðinu. Þar er einnig mestur fjöldi táknmálstalandi fólks og nokkur hópur á Akureyri. Ef barnið er ekki í þeirri stöðu að um kuðungsígræðslu eða táknmál sé að ræða heldur heyrnarskert með sín venjulegu heyrnartæki fer allt eftir því hvernig samfélag barnsins er tilbúið að mæta því.  Ef sveitarfélagið (leikskólinn/skólinn) er tilbúið að mæta barninu með sérhæfðum stuðningi og eftirfylgd í gegnum allan leikskólann/grunnskólann þá getur skólagangan gengið vel. En það er líka alger forsenda að þörfum barnsins sé rétt og vel mætt. Félagslega hliðin er svo annað atriði. Með aldrinum verður talmálið æ þyngra á metunum í samskiptum í stað leikja og þá reynir á að allir muni að heyrnarskertir eiga erfitt með að fylgast með töluðu máli í hóp.

Bryndís Guðmundsdóttir
Heyrnarfræðingur
Deildarstjóri barnastarfs
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands