Spurning:
Sæl Dagný.
Ég var að lesa það sem þú hefur skrifað á Doktor.is m.a. um magakveisu. Við hjónin teljum bæði nokkuð öruggt að sonur okkar sem í dag er þriggja vikna sé með magakveisu. Þú talar þar mikið um hve mikið barnið grætur, hjá mér a.m.k. grætur hann ekki mikið enda „slæ" ég hann í bossann þegar ég held á honum og það gerir það að verkum að hann grætur ekki. Stundum dugar þetta í 15-20 mín. og þá sofnar hann. En í nótt var ég með hann í 2 klst og „bossa-bankið“ dugði ekki. Ég tók á það ráð að hrista hann og virtist það duga betur. Hann sofnaði að vísu aldrei enda virtust verkirnir vera mjög slæmir. Ég hef nú tvær spurningar: Er í lagi að hrista börnin svona? Heldur þú að þetta sé magakrampi af þessari lýsingu að dæma.Ps. Ég gleymdi að segja þér að hann fær einhverja 10 dropa fyrir hverja gjöf, hvernig hafa þeir reynst?
Kveðja.
Svar:
Sæll
Mikið er nú gott að þú getur „bankað“ í soninn þannig að honum líði betur. Það gefur til kynna að hann er a.m.k. ekki með slæman magakrampa. Aðgát skal þó höfð við að „hrista“ börn, því til er nokkuð sem kallast „Shaken baby syndrome“ og er mjög alvarlegur hlutur. Sé barn hrist kröftuglega getur það valdið varanlegum skaða eða dauða vegna þess að skemmdir koma á hálsliði og heili barnsins getur skollið utan í höfuðkúpuna og það valdið blæðingum í heila. Þannig að gera skal stóran greinarmun á vægum hristingi eins og þegar maður gengur um og dansar eða hvort maður tekur barnið upp og hristir það – það er stórhættulegt. Þess ber einnig alltaf að gæta að styðja vel höfuð barnsins.
Þegar talað er um magakrampa hjá ungbörnum er yfirleitt um að ræða mjög sterka verki sem koma eftir máltíðir, eða jafnvel um leið og eitthvað kemur niður í magann. Börn með magakrampa kasta oft mikið upp og þeim líður illa. Oft eru þau nær óhuggandi mikinn hluta sólarhringsins. Svo samkvæmt lýsingunni er drengurinn ekki með magakrampa. En hann er greinilega ekkert alsæll svo eitthvað er ekki í lagi. Hvað það er finnst kannski aldrei því oftast vaxabörn upp úr þessum óróleikaköstum um þriggja mánaða aldur. Því er oft talað um þriggja-mánaða-kveisu.
Það er þó góð regla að útiloka að um sé að ræða sjúkdóma eins og bakflæði, þvagfærasýkingu eða eyrnabólgu sem geta verið undirrót óróleika í börnum. Þú spyrð hvort það sé í lagi að hrista ungann. Ef smá hristingur væri hættulegur værum við ekki til. Gættu þess bara að hrista hann ekki svo kröftuglega að hnykkur komi á hálsliðina. Bestar eru hægar, þungar hreyfingar eins og þegar maður dansar vals. Þar sem börn eru í burðarpoka utan á mömmu sinni allan daginn, eins og í Afríku, er ungbarnakveisa fáheyrð. E.t.v. er það þessi upprétta staða barnsins með greiðan aðgang að brjóstinu og sífelldar hreyfingar móðurinnar sem valda því að barnið nær aldrei að verða órólegt. En þar sem brjóstagjöf er meira eins og matartími hjá okkur og börnin liggja útaf þess á milli, hafa þessi óróleikatímabil orðið að vandamáli. Það er óvitlaust að taka burt sama-sem-merkið sem sett hefur verið milli brjóstagjafar og máltíðar og setja frekar sama-sem-merki milli brjóstagjafar og huggunar. Ef barninu líður betur við það að fá brjóst þá er ekkert því til fyrirstöðu að það sé bara á brjósti þar til óróleikinn líður hjá – ekki er óalgengt að það séu 2-4 tímar með smá hléum. Þ.e.a.s. svo framarlega að móðirin treysti sér til þess.
Ef þið eruð viss um að brjóstagjöf sé ekki lausnin dugar stundum að fara í bíltúr með ungann – flestum börnum líður vel í bíl og ná að sofna á góðum rúnt um götur bæjarins. Eins hafa sumir sett barnið í burðarstól og skorðað hann uppi á þvottavélinni meðan hún þvær eða þurrkaranum meðan hann vinnur – sem sagt, titringur virðist laga meinið. Það má líka prófa að nota burðarpoka og fara í gönguferð með drenginn. Það fer oft vel á því að pabbinn geri það meðan mamman hvílir sig fyrir næstu törn. Hvað varðar dropana 10 – sem eru sjálfsagt Miniform dropar – hafa þeir hjálpað sumum börnum að losna við loftmyndun. Eins hafa grasalæknarnir verið að blanda mixtúrur fyrir kveisubörn.
Hvað sem þið gerið – haldið ró ykkar. Þetta líður hjá. Eftir tíu ár lítið þið til baka og hugsið: „hann var nú ekkert svo órólegur – bara smá tíma á kvöldin fyrstu vikurnar“.
Kær kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir